Eflum lögreglu og landamæraeftirlit

Miðflokkurinn hefur lengi talað fyrir því að lögreglan og þeir sem sinna landamæraeftirliti fái betri úrræði og að veruleg endurbót verði gerð á málaflokknum. Í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá árunum 2015, 2017 og 2019 kemur fram að umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi/erlendra glæpahópa í fíkniefnaviðskiptum hér á landi fari vaxandi og þar séu á ferð aðilar sem ýmist flytjist hingað eða komi tímabundið. Þetta er hættuleg þróun.

Lögreglan hefur endurtekið kallað eftir úrbótum án þess að við því sé brugðist. Því miður hefur lítið verið aðhafst í þessum málaflokki enda skortir bæði umræðu og fjármagn. Á sama tíma höfum við séð merki þess að glæpasamtök hafa náð fótfestu hér á landi. Tilraunir til að lögleiða fíkniefni og breytingar á hælisleitendakerfinu eru ekki líklegar til að koma koma í veg fyrir uppgang glæpasamtaka, heldur þvert á móti. Misnotkun hælisleitendakerfisins gerð enn auðveldari og um leið einfaldara fyrir glæpamenn að selja fólki aðgang að kerfinu.

Landsmenn hafa fengið viðvaranir í skýrslum ríkislögreglustjóra sem lýsa vandanum eins og hann er í raun. Þar er upplýst hvernig fjölgun erlendra glæpagengja hefur breytt afbrotaheiminum á Íslandi og leitt til aukinnar hörku, meira framboðs af sterkari fíkniefnum, mansals og ekki síst misnotkunar á hælisleitenda- og velferðarkerfinu.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu hættulegir þessir hópar eru og enginn vafi að þjóðinni stafar mikil ógn af þeim. Ég spyr mig stundum af hverju við höfum ekki áttað okkur á þessu fyrr enda hefur lögreglan lengi bent á vandann. Mögulega vegna þess hversu leynt starfsemin fer og almenningur verður ekki var við hana dagsdaglega.

Að fenginni reynslu og í ljósi breyttra aðstæðna þarf að endurskoða Schengensamkomulagið.

Ef litið er á þetta heildstætt þá sjáum við að lögreglan er í raun of fámenn. Hún virðist eiga í erfiðleikum með að sinna sínum einföldustu skyldum. Er þá hægt að búast við að hún geti sinnt stærri málunum sómasamlega eða afstýrt því að vopnaðir menn sem ganga um með byssur og eru reiðubúnir til þess að fremja glæpi komi fyrirætlunum sínum í framkvæmd, eins og dæmin sanna? Ógnin er mikil og því þarf að bregðast skjótt við. Lögreglan hefur lýst yfir þörf á sérstakri löggæsludeild til að taka á skipulagðri brotastarfsemi. Undir það skal tekið hér.

Í vetur lögðu þingmenn Miðflokksins fram skýrslubeiðni um viðbrögð yfirvalda við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi. Þingskapalög kveða á um að ráðherra skuli svara slíkri skýrslugerð innan tíu vikna.

 

Finney Aníta Thelmudóttir er laganemi og skipar þriðja sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 20. ágúst, 2021