Fangelsið á Akureyri

 

Fangelsið á Akureyri

Mótmæla þarf og koma þarf í veg fyrir fyrirhugaða lokun fangelsis á Akureyri. Fyrir því eru nokkrar ástæður, m.a. allt það sem varðar þann þátt sem gjarnan er settur undir það sem við köllum mannlegt, jafnvel sam-mannlegt. Það er ekki hægt að sleppa því að hugsa til heilbrigðiskerfisins í þessu sambandi, réttlætinguna fyrir því að færa alla heilbrigðisþjónustu á eitt horn landsins, það sagt hagkvæmasti kosturinn. Fyrir hvern? Getur verið að við stöndum frammi fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í endurgreiðslu ferðakostnaðar ef náinn ættingi fanga óskar þess að heimsækja viðkomandi í fangelsi fyrir sunnan og verða þá aðeins í boði niðurgreiðsla á tveimur ferðum á ári. Getur verið að skoska leiðin nýtist til þessa?

Fyrstu fréttir