Duga þessir brauðmolar?

Duga þessir brauðmolar?

Í kjölfar Covid-19 hafa stjórnvöld víða um heim þurft að takast á við fordæmalausar aðstæður þar sem á sama tíma og lífsbjargandi ákvarðanir eru teknar þá smám saman lamast hjól efnahagslífsins. Við höfum rétt eins og aðrar þjóðir þurft að taka stórar ákvarðanir og búa okkur undir það sem koma skal.

Á dögunum kynntu formenn ríkisstjórnarflokkanna fyrstu aðgerðaráætlun til að bregðast við þessum aðstæðum og vona ég svo sannarlega að næsta aðgerðaráætlun verði betur útfærð. Í þessari fyrstu aðgerðaráætlun eru nokkrir ágætir punktar svo sem niðurfelling gistináttaskatts, hækkuð endurgreiðsla virðisaukaskatts, greiðslur til þeirra sem eru í sóttkví, barnabótaeingreiðsla svo ég tali nú ekki um rafræna gjafakortið. Það er vert að þakka það sem vel er gert en spurning hvort þessir brauðmolar duga?

Einnig er inni í þessum fyrsta hluta frá ríkisstjórninni svokölluð hlutastarfaleið en hún á að hvetja til þess að ráðningasamband haldist milli atvinnurekanda og launþega. Fjöldi fyrirtækja hefur nú þegar leitað í þetta úrræði og sjá menn í hendi sér að hér hafi orðið vanmat á aðstæðum og umfangi. Það er galin hugmynd að stór og stöndug fyrirtæki geti leitað í vasa ríkisins þrátt fyrir digra og góða sjóði.

Inni í þessari aðgerðaráætlun var viðspyrnan þar sem ríkið eykur fjármagn í fjárfestingar og framkvæmdir til að fjölga störfum og auka nýsköpun. Þá á einnig að setja fjármagn í markaðsherferð fyrir landið eftir að samgöngubanni lýkur, veiran verður í rénum og við tekur tími uppbyggingar. Hér er ástæða til að staldra við, viðspyrnan er góð svo langt sem hún nær en hvað svo? Hér er um að ræða faraldur sem á eftir að dreifast um heimsbyggðina og ekki hægt að gera ráð fyrir því að markaðssetning verði að neinu gagni fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Hvað getum við gert fyrir það fólk sem vinnur í stærstu atvinnugrein Íslendinga á meðan þetta ástand varir? Hvað eiga þessar fyrirhuguðu framkvæmdir að skapa mörg störf og hvernig störf? Þó bjartsýnin sé mikilvæg í árferði sem þessu geta skýjaborgir og óraunsæi orðið landi og þjóð dýrkeypt. Það sama á við illa ígrundaðar áætlanir sem ganga of skammt og skortir rétta sýn á framhaldið. Við hljótum öll að sjá að hér verða ekki orðin þéttsetin hótel í júlí eða ágúst.

Stærstur hluti aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar eru greiðslufrestir hverskonar, brúarlán til fyrirtækja þar sem ríkið ábyrgist hluta lánanna með fyrirfram skilgreindum skilyrðum og svo útgreiðslu skyldusparnaðar fólks. Heildarumfang aðgerða hljóðar uppá 230 milljarða og er ríkisstjórninni tíðrætt um þá upphæð. Hér er látið í veðri vaka að verið sé að leggja fram gríðarlega fjármuni fyrirtækjum og einstaklingum til handa en svo er nú aldeilis ekki.  Okkur er gefin kostur á að endurraða í veskjunum okkar og taka lán.  Ekki slá ryki í augu okkar nú á tímum sem þessum þegar ríkja þarf, sem aldrei fyrr, traust á stjórnmálin. Traust á þá sem fara með valdið til þess að koma okkur út úr þessum fordæmalausu aðstæðum.

Nú er ekki rétti tíminn fyrir ákvarðanir teknar í pólitískum tilgangi til að ná stórsigri í næstu kosningum. Nú er tími til að opna á samtalið og leita leiða til að virkja þann mannauð og kraft sem í þjóðinni býr. Nú er tíminn til að taka höndum saman og komast þannig í gegnum þessa efnahagslegu vá sem steðjar að allri heimsbyggðinni.

Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir

Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík