Ekki stafur um áherslu á iðn- og verknám að ástandi loknu!

Ekki stafur um áherslu á iðn- og verknám að ástandi loknu!

Enginn veit hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn mun hafa hér á landi, en líklegt er að skaði veirunnar muni snerta allt mannlegt líf meira eða minna. Fyrirtæki berjast í bökkum með ófyrirséðum afleiðingum og líf fólks er ekki samt. Margir námsmenn í bóklegu námi framhaldsskóla og háskóla stunda þó fjarnám af miklum móð og reyna að láta ástandið og einveruna ekki hafa áhrif á líðan og námsframvindu. Þökk sé einnig metnaði kennara og stjórnenda skóla. Þeir sem eru í iðn- og verknámi hafa ekki eins góð tök á að sinna námi, sem einnig gæti haft mikla þýðingu við uppbyggingu eftir faraldurinn. Þar má búast við brottfalli úr námi og sér í lagi ef ekkert verður að gert.

Samtök iðnaðarins hafa hvatt fólk til að kaupa íslenskt; Íslenskt – gjörið svo vel! Áhersla á íslenskar vörur, íslenska verslun og þjónustu ætti að vera forgangsmál okkar allra. Við ættum öll að kappkosta að skipta við litlu fiskbúðina og kjötbúðina, litla bakaríið, litla veitingamanninn, litlu blómabúðina með íslensku blómin og svo mætti lengi áfram telja. Við getum það, en hvað svo?

Hvernig hafa stjórnvöld byggt upp menntun í landinu og hvernig er ætlunin að uppbygging menntunar verði að ástandi loknu?

Ég vil hér gera að umtalsefni uppbyggingu menntunar og starfa á sviði iðn- og verkþekkingar. Í  allt of mörg ár hafa ráðherrar menntamála, úr röðum núverandi stjórnarflokka einblínt á bóklegt nám á kostnað verklegs náms og þar með sett verk- og iðngreinar skör neðar. Það hefur haft þau áhrif að ungt fólk hefur fremur valið bóklegt nám og viðhorf almennings til iðn- og verknáms hefur verið neikvæðara en til bóklegs náms. Misbrestur hefur orðið á því að aðalnámsskrá grunnskóla hafi verið virt, en aðalnámskráin mælir fyrir um kennslu í verk,- tækni,- og listgreinum. Þessi stefna hefur haft mikil neikvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífsins.

Sú var t.d. tíðinn að stórar smíðadeildir voru starfræktar við gömlu héraðsskóla landsins. Heima á Laugum í Suður- Þingeyjarsýslu smíðuðu menn á einum vetri heilu hjónarúmin, með áföstum náttborðum, skrifborð og margvíslega innanstokksmuni úr fallegri eik.

Á undanförnum áratug eða tveimur hafa fylgjendur iðn- og starfsnáms hamrað á nauðsyn breytinga og fjöldi skýrslna verið skrifaðar. Á síðasta ári sendu Samtök Iðnaðarins frá sér metnaðarfulla atvinnustefnu; Mótum framtíðina saman, sem tekur á fyrrgreindum vanda.  Í framhaldinu var svo skrifað undir samkomulag SÍ við ríkið og sveitarfélög um að auka áhuga ungmenna á starfs- og tæknimenntun. Það má fagna frumkvæði Samtaka iðnaðarins, en hætt er við að fagur vilji ríkisvaldsins verði nú sem orðin tóm. Enginn tímarammi virðist settur, aðgerðir ekki kostnaðarmetnar, engin nánari útfærsla aðgerða, ekki tiltekið hver ber ábyrgð á hverri aðgerð og ekki er getið um mat og eftirlit.

Ríkisstjórnin hefur nú birt aðgerðir sínar til að mæta áhrifum Kórónaveirunnar, en ekki er þar stafur um uppbyggingu verk- og iðnnáms. Það er mikið áhyggjuefni. Skólahald er nú með ákveðnu sniði vegna veirunnar og alveg ljóst að verklegt nám situr meira og minna á hakanum, enda erfitt viðfangs vegna sóttvarnareglna. Það veldur því miklum vonbrigðum að ríkisstjórnin hafi ekki séð ástæðu til að undirbúa sérstakar aðgerðir til þess að efla þessa mikilvægu menntun, sem er undirstaða þess að Íslendingar geti byggt á eigin framleiðslu og verslun í þeim fjölmörgu iðn- og verkgreinum sem landið þarfnast. Eflum íslenskt!

 

Una María Óskarsdóttir

Varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Morgunnblaðinu 3.4.2020