Bjarnargreiði í góðri trú

Málflutningur Miðflokksins um frumvarp félagsmálaráðherra nr. 116/2012 (móttaka flóttafólks og innflytjendaráð) hefur skapað mikla umræðu. Ágallar málsins eru meðal annars mikilvæg atriði sem snúa að kostnaði við frumvarpið. Ekki er tekið tillit til þess afleidda kostnaðar sem umsagnaraðilar benda á. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er vakin athygli á þessum atriðum. Sambandið hvatti Velferðarnefnd Alþingis sérstaklega til þess að skoða verkefni sem tengjast samræmdri móttöku flóttafólks. Séu þau skoðuð er einsýnt að verkefnin eru verulega vanfjármögnuð. Nú þegar má sjá merki þess að fjármagn hafi skort í samningum sem Félagsmálaráðuneytið gerði við móttökusveitarfélög og svo virðist vera að ekki eigi að bæta þeim (sveitarfélögunum) þau viðbótarútgjöld sem mynduðust vegna aukins álags á skólakerfið og félagsþjónustu. Sambandið bendir einnig á að ekki er tekið tillit til aðkomu heilbrigðiskerfisins.

Þetta allt vekur upp spurningar, hvort verið sé að huga að öllum þeim þáttum sem þurfa að vera til staðar þegar lagt er upp í þessa vegferð. Tekið er fram í frumvarpinu að kostnaðurinn verði 23,7 millj. kr. og það segir sig sjálft að sá kostnaður dekkar á engan hátt allt málefnasviðið sem frumvarpið tekur þó til. Það nægir að nefna möguleika til náms, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, atvinnu og samgöngum. Það er eitt að setja fram stefnu en þá verður líka að vera til innistæða fyrir stefnunni. Það þarf að gera ráð fyrir því að til staðar verði stuðningur og þjónusta. Menntakerfið þarf að vera í stakk búið til að mæta fleiri nemendum með mismunandi þarfir, tryggja þarf að kennarar fái faglegan stuðning sem þeim ber. Félagsþjónusta sveitarfélaga þarf að vera nægjanlega undirbúin svo hún geti staðið við sitt hlutverk og aðgengi að heilbrigðusþjónustu þarf að vera fullnægjandi. Auk þessa er Vinnumálastofnun ætlað stórt hlutverk. Spurningum við öllum þessum vafaatriðum þarf að veita svör. Þingmenn Miðflokksins eru sagðir misskilja tilgang frumvarpsins, því sé aðeins ætlað að samhæfa þjónustu sem veitt er og þess vegna verði kostnaður aðeins bundinn við það. En þá verður að benda á að fleiri virðast misskilja efni frumvarpsins miðað við þær umsagnir sem bárust Velferðarnefnd Alþingis.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi

annakolbrun@althingi.is

Greinin birtist á Vísi þann 9. maí, 2021