Breyting á dönskum lögum um móttöku flóttamanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson átti orðastað við dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.  Umræðuefnið voru ný lög sem danska þingið samþykkti þann 3. júní um að senda mætti umsækjendur um alþjóðlega vernd til ríkis utan Evrópu meðan unnið er úr þeirra málum.   

Spurði hann ráðherra hvort það kæmi til greina að mati ráðherrans að vinna með Dönum að þessu verkefni.

SDG:  "Danska þingið hefur samþykkt lög um móttökustöðvar fyrir hælisleitendur utan Evrópu og gerði það með talsverðum meirihluta. Það er gert í því augnamiði að enginn muni sækja um hæli í Danmörku, enginn muni koma til landsins til að sækja um hæli, eins og ég hef nefnt í nokkrum ræðum. Ekki hvað síst er markmiðið að koma í veg fyrir að Danmörk verði áfram áfangastaður glæpagengja sem selja fólki ferðir til Evrópu og vonir um betra líf. Danir vilja beina öllum inn í öruggari og löglega leið. Dönsk stjórnvöld hafa tekið það skýrt fram að þau vilji vinna með öðrum löndum að þessu verkefni."

Spurði Sigmundur dómsmálaráðherra hvort það kæmi til greina að mati ráðherrans að vinna með Dönum að þessu verkefni.

Dómsmálaráðherra sagðist skilja spurningu Sigmundar Davíðs þannig að hann vildi vita hvort Ísland myndi einhliða hætta að taka við fólki í gegnum alþjóðlega verndarkerfið og taka aðeins við fólki í gegnum kvótaflóttakerfið. Síðarnefnda kerfið byggir á því að stjórnvöld í ríki samþykkir að taka við ákveðnum hópi fólks, til dæmis úr flóttamannabuðum, sem síðan er flutt til landsins. Alþjóðlega verndarkerfið tekur á fólki sem komið er til landsins og óskar eftir alþjóðlegri aðstoð.

Sigmundur svaraði því til að þessi hringrásarpistill sé í raun óskiljanlegur, SDG:  "en mér heyrðist að svarið væri nei, að hæstv. ráðherra telji það ekki koma til greina — ég spurði hvort það kæmi til greina — að vinna með dönskum stjórnvöldum að þessu verkefni, sem þau hafa boðið nágrannalöndunum að vera með í. Þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvaða áhrif það muni hafa þegar Danir fara þessa leið og önnur Norðurlönd utan Íslands eru að færa sig í sömu átt, þ.e. að beina fólki í formlega kvótaflóttamannakerfið til þess að það verði ekki fórnarlömb glæpagengja og löndin geti sjálf stjórnað því hverjum er boðið til landsins, og á sama tíma skuli íslensk stjórnvöld fara í þveröfuga átt og ætla sér að tryggja sömu þjónustu, sama fjárstuðning o.s.frv., óháð því hvort menn fara löglegu, öruggu leiðina eða kaupa far með glæpagengjum sem selja ferðir, m.a. til Íslands, eins og komið hefur fram."

Að lokum spurði Sigmundur hvort ráðherra teldi það ekki áhyggjuefni að Ísland skuli þannig fara í þveröfuga átt við hin Norðurlöndin. 

SDG:  "Mun það ekki hafa afleiðingar að mati hæstvirts ráðherra? Og nú minni ég á að umsóknir eru þegar orðnar hlutfallslega sexfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku. Eins og kemur meðal annars fram í skýrslum greiningardeildar lögreglunnar þá hafa þau skilaboð sem íslensk stjórnvöld senda út áhrif á þetta og munu hafa áhrif.  Þetta mun hafa áhrif.

Hvers vegna er hæstvirtur ráðherra ekki einu sinni tilbúinn til að hugleiða það að taka þátt í þessu verkefni með Dönum?"

Upptöku af ræðu Sigmundar Davíðs og svar ráðherra í þingsal má sjá hér