Ennþá í Keflavíkurgöngu

Íslendingar hafa verið í farsælu varnarsamstarfi við helstu vinaþjóðir okkar í meira en 70 ár. Sem þátttakendur í þessu samstarfi höfum við helst lagt af mörkum aðstöðu fyrir bandalagið. Vissulega hafa ákveðin öfl verið þessu samstarfi mótfallin alla tíð, en meginþorri þjóðarinnar sér ávinninginn af þessu samstarfi til að viðhalda friði og öryggi í okkar heimshluta.

Hafnarmannvirki í Helguvík

Eftir lok kalda stríðsins hafa nánast engar framkvæmdir verið á varnarsvæðum hér á landi, en með síbreytilegri heimsmynd skipast fljótt veður í lofti. Nú telja samstarfsþjóðir okkar í NATO að vinna þurfi að uppbyggingu og viðhaldi mannvirkja á Suðurnesjum. Nýlega kynnti utanríkisráðherra hugmyndir sem bandalagsþjóðir okkar hafa um uppbyggingu borgaralegra innviða á Suðurnesjum, m.a. hafnarmannvirki í Helguvík.

Erfitt atvinnuástand á Suðurnesjum

Íbúar á Suðurnesjum hafa síendurtekið síðustu áratugi gengið í gegnum áföll í atvinnulífi og með veirufaraldrinum hefur atvinnuleysi þar syðra nálgast 30%. Þá hefur ýmis þjónusta á vegum ríkisins engan veginn fylgt eftir gífurlegri fólksfjölgun sem tilkomin er vegna uppbyggingar ferðamannaiðnaðarins og alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Frá sjónarhóli íbúa hafa stjórnvöld ekki lagt við hlustir og daufheyrst við óskum um úrbætur.

Hugmyndum um uppbyggingu hafnað

Legið hefur fyrir um skeið áhugi Atlantshafsbandalagsins á uppbyggingu innviða á Suðurnesjum, þar á meðal uppbyggingu í Helguvík. Utanríkisráðherra kynnti þessar hugmyndir nýlega í ráðherranefnd um ríkisfjármál, en þeim hugmyndum var hafnað af samstarfsflokki hans í ríkisstjórn. Ef vinaþjóðir okkar í NATO telja nauðsynlegt að byggja upp þessi mannvirki sem þátt í öryggisviðbúnaði bandalagsins er afstaða okkar illskiljanleg. Með slíkri afstöðu mætti segja að vegið sé að vestrænni varnarsamvinnu og gengið á svig við samþykkta þjóðaröryggisstefnu Íslendinga.

Kaldastríðspólitík

Athygli vekur að málið, sem er risastórt hvernig sem á það er litið, hefur enn ekki komist á dagskrá þjóðaröryggisráðs. Í ljósi atvinnuástandsins á Suðurnesjum og möguleika sem felast í bættri hafnaraðstöðu í Helguvík er afgreiðsla þessa brýna máls óskiljanleg með öllu. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að sæta því að tillögum um brýnar framkvæmdir sem gætu eflt atvinnulíf á Suðurnesjum sé vísað á bug af fólki sem enn sýnist í samfelldri Keflavíkurgöngu?

 

Höfundur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 6. júní, 2020