Breyttar áherslur í málefnum aldraðra

Eldra fólki fjölg­ar hratt vegna hærri líf­ald­urs. Hlut­fall aldraðra hef­ur einnig hækkað vegna lengri ævi og færri fæðinga hér á landi eins og víða í okk­ar heims­hluta. Lýðfræðileg­ar upp­lýs­ing­ar staðfesta að hlut­fall fólks 67 ára og eldra af mann­fjölda hækki úr 12% í 19% árið 2040 og verði aldraðir þá orðnir um 76.000 tals­ins. Árið 2060 er gert ráð fyr­ir að þetta hlut­fall verði orðið 22% eða um 97.000 manns. Þeim mun því fækka hlut­falls­lega á vinnu­markaði sem standa und­ir tekju­mynd­un og bera með því uppi vel­ferð og lífs­kjör í land­inu.

Stefnu­mót­un í mál­efn­um eldra fólks

Þess­ar staðreynd­ir kalla á virka stefnu­mót­un í mál­efn­um eldra fólks. Tvennt hef­ur borið hæst í því efni á umliðnum árum, en það er fram­færsla og hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­ili fyr­ir þá sem ekki geta leng­ur búið á eig­in heim­ili. Umræða um fram­færslu lit­ast mjög af skerðing­um á greiðslum al­manna­trygg­inga, ramm­gerðu kerfi sem ein­kenn­ist af skerðing­um greiðslna til þeirra sem hafa tekj­ur af at­vinnu, líf­eyri eða ávöxt­un fjár­muna. Ekki hef­ur verið nægi­lega séð fyr­ir fé til að byggja og reka hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­ili og biðlist­ar eft­ir dvöl á slík­um heim­il­um verið of lang­ir. Brýnt er að bæta úr skák í þess­um efn­um og beina sjón­um að öðrum mik­il­væg­um þátt­um í mál­efn­um fólks­ins sem horfið hef­ur af vinnu­markaði sök­um ald­urs eða missis á starfs­orku. Ber þar hæst þætti eins og lýðheilsu, al­menna líðan og fé­lags­leg sam­skipti.

All­ir skert­ir sem til næst

Með al­manna­trygg­ing­um er leit­ast við að strengja ör­ygg­is­net und­ir þá sem höll­um fæti standa. Aðgerðir til að rétta hlut bág­staddra þurfa að vera mark­viss­ar svo þær gagn­ist sem best. Skilj­an­leg er nauðsyn á að tak­marka eða skerða greiðslur til þeirra sem ekki verða tald­ir þurfa slíkra úrræða með. Reynsl­an sýn­ir hins veg­ar að skerðing­ar á bót­um al­manna­trygg­inga hafa gengið úr hófi fram.

Dæm­in eru skýr. Skerðing­ar bóta al­manna­trygg­inga vegna at­vinnu­tekna hefjast við 100 þúsund krón­ur á mánuði. Sam­an­lögð skerðing og skatt­lagn­ing tekna á tekju­bil­inu 25 þús. til 570 þús. króna get­ur numið yfir 80%. Hvaða öðrum þjóðfé­lags­hópi væri boðið upp á að halda ein­ung­is eft­ir 20% af at­vinnu­tekj­um þegar greidd­ur hef­ur verið tekju­skatt­ur og út­svar og búið er að skerða greiðslur al­manna­trygg­inga um 45%?

Með þessu er fólki gert nán­ast ókleift að bæta hag sinn með auk­inni vinnu í krafti sjálfs­bjarg­ar­viðleitni sem hverj­um manni er eðlis­læg. Hinar óhóf­legu skerðing­ar vegna at­vinnu­tekna ganga gegn sjón­ar­miðum um lýðheilsu í ljósi þess að auk­in lífs­gæði fylgi virkri þátt­töku í at­vinnu­lífi og sam­fé­lagi. Líf­eyris­tekj­ur og vaxta­tekj­ur fram­kalla sam­svar­andi skerðing­ar á greiðslum úr Trygg­inga­stofn­un.

