COVID-19 og Reykjavíkurborg

 

COVID-19 og Reykjavíkurborg

 

Við lifum skrýtna tíma núna. Alveg fordæmalausa. Reykjavíkurborg er búin að kynna sínar fyrstu áherslur vegna Covid-19. Var ég sammála þessum aðgerðum og treysti ég á að enn frekari tillögur eigi eftir að koma fram til að takast á við vandann.

 

Flestar af þessum tillögum voru frestunartillögur sem ég er ekki viss um komi að notum eða gagni. Það er einungis gálgafrestur að fresta gjalddögum. Áhrifin af varanlegri lækkun gjaldskráa borgarinnar þ.m.t. fasteignagjalda og B-hluta fyrirtækja er lang skilvirkasta leiðin til að fleyta fólki yfir þessa erfiðleika auk lækkun útsvarsprósentu. Það er hægðarleikur og mjög einföld ákvörðun.

 

Sveitarfélögin taka til sín fyrstu tæpu 15% sem á launaseðlum birtist sem skattur. Þegar útsvarsprósentunni er náð fær ríkið fyrst til sín skattinn. Reykjavík er með útsvarið í hæstu mögulegu prósentu samkvæmt lögum. Hærra er ekki hægt að komast. Það er sorgleg staðreynd að Reykjavíkurborg er á engan hátt reiðubúin að mæta skammtímaáföllum eins og nú ganga yfir fjárhagslega séð. Það er ekkert borð fyrir báru og borgin rétt hangir réttu megin við núllið á einskiptistekjum og reiknikúnstum Félagsbústaða í uppgjörinu.

 

Engin fyrirhyggja hefur verð sýnd í rekstrinum og nú er komið að því að Reykjavíkurborg þurfi að framkvæma tillögu sem ég lagði fram í upphafi kjörtímabilsins um hagræðingu og sparnað. Borgin væri á allt öðrum stað fjárhagslega í dag hefði sú tillaga verið samþykkt þá og væri vel undirbúin til að mæta þessum fjárhagslegu áföllum. Inn í þessar fyrstu tillögur meirihlutans vantar alfarið áætlun um hagræðingu og sparnað sem verður að koma inn í fjárhagsáætlun 2021. Sú vinna er óhjákvæmileg.

 

Við erum líka að horfa upp á hrun í ferðamannaiðnaðinum. Lauslega áætlað má reikna með að vel á þriðja þúsund íbúðir komi inn á markaðinn eða fari í útleigu sem áður voru leigðar til ferðamanna. Á þeim forsendum tel ég það ekki rétta stefnu að tala um stórfellda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Nær væri að leysa hinn gríðarlega fráflæðisvanda Landsspítalans og setja allan kraft í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Reykjavíkurborg hefur ekki sinnt því verkefni og nú er lag – það er að segja þegar allt kemst í samt horf.

 

Vigdís Hauksdóttir Borgarfulltrúi Miðflokksins.

 

Greinin birtist þann 2. apríl síðastliðinn í Grafarholts- Árbæjar og Grafarvogsblöðunum