Brotin loforð gagnvart barnafólki í Mosfellsbæ

„Brotin loforð alls staðar, brotin hjörtu á dimmum bar, brotnar sálir biðja um far, burt, burt heim.“
Texti Bubba Morthens í samnefndu lagi lýsir stöðu fjölmargra sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, átta sig ekki á hvers vegna minna er á milli handanna og ekki sé hægt að bjóða börnum sínum betra viðurværi. Verst er þegar aðilar í samfélagi okkar gefa sig út fyrir að vera bestir til að veita bjargirnar og þeir langbestu til að gæta fjárhags ríkis og sveitarfélaga án innstæðu. Hefur það verið raunin? Já, svo sannarlega. Flestir stjórnmálamenn, þ.á m. öll vinstri stjórnin 2009-2013, voru tilbúnir að láta almenning borga verðbætur langt umfram það sem eðlilegt var. Aðeins einn aðili kom þarna til móts við fólkið í landinu, þ.e. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt þeirri ríkisstjórn sem hann stýrði eftir kosningarnar 2013.
Á tímabili eftir hrun fjármálakerfisins 2008 mátti sjá fulltrúa margra flokka ganga gegn hagsmunum almennings og voru tilbúnir, jafnvel sem þingmenn og ráðherrar, að ganga ansi langt í að brjóta bæði loforð og lög í landinu gagnvart þeim sem þá áttu um sárt að binda og misstu eignir sínar og lífsviðurværi.
Nýlega kom ég í pontu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og gerði athugasemd við brotin loforð meirihlutans í Mosfellsbæ þegar kemur að leikskólagjöldum. Á fundi bæjarstjórnar númer 795, þann 8. desember 2021, vitnaði ég í loforð meirihlutans sem lesa má í málefnasamningi V- og D-lista frá 5. júní 2018 en þar segir orðrétt: ,,Við viljum: að leikskólagjöld lækki um 25% á kjörtímabilinu án tillits til verðlagshækkana.“
Þess ber að geta að undir þennan málefnasamning ritar oddviti VG og Sjálfstæðisflokksins. Hver er raunin. Jú, raunin er sú að lækkunin nam aðeins 14,3% en ekki 25% eins og lofað var. Í ræðu bæjarstjórans á fundi nr. 795 í bæjarstjórn segir aftur orðrétt (feitletrun mín):
,,Sko, varðandi þetta síðasta, lækkun leikskólagjalda þá…þá…he…þá er mér ljúft að svara því. Það vill svo bara til ágæti bæjarfulltrúi að…að það er búið að gera meira en loforðið segir til um. Loforðið segir til um það að lækka leikskólagjöld um 25% að…að…án tillits til verðlags. Það er að segja að þetta þýðir það að 25 prósentin eru ekki…eru með verðlagsbreytingum inn í. Við erum búin að lækka þau um 5% á ári og sem þýðir þá það að við erum búin að lækka þau meira og sennilega töluvert meira heldur en…heldur en þetta sem stendur í málefnasamningnum segir. Þannig að það sé nú á hreinu.“
Undir þetta tók oddviti VG og botnaði ekkert í athugasemd minni, þrátt fyrir að hafa lesið og vitnað sjálfur beint í framangreindan málefnasamning.
Hvað gengur þessu fólki til? Þess ber að geta að þeir sem keppa nú um oddvitasætið í Sjálfstæðisflokknum, formaður bæjarráðs og formaður fræðslunefndar, gerðu enga athugasemd við málflutning þennan. Hvers vegna?
Fólk sem gefur sig út fyrir að vera í stjórnmálum verður að taka ábyrgð. Þetta fólk sem að framan er getið er ekki að taka ábyrgð og beinlínis stunda það að ganga gegn eigin samningum og gera illt verra með því að svíkja loforð til kjósenda og reyna að draga fjöður yfir eigin villur, mistök og vanþekkingu.
Hér er verið að brjóta loforð á barnafólki í Mosfellsbæ. Vilja bæjarbúar kjósa slíkt fólk til framhaldandi valda.

Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Greinin birtist í Mosfellingi 13. janúar, 2022.