Fé­lags­málaráðherra hef­ur svarað skrif­legri fyr­ir­spurn frá öðrum höf­unda um skerðing­ar sem eldra fólki og ör­yrkj­um er gert að þola á greiðslum al­manna­trygg­inga. Svarið ber með sér að nán­ast all­ir sem til næst eru skert­ir. Þar seg­ir að 93% aldraðra megi þola skerðingu vegna greiðslna úr líf­eyr­is­sjóðum. Hafa for­svars­menn sjóðanna lýst áhyggj­um af þessu og óskað eft­ir breyt­ing­um enda rýri þetta traust á sjóðunum. Lág­tekju­fólk fær ekki elli­líf­eyri um­fram fólk sem borgað hef­ur lít­il sem eng­in iðgjöld í líf­eyr­is­sjóð. Iðgjöld­in gagn­vart þessu launa­fólki birt­ast eins og hver ann­ar viðbót­ar­skatt­ur en ekki fram­lag sem skap­ar rétt til auk­ins líf­eyr­is eft­ir að horfið er af vinnu­markaði.

Lífs­kjara­samn­ing­arn­ir

Lífs­kjara­samn­ing­arn­ir ná ekki til eldri borg­ara og ör­yrkja. Eng­ar hækk­an­ir eða viðbót­ar­bæt­ur eru boðaðar á greiðslum al­manna­trygg­inga á þessu ári um­fram 3,5% hækk­un frá 1. janú­ar 2020. Því síður er minnst á þessa hópa í björg­un­araðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem virðist hafa gleymt þessu fólki.

Raun­hæf úrræði

Mæta þarf þörf­um eldri borg­ara svo þeir geti notið lífs­gæða sem allra lengst og búið á heim­il­um sín­um. Þeim sem þess þurfa bjóðist aðstoð á heim­ili sínu. Tryggja þarf fram­boð þjón­ustu­íbúða fyr­ir þann hóp sem þarfn­ast aðstoðar á efri árum í ör­uggu um­hverfi. Þegar þessu slepp­ir og eldra fólk þarf enn frek­ari umönn­un er nauðsyn­legt að í boði séu úrræði eins og hjúkr­un­ar­heim­ili. Eyða þarf óvissu og biðlist­um. Ekki kem­ur til greina að aldraðir séu send­ir langt frá sín­um nán­ustu þar sem skort­ur er á rým­um í næsta ná­grenni.

Skort­ur á hjúkr­un­ar­rým­um

Mörg und­an­far­in ár hef­ur verið viðvar­andi skort­ur á hjúkr­un­ar­rým­um. Ríkið hef­ur ekki nýtt lög­bund­inn sjóð, Fram­kvæmda­sjóð aldraðra, til þess sem hann var stofnaður til, þ.e. í upp­bygg­ingu og viðhald hjúkr­un­ar­heim­ila, held­ur hef­ur veru­leg­ur hluti fjár­ins runnið til rekstr­ar. Á fyrstu tíu árum eft­ir hrun voru þannig veitt­ir yfir 11 millj­arðar króna á nú­gild­andi verðlagi úr sjóðnum í annað en hann var stofnaður til. Fram­lög til ný­bygg­inga og end­ur­bóta voru aðeins 28,5% af ráðstöf­un­ar­fé sjóðsins 2018. Skort­ur á rým­um hef­ur skapað langa biðlista og yf­ir­fulla spít­ala fyr­ir fólkið sem er of veikt til að vera heima við. Gripið hef­ur verið til hróker­inga fólks í pláss fjarri fjöl­skyldu sinni og heima­byggð. Mik­il­vægt er að auka fram­boð á hjúkr­un­ar­rým­um, en mörg hjúkr­un­ar­heim­ili glíma við al­var­leg­an viðvar­andi rekstr­ar­vanda sem kem­ur á tíðum niður á hlutaðeig­andi sveit­ar­fé­lög­um. Ástæða þess er afstaða rík­is­valds­ins í samn­ing­um um þjón­ustu á heim­il­un­um sem birt­ist í að kröf­ur rík­is­ins um gæðaviðmið í þjón­ustu á heim­il­un­um og greiðslur rík­is­ins fyr­ir hana fara ekki sam­an.

