Er Framsókn flugvallarvinur í raun?

Enginn veit, fyrr en reynir á. Hvort vini, áttu þá,“ sungu þeir félagar í Upplyftingu fyrir margt löngu og gera enn.

Nú velta margir fyrir sér hvort Framsóknarflokkurinn í Reykjavík sé í raun vinur Reykjavíkurflugvallar. Eðlilega, þar sem oddviti flokksins situr nú sveittur við að endurreisa meirihlutann í Reykjavík með flokkum sem leynt og ljóst hafa unnið gegn tilvist og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar um árabil. Formaður Framsóknarflokksins hefur lent í þeytivindu sitjandi borgarstjóra eins og þekkt er orðið hvað varðar flugvöllinn og er því áhugavert í besta falli að oddviti hans í Reykjavík sé að lengja í pólitískri tilvist borgarstjórans með þessum hætti – sérstaklega í ljósi þess að hann á annan kost í stöðunni.

Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík gæti nefnilega leitað til flokka um samstarf sem hafa sömu stefnu og hann í flugvallarmálum, stefnu sem snýr að því að flugvellinum verði áfram tryggð rekstrarskilyrði í Vatnsmýrinni þar til og ef annar og betri staður finnst fyrir völlinn.

Það virðist sem hinn splunkunýi oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík hafi gleymt því fáa sem hann lofaði kjósendum fyrir kosningarnar – að nú yrðu breytingar í Reykjavík og að tryggja þyrfti rekstrarskilyrði flugvallarins, leggja Sundabraut og brjóta nýtt land fyrir húsnæðisuppbyggingu. Allt atriði sem núverandi meirihluti hefur lagst gegn með miklum látum síðustu árin.

Einar Þorsteinsson hefði hæglega getað tryggt öll þessi mál hefði hann valið að standa í lappirnar og taka upp viðræður við flokka sem eru honum sammála hvað þessa þætti varðar. Fullnaðarsigur í þessum málum blasti því við manninum í samstarfi frá miðju til hægri um öfluga sókn til hagsbóta fyrir Reykvíkinga og í raun landið allt. En það kom létt gola og Einar bognaði undan álaginu. Bandalag byggt á sandi stýrði hinum nýja oddvita beint af leið.

Við Reykvíkingum blasir því nýtt varadekk undir vagn meirihlutans sem féll í kosningunum – nú er það ekki Viðreisn sem stoppar í gatið heldur Framsókn.

Útspil innviðaráðherra, formanns Framsóknarflokksins, í liðinni viku þess efnis að nú væri rétt að dusta rykið af hugmyndum um nýja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli verður varla skilið öðruvísi en svo að varðstaða um flugvöllinn sé ófrávíkjanleg krafa Framsóknarflokksins á landsvísu.

Afstaða til úthlutunar lóða í Nýja-Skerjafirði mun svo opinbera stöðuna innan skamms – þá kemur á daginn hvort Framsókn geti talist til flugvallarvina eður ei.

Það verður líka áhugavert að fylgjast með því hvort nýi oddvitinn standi undir álaginu og tryggi sigurinn fyrir sig og sinn flokk eða hvort hann bognar og koðnar inn í hlutverk varadekks Dags B. Eggertssonar eins og svo margir á undan honum.

Bergþór Ólason, þingmaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 2. júní, 2022.