Eldhúsdagsumræður

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður) fóru fram á Alþingi þriðjudaginn 23. júní, 2020 kl. 19:30.

Umræðurnar skiptust í þrjár umferðir og hafði hver þingflokkur átta mínútur í fyrstu umferð, fimm mínútur í annari og fimm mínútur í síðustu umferð.

Þingmenn Miðflokksins voru fyrstir á mælendaskrá í öllum umferðum eldhúsdagsumræðnanna.

Ræðumenn Miðflokkins voru Gunnar Bragi Sveinsson, 6. þm. Suðvesturkjördæmis, í fyrstu umferð, Sigurður Páll Jónsson, 8. þm. Norðvesturkjördæmis, í annarri og í þeirri þriðju Karl Gauti Hjaltason, 8. þm. Suðurkjördæmis.

 

Ræða Gunnars Braga:

"Forseti. Góðir landsmenn. Reglulega erum við minnt á það hvar við búum. Land við Grindavík er á hreyfingu, Grímsvötn gera sig líkleg og jörð skelfur allharkalega fyrir norðan land. Hreyfingar þessar eru líka áminning um þau gæði sem náttúran hefur skapað okkur en ég vík að því síðar.

Kórónuveiran er annars konar hætta en náttúruvá. Ekki þarf að rifja upp þær hörmungar og þá sorg sem nokkrar fjölskyldur þurftu að upplifa vegna veirunnar en það er full ástæða til að þakka þeim sem staðið hafa vaktina í því að passa upp á landsmenn, starfsfólki heilbrigðiskerfisins, lögreglu og sjúkraflutningamönnum og öðrum sem á hverjum degi leggja sig í hættu.

Viðbrögð við faraldrinum eru eðlilega umdeilanleg og hefur okkur mörgum þótt stjórnvöld fara flóknar og erfiðar leiðir, líkt og brúarlánin sem enn eru ekki komin í gang þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um þau. Þingmenn Miðflokksins tóku þá ákvörðun að benda á stórar og almennar leiðir með auglýsingum því áhugi ríkisstjórnarflokkanna á samstarfi var lítill og samráðið í takti við það.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur boðaði ný vinnubrögð og öflugra Alþingi en eins og svo margt af því sem frá ríkisstjórninni hefur komið eru umbúðirnar flottar, blaðamannafundirnir glæsilegir, frasarnir úr handbókum almannatengla grípandi en innihaldið lítið, mjög lítið, herra forseti. Þótt ekki sé vilji hjá meiri hlutanum að hlusta ákváðum við að taka þátt í því að reyna að laga áform ríkisstjórnarinnar og liðka til fyrir þeim málum sem lögð voru fram í baráttunni við afleiðingar faraldursins. Undanfarið hafa stjórnarflokkarnir hins vegar hamast við að klára þingmál sem fengið hafa takmarkaða umfjöllun í nefndum Alþingis.

Okkur hefur tekist að lagfæra eða ná fram frekari vinnu við allra stærstu málin og sum verða vonandi geymd þar til síðar. Það eru engin vinnubrögð, herra forseti, að ganga á lagið gagnvart stjórnarandstöðunni og ætlast til að ráðherrar geti rennt stórum, umdeildum og kostnaðarsömum málum án mikillar umræðu í gegnum þingið í skjóli þess að þingstörfin læstust um mál tengd kórónuveirunni.

Forseti. Íslendingar eru lánsöm þjóð. Við eigum jarðhita, hreint vatn, hreinan sjó, nægt land og tært loft, svo eitthvað sé nefnt, en verðmætast er líklega fullveldið og fólkið. Að vera sjálfstæð, fullvalda þjóð er ekki sjálfgefið, það þekkja of margir víða um heim. Alþjóðlegt samstarf er okkur gríðarlega mikilvægt og líklega fáum eins mikilvægt og Íslendingum. Fullveldinu megum við aldrei fórna. Fullveldinu eru nátengd yfirráð og ráðstöfun auðlinda landsins sem aldrei má fórna.

Meðal þess sem ógnar fullveldinu eru litlar en margar ákvarðanir þar sem völd eða áhrif eru færð erlendum stofnunum eða ríkjasamböndum. Þetta þarf að varast og skoða reglulega.

Faraldurinn hefði átt að kenna okkur og getur kannski enn kennt okkur að meta hve dýrmætt það er að eiga fallega hreina náttúru sem fólk vill greiða fyrir að skoða. Náttúran um fram annað byggði undir ferðaþjónustuna sem varð að stærstu atvinnugrein landsins. Þótt áfallið sem ferðaþjónustan varð fyrir sé mikið og hafi áhrif langt umfram greinina þá fer helsta aðdráttarafl landsins ekki neitt, náttúran. Tryggja þarf aðgang að henni um leið og við höldum áfram að nýta hana af virðingu, okkur til gagns.

Forseti. Við skulum muna hve dýrmætt það er að geta framleitt orku og vera ekki öðrum háð um slíkt, hve dýrmætt það er að eiga sjávarútveg á heimsmælikvarða þar sem saman fer skynsamleg nýting, framleiðsla hágæðamatvæla með nýjustu tækni sem að stórum hluta á sér íslenskar rætur, og hve dýrmætur landbúnaðurinn er þar sem hreinleiki íslenskra búfjárstofna er lykilatriði.

