Djöfla­eyjan, raun­veru­leika­þáttur í boði ríkis­stjórnar

Allflestir íslendingar kunna þríleik Einars Kárasonar um Djöflaeyjuna, Gulleyjuna og Fyrirheitna landið utanbókar. Þríleikurinn sem öllu jöfnu er nefnd Djöflaeyjan er nýtt sem kennsluefni í skólum, hún sviðsett í áhuga- sem og atvinnuleikhúsum og auk þess hefur verið gerð um hana bíómynd. Bækur, leikrit og bíómynd sem slegið hafa öll vinsældamet.

Á tímum þverrandi vinsælda ríkisstjórnarinnar hefur hún nú brugðið á það ráð að blása til raunveruleikaþáttar þar sem þemað er Djöflaeyjan. Til þess að raunveruleikaþátturinn geti orðið að veruleika eru nú í bígerð breytingar á skipulags- og byggingarlöggjöf. Breytingar sem hafa fengið vægast sagt dræmar undirtektir hjá flestum sveitarfélögum og hagsmunasamtökum. Í umsögnum þeirra segir m.a. að breytingarnar séu til þess gerðar að búa til gettó, að þær séu á kostnað jaðarsettra einstaklinga og að þær breytingar sem varða heilbrigðis og hollustuhætti, auk öryggisþátta séu ekki taldar ásættanlegar. Þrátt fyrir þessar dræmu undirtektir hagsmunaaðila að þá ætlar ríkisstjórnin að þrýsta þessum breytingum á skipulags- og byggingarlöggjöf í gegnum kerfið svo reisa megi m.a. Thulekamp, fyrir fimmtán hundruð hælisleitendur.

Hvort þessi ráðahagur ríkisstjórnarinnar beri þann ávöxt að vinsældir við hana aukist skal ósagt látið en ljóst er að á næstunni munum við almenningur fá að fylgjast með og komast í snertingu við daglegt líf fólksins í Thulekampi. Daglegu lífi fólks sem á að heyra sögunni til og ekki vera efni í raunveruleikaþátt á tuttugustu og fyrstu öldinni.

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í sveitarfélaginu Árborg.

Greinn birtist á Vísir.is 22. maí, 2023.