Ekki orð um landbúnað eða sjávarútveg

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tókst hið ómögulega í ræðu sinni við stefnuræðu forsætisráðherra; að minnast hvorki á landbúnað né sjávarútveg.  Ekki eitt orð um tvær af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar.
 

Hvernig má það vera að ráðherra þessara atvinnugreina sjái ekki ástæðu til þess að fjalla um þær og þá framtíðarsýn sem hann hefur um þessar greinar? Hvernig er starfsumhverfi þeirra? Skattlagning? Sóknarfæri? Hættur og hindranir? Hversu umhverfisvænar eru þær? Ekkert af þessu rataði í ræðu ráðherra. Það er því afar freistandi að hugsa sem svo að ráðherrann hafi litla eða enga framtíðarsýn fyrir landbúnað og sjávarútveg.

Ef ráðherranum er ekki kunnugt um að hann er ekki búinn að uppfylla lagaskyldu sína þá er honum bent á það hér með. Samkvæmt lögum átti hann að vera búinn að skipa í verðlagsnefnd búvara 1. júlí sl. Hvers vegna hefur það ekki verið gert? Gerir ráðherrann sér ekki grein fyrir því hve mikilvægt það er fyrir landbúnaðinn að þessi nefnd virki? Við hljótum að kalla eftir skýringum á því hvers vegna það hefur ekki verið gert.

Landbúnaður skiptir okkur höfuðmáli því áætlað er að íslenskur landbúnaður sjái Íslendingum fyrir helmingi þeirrar orku sem við neytum. Hann er umhverfisvænn og skilar okkur hollum gæðavörum. Það eru sóknarfæri í landbúnaði ef starfsumhverfið er bætt og ýtt enn frekar undir nýsköpun og samstarf innan greinarinnar. Landbúnaðurinn er ekki bara fyrir landsbyggðina því neytendur um allt land vilja góðar og hollar vörur en eðlisins vegna fer framleiðslan að mestu fram utan höfuðborgarsvæðisins.

Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu gerum hins vegar ekki minni kröfur um gæði, hollustu og umhverfismál en íbúar landsbyggðarinnar. Því er mikilvægt að miðla til neytenda hvaðan varan kemur, hvert kolefnisspor hennar er, hvaða lyf eru notuð við framleiðsluna o.s.frv.

Árið 2017 var undirritaður fyrsti flutningsmaður frumvarps sem m.a. gerði ráð fyrir að fyrirtækjum í kjötiðnaði yrði heimilt að starfa saman líkt og heimilt er í mjólkuriðnaðinum. Aðrir þingmenn hafa síðan tekið málið upp, sem er fagnaðarefni.

Íslenskur landbúnaður er í raun engum líkur m.a. vegna smæðar sinnar og fjarlægðar frá markaði sem gerir það að verkum að margs konar kostnaður er hlutfallslega hærri en í öðrum löndum. En á sama tíma er hann umhverfisvænn og framleiðslan heilsusamlegri en víða annars staðar. Samkeppnin við innfluttar verksmiðjuframleiddar landbúnaðarvörur er því skökk og við því þarf að bregðast. Ein leiðin er að heimila samstarf sem þýðir hagkvæmari iðnað sem ætti að skila bændum aukinni hlutdeild í verðlagningunni og neytendum um land allt áfram hollum og góðum matvælum ásamt stöðugleika í framboði.

Veljum íslenskt.

 

Höfundur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvesturkjördæmis og varaformaður Miðflokksins.   

gunnarbragi@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 20. september, 2019