Er íbúalýðræði ábótavant í stjórnsýslu Norðurþings

Nýlega gerði ég mér grein fyrir því að illu heilli skortir töluvert upp á  íbúalýðræði í okkar góða Norðurþingi. 

Sveitarfélagi þar sem náttúra og gott fólk sameinar alla bestu kosti lands og þjóðar. Hvernig getur stjórn sveitarfélagsins misstigið sig svo illa gagnvart íbúalýðræðinu sem raun ber vitni. Í málefnasamningi meirihlutans sé ég hvergi minnst á íbúalýðræði.

Í verkefninu, Brothættar byggðir á Raufarhöfn, sem er nú lokið, var gerð skýlaus krafa um íbúalýðræði.

Í lokaskýrslu árið 2015, um inntak verkefnisins brothættra byggða, segir að verkefnið BB  „..felist í því að beita nálgun íbúalýðræðis og samráðs til að tryggja að val og forgangsröðun verkefna sé á forsendum heimamanna, frekar en að koma  að „ofan og utan“  við samfélagið.. .. að slík áhersla sé vænlegri til árangurs en þær aðgerðir sem áður hefur verið beitt.“

Í merku riti, Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum, sem gefið var út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ árið 2012, segir m.a. :

„...að aukin aðkoma borgaranna er leið til að styrkja félagsauð sveitarfélagsins þegar vel tekst til. Ýmsir fræðimenn telja félagsauðinn til lykilauðlegða samfélaga....og forsenda fyrir markvissu íbúasamráði er að sveitarfélög byrji á því að setja sér grundvallarreglur um hvernig þau ætli sér að vinna að íbúasamráði“

Hverfaráð Norðurþings eru fjögur talsins og eiga einmitt að tryggja íbúalýðræði. Í samþykkt um hverfisráð má lesa þær grundvallarreglur sem Norðurþing hefur sett sér s.s. „...vera vettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka og atvinnulífs á sínu nærsvæði og sveitarstjórnar“. Samþykkt fyrir hverfisráð er að finna á vef Norðurþings. 

Það er ekki búið að leggja hverfaráðin niður en hvernig vinnur sveitastjórn og nefndir á hennar vegum að markmiðum þeirra ?  

Ég tók að mér nýverið að gerast fulltrúi í hverfaráði Raufarhafnar og er eiginlega furðu lostin yfir því viðmóti sem fram kemur í nefndum og hjá starfsmönnum Norðurþings. Vinnulag, viðmót eða bara slæmur ávani, sýnir að almennur skortur á lýðræði er himinhrópandi gagnvart fólkinu sem býr á Raufarhöfn. Sinnuleysið er fólgið í að láta verkefni dankast, án skýringa, þannig að við eigum t.a.m. að þola hættuástand vegna fokhættu af eignum sveitarfélagsins árum saman. Viðgerðum á eignum sveitarfélagsins er of oft illa og seint sinnt og eftirlit með verkum lítið sem ekkert, a.m.k. miðað við útkomu oft á tíðum. Sumt er vel gert og verður tíundað síðar. Starfsmenn koma og fara án þess að gera vart við sig hjá Stjórnsýsluhúsi Raufarhafnar eins og bent hefur verið á. Aðgangur okkar í hverfisráðinu að upplýsingum frá stjórnsýslunni er einvörðungu gegnum heimasíðu Norðurþings. Þar getum við, eins og aðrir, vaktað, fátæklegar og snubbóttar fundargerðir til að athuga hvort fjallað var um eða jafnvel teknar  meiri háttar ákvarðanir um okkar svæði. Fundargerðir okkar eru þó alltaf teknar fyrir og vísað til nefnda en hverfisráð hefur ekki verið bænheyrt með það að fá sendar fundargerðir, er varða Raufarhöfn,  frá nefndum. Ég hef skrifað tölvupósta til fulltrúa í Fjölskylduráði, en ekki fengið svör. Sveitarstjóri svaraði samstundis pósti frá mér og vísaði til nefndar, en þaðan koma enn engin svör.