En við þurfum að gera meira. Við þurfum að taka menntakerfið í gegn þannig að það sé eftirsóknarvert og hvetjandi fyrir sem flesta að mennta sig. Við eigum að leggja áherslu á að efla okkar mikilvægustu auðlind, fólkið okkar.

Forseti. Ég sakna þess að ekki sé meira rætt um mikilvægi íslensks landbúnaðar í þessum sal. Eitt af því fyrsta sem var athugað er kórónuveirufaraldurinn skall á okkur var hvernig íslenskur landbúnaður stæði, hvort ekki væri tryggt að næg matvæli væru til og framleiðslan myndi ekki truflast. Landbúnaðinn þarf að verja og efla með öllum ráðum. Innflutningur á ófrosnu kjöti sem mögulega inniheldur mikið af lyfjaleifum sem auka á sýklalyfjaónæmi þjóðarinnar og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir hreinleika íslenskra búfjárstofna er tímaskekkja og kæruleysi.

Góðir tilheyrendur. Umhverfismálin eru mjög mikilvæg og hafa margar hliðar. Því miður hefur ríkisstjórnin er nú situr og líklega sú er sat á undan henni lagt sig fram um að nota neikvæða hvata er kemur að umhverfismálum. Hvers vegna eru ekki jákvæðir hvatar nýttir? Til dæmis að verðlauna fólk og fyrirtæki í gegnum skattkerfið sem skila árangri í umhverfismálum eða eru viljug til þess að gera slíkt, kenna fólki að nota plastpokana aftur og aftur, leggja áherslu á hringrásarhagkerfið o.s.frv. Nýverið sáum við í fjölmiðlum Jón Hjaltalín Magnússon kynna verkefni fyrirtækisins ARCTUS þar sem ný gerð rafskauta getur minnkað losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum landsins um þriðjung. Hreint frábær árangur.

Forseti. Alþingi hefur átt í vök að verjast og öll þurfum við að læra af mistökum okkar. En það hefur verið nokkuð sérstakt nú í ellefu ár að hlusta á þá sem helst kvarta yfir vinnubrögðum, einelti og slæmum anda að benda á flísina í auga náungans en sjá ekki bjálkann í eigin auga. Verstir eru þó þeir sem ýja að, sá fræjum óheiðarleika og eineltis en baða sig svo sjálfir í sviðsljósinu sem fórnarlömb hins sama. Kæru landsmenn. Okkur í Miðflokknum er gjarnan legið á hálsi að þvælast fyrir málum stjórnarflokkanna. Okkur er það ekkert kappsmál að þvælast fyrir en þegar um grundvallarmál er að ræða líkt og að taka einhliða upp orkustefnu Evrópusambandsins í gegnum orkupakkana eða senda ríkissjóði reikninginn fyrir borgarlínubruðlinu, þá tökum við til varna.

Stjórnmál dagsins snúast of lítið um stjórnmál en meira um umbúðir og „læk“ á fésbókinni eða skjálfta í hnjám yfir því sem virkir í athugasemdum eru að skrifa. Stjórnmál eiga að snúast um sýn á samfélagið og mismunandi aðferðir við að ná fram þeirri sýn. Sýnin og aðferðirnar eiga svo að vera tilefni rökræðna.

Góðir landsmenn. Fram undan eru áskoranir í efnahagsmálum. Tekjur ríkissjóðs hafa dregist saman og á sama tíma er mikil krafa um aukin útgjöld. Ríkisbáknið hefur þanist út á undanförnum árum með miklum tilkostnaði sem greiddur er af fyrirtækjum og einstaklingum landsins. Nú á síðustu metrum þessa þings bíða nokkur frumvörp ríkisstjórnarinnar sem auka munu kostnað ríkissjóðs. Tugir starfa eiga að verða til hjá hinum og þessum stofnunum og ráðuneytum án þess að fyrrum gæslumenn óheftra útgjalda ríkissjóðs lyfti litla fingri gegn því.

Við eigum að gera umhverfi fyrirtækja og einstaklinga einfaldara og betra, t.d. með lækkun og síðar afnámi tryggingagjalds. Við þurfum að horfa sérstaklega til þess að minnka báknið, einfalda kerfið og lyfta einstaklingum í rekstri, smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem bera uppi atvinnu landsmanna.

Góðir landsmenn. Það að hafa skoðun, upplýsa um hana og berjast fyrir henni er ekki leyfilegt alls staðar. Við höfum notið þess á Íslandi að geta rætt hlutina, verið ósammála eða sammála, haft málfrelsi og allar skoðanir hafa fengið að njóta sín. Engin ein skoðun er rétt og það er beinlínis hættulegt, herra forseti, ef við bönnum eða hrekjum undir yfirborðið skoðanir sem okkur ekki hugnast. Forðumst rétttrúnaðinn og tökum frekar umræðuna við þá sem bera fram skoðanir eða stefnumál sem okkur líkar ekki. Alþingi á að vera vörður frjálsra skoðanaskipta.

Kæru landsmenn. Pössum upp á lýðræðið, fullveldið, málfrelsið og einstök gæði landsins okkar. — Góðar stundir."

Hér er vídeóupptaka af ræðu Gunnars Braga í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi.