Breyting á verðtryggingu lífeyris

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, ræddi um breytingu á verðtryggingu lífeyris, í störfum þingsins í dag:

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sem lýtur m.a. að breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ýmislegt er við frumvarp þetta að athuga en ég ætla að fjalla aðeins um eitt atriði. Það er breyting á verðtryggingu lífeyris þannig að hann verði verðbættur árlega í stað mánaðarlega eins og nú er. Ég endurtek: Hverfa á frá skipan sem staðið hefur óhögguð, a.m.k. frá 1997, að lífeyrir breytist mánaðarlega til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs, yfir í að lífeyrir hækki aðeins einu sinni á ári. Verðbólgugusa, eins og við höfum nýlega reynslu af, stæði óbætt í heilt ár og sér hver maður hvílík áhrif slíkt gæti haft á hag eldra fólks.
Í frumvarpinu segir ekkert um tilefni þessarar breytingar eða tilgang. Hún er skýrð með einni setningu um að breytt framkvæmd geti dregið verulega úr kröfum Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslur vegna vanáætlunar á greiðslum frá lífeyrissjóðum í byrjun árs.
Herra forseti. Aumlegri gat þessi skýring ekki orðið. Hér er talað um breytta framkvæmd að því er virðist til að breiða yfir þá kjaraskerðingu sem breytingin felur í sér. Hins vegar á breytingin að hjálpa Tryggingastofnun við áætlunargerð. Skerðingin sem hér er boðuð snertir alla sjóðfélaga, fyrst og fremst eldra fólk sem þegar er tekið að taka við lífeyri úr lífeyrissjóði en líka aðra sjóðfélaga, landsmenn alla. Engin greinargerð fylgir frumvarpinu um áhrif á hag sjóðfélaga. Engin greinargerð fylgir um fjárhagsstöðu lífeyrissjóðanna. Forystumenn verkalýðshreyfingar gera alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og segja það ekki unnið í samráði við sig.
Herra forseti. Eldri borgarar eru áhyggjufullir vegna þeirrar óvissu sem frumvarpið skapar um fjárhag þeirra og framfærslu. Þessari óvissu verður að eyða tafarlaust.
Herra forseti. Alþingi er ekki bjóðandi að svona vanbúið frumvarp sé lagt hér fram og ætti fjármálaráðherra að draga það til baka. (Forseti hringir.) Í öllu falli verður fast staðið gegn þessum áformum ríkisstjórnarinnar um að ráðast gegn kjörum eldri borgara.

Ræðu Ólafs í þingsal má sjá hér