Á Íbúafundi sem haldinn var á hér Raufarhöfn milli lægða, þ. 16. janúar, kom fram að erfitt er að fá fólk til að gefa kost á sér á lista fyrir sveitarstjórnarkosningar. Það er leitt að heyra en þeir sem þó taka sæti í nefndum geta varla verið undanþegnir því að svara erindum frá íbúum ? 

Á síðasta ári tókst Fjölskylduráði að klúðra gjörsamlega góðum möguleikum Raufarhafnarbúa á áframhaldandi alhliða heilsueflandi starfsemi í Íþróttahúsinu. Vetur eru langir og aðstaðan í Íþróttamiðstöðinni okkar er eina íþróttaaðstaðan sem er í boði hér á svæðinu.  Nær hefði verið að loka eða skerða íþróttaaðstöðu í sveitarfélaginu þar sem fleiri möguleikar bjóðast íbúunum. Nei hér stöndum við hnípin eftir gjörningaveður af mannavöldum. Íþróttaaðstöðunni var lokað á grundvelli „aðsóknartalna“,  reikniskúnstir  sem vægast sagt byggja á umdeildum forsendum.  Íþróttaaðstöðunni var lokað í sparnaðarskyni. Skerfur Raufarhafnar til sparnaðar í rekstri  Norðurþings var s.s. að loka dýrmætri, vel rekinni heilsueflandi starfsemi fyrir alla aldurshópa. Hverfisráð Raufarhafnar gat lesið sér til fróðleiks á heimasíðu Norðurþings að:

Fjölskylduráð samþykkir að Íþróttamiðstöðin á Raufarhöfn verði aðgöngustýrð með lykilkorti sem seld verða í Ráðhúsinu á Raufarhöfn.Opnunartími með lykilkorti verður frá 06.00 - 22.00 alla daga vikunar. Sundlaug, klefar og sauna verða lokað af öryggisástæðum.“

Við hefðum fremur viljað fá samtal um sparnaðarmöguleika á Raufarhöfn. Engum hér á Raufarhöfn var boðið til skrafs og ráðagerða um þessa ákvörðun og ég á einna helst von á því að við verðum talin vandlát ef við ekki tökum vel í þessa ráðstöfun. Ef af verður þá er hún dýru verði keypt að mínu mati. 

Það er slæmt að Raufarhafnar er aðeins getið í tvígang í málefnasamningi meirihlutans í Norðurþingi, sem raunar er áhugaverð lesning. Það gefur tóninn um viðhorf framboðslistanna til okkar útvarðanna í norðri, eða kannski einfaldlega skort á skilning á því jafnræði sem þarf að ríkja í sveitarfélaginu öllu. 

Að lokum hvet ég verkstjóra Norðurþings, sveitarstjórann Kristján Þór Magnússon að skerpa á tilfinningu stjórnsýslunnar, fyrir mikilvægi íbúalýðræðis og minni hann á grein frá árinu 2018, sem ber nafnið :

„ Allt snýst þetta um fólk „ og þar sem hann skrifar „ .... Ég vil búa í samfélagi þar sem forgangsraðað er í þágu velferðar ....Ég vil búa í jákvæðu og hvetjandi samfélagi sem leggur áherslu á að allir einstaklingar þess fái notið velferðar og hamingju. Að sjálfsögðu er það óhugsandi að fólk greini ekki á um ýmsa hluti, en öflugustu leiðtogar samfélaga ná að leiða mál farsællega til lykta með ákvörðunartöku hvar allar hliðar máls hafa verið kannaðar og tillit tekið til sjónarmiða sem flestra....

 

Höfundur:  Kristjana Bergsdóttir æðarbóndi, Sigurðarstöðum Melrakkasléttu.

Greinin birtist á 640.is Norðurþing og nágrenni þann 23. janúar, 2020