Sveit­ar­fé­lög borga hall­ann fyr­ir ríkið

Rekstr­ar­vandi margra hjúkr­un­ar­heim­ila hef­ur lagst þungt á mörg sveit­ar­fé­lög. Kröf­ur um þjón­ustu hafa auk­ist og fólkið sem kem­ur inn á heim­il­in hef­ur verið veik­ara en áður. Lög um mál­efni aldraðra mæla fyr­ir um að dag­gjöld standi und­ir rekstri hjúkr­un­ar­heim­ila. En þetta hef­ur reynst í orði en ekki á borði. Mis­mun­ur­inn hef­ur í mörg­um til­fell­um verið greidd­ur af sveit­ar­fé­lag­inu, þannig að skatt­fé íbúa sveit­ar­fé­laga fer í verk­efni sem rík­inu ber að sinna. Nú er svo komið að nokk­ur sveit­ar­fé­lög hafa sagt upp þjón­ustu­samn­ing­um við Sjúkra­trygg­ing­ar rík­is­ins og fleiri íhuga þá leið. Nú þegar er sú staða upp á ten­ingn­um á Ak­ur­eyri, Hornafirði og í Vest­manna­eyj­um. Óboðlegt er að ekki sé greitt fullt verð fyr­ir lög­bundna þjón­ustu sem inna þarf af hendi á þess­um stofn­un­um.

Vand­inn er viðvar­andi og fer vax­andi

Öldruðum hef­ur fjölgað úr rúm­lega 34 þúsund árið 2011 í tæp­lega 45 þúsund á síðasta ári. Á annað þúsund manns bíða eft­ir hvíld­ar­inn­lögn og tæp­lega 400 eru á biðlista eft­ir hjúkr­un­ar­rými og um 90 manns bíða eft­ir dval­ar­rými. Við þess­um vanda þarf að bregðast. Hjúkr­un­ar­rým­um fjölg­ar of hægt miðað við þörf­ina og hætt er við að biðtími muni lengj­ast. Á meðan bíða á annað hundrað manns á Land­spít­al­an­um og ná­læg­um sjúkra­hús­um eft­ir hjúkr­un­ar­rými. Þetta eyk­ur á álagið á spít­al­ana með til­heyr­andi kostnaði fyr­ir sam­fé­lagið.

Lífs­gæði á efri árum

Hæfi­leg hreyf­ing, holl og góð nær­ing og sam­skipti við fjöl­skyldu og vini er stór þátt­ur í góðri líðan á efri árum og tryggja þarf eldri borg­ur­um aðgang að þess­um þátt­um. Auk­in hreyf­ing hjá flest­um ald­urs­hóp­um þarf einnig að ná til þeirra eldri og má þar t.d. benda á ár­ang­ur sem náðst hef­ur með heilsu­efl­ingu Janus­ar Guðlaugs­son­ar. Bætt lík­am­legt ástand fram eft­ir aldri eyk­ur lífs­ham­ingju svo um mun­ar og spar­ar fjár­muni. Á meðan fólk þarf ekki að leggj­ast inn á hjúkr­un­ar­heim­ili ber að gera öldruðum kleift að búa heima eins lengi og unnt er. Fyr­ir aðra hópa hent­ar dagdvöl og slík pláss þurfa að vera fyr­ir hendi á þeim tíma sem hent­ar hverj­um og ein­um. Vel út­færð úrræði, miðuð við þarf­ir ólíkra hópa, spara stór­fé, auka lífs­gæði og draga úr álagi á spít­ala og hjúkr­un­ar­heim­ili.

Raun­hæf­ar til­lög­ur til úr­bóta

Miðflokk­ur­inn vill bæta hag líf­eyr­is­fólks og hverfa frá hinum hóf­lausu skerðing­um sem það býr við. Hef­ur flokk­ur­inn lagt fram raun­hæf­ar og full­fjár­magnaðar til­lög­ur í þessu efni við af­greiðslu fjár­laga. Þær hefði þess vegna mátt fram­kvæma þegar í stað og rétt væri að hafa þær með í aðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar við ríkj­andi aðstæður. Hverfa má frá skerðing­um greiðslna al­manna­trygg­inga vegna at­vinnu­tekna upp að hæfi­leg­um tekju­mörk­um án út­gjalda fyr­ir rík­is­sjóð sem nyti viðbót­ar­skatt­tekna, eins og sýnt hef­ur verið fram á. Draga ber úr skerðing­um greiðslna al­manna­trygg­inga vegna líf­eyr­is- og fjár­magn­stekna. Ákveða ber að greiðslur al­manna­trygg­inga fylgi ákvæðum lífs­kjara­samn­ing­anna svo þeir sem minnst hafa verði ekki skild­ir eft­ir í þessu til­liti.

 

Höfundar:  Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson þingmenn Miðflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 28. september, 2020