Í sérstakri umræðu um stöðu mála á landamærum og fjölda hælisleitenda, sem fram fór á Alþingi á mánudaginn, komu nokkrir þingmenn inn á það í ræðum sínum að við ættum að bera höfuðið hátt, vera stolt þjóð á meðal þjóða og svo framvegis. Undirliggjandi tónn var að við værum ekki að gera nóg í málefnum hælisleitenda. Samt vill enginn nefna hvað er nóg.
Á miðvikudag kom fjármálaráðherra fram og sagði stefna í að kostnaður ríkissjóðs af þeim sem hér óska eftir alþjóðlegri vernd verði 10 milljarðar á árinu 2022. 10 þúsund milljónir. Sá kostnaður var innan við milljarður á ári fyrir ekki svo löngu síðan.
Samkvæmt miðgildi spár Útlendingastofnunar er nú gert ráð fyrir að fjöldinn sem kemur hingað til lands á árinu verði fimm þúsund einstaklingar. Verði það raunin er það 84% meiri fjöldi hlutfallslega en kom til Þýskalands að meðaltali á árunum 2015-2016 þegar „dyr Þýskalands stóðu opnar“ hverjum þeim sem þangað vildi koma, en ríkisstjórn Angelu Mekle hvarf frá þeirri stefnu sumarið 2018, enda höfðu þá 1,2 milljónir flóttamanna sem komu til landsins á tveimur árum sett verulegan þrýsting á öll velferðarkerfi landsins.
Séu framlög til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2022 skoðuð, þá erum við í 5. sæti af OECD þjóðunum, á eftir Noregi, Danmörku, Lúxemborg og Svíþjóð, þegar skoðuð eru framlög á hvern íbúa. 600 milljónir á ári til viðbótar við framlög ársins myndu setja okkur í efsta sætið af öllum OECD þjóðum. Það er einn fimmtándi hluti þess sem móttaka flóttamanna mun kosta ríkissjóð beint í ár. Þá er allur óbeinn kostnaður ótalinn.
Eru þetta tölur sem benda til þess að við séum ekki að standa okkar plikt? Séum ekki þjóð meðal þjóða sem getur borið höfuðið hátt í þessum efnum? Auðvitað ekki. Við erum í málefnum flóttamanna, eins og svo mörgum öðrum, að gera vel, en löngunin til að gera allt fyrir alla getur kallað fram þau áhrif að við gerum verr en við viljum fyrir þá sem eru í mestri þörf fyrir aðstoð. Þá sem eru í mestri neyð.
Við verðum að finna leið til að ræða málefni hælisleitenda út frá staðreyndum. Tölum. Hlutföllum í samanburði við aðrar þjóðir. Við þurfum að horfa á það hvernig þeir fjármunir sem varið er til málaflokksins nýtast best. Í því samhengi má ekki horfa fram hjá því að hver króna, hver dollar, getur skilað meiru á nærsvæðum þeirra sem í mestri neyð eru. Meiru en hér, í einu dýrasta landi í heimi.
Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 21. október, 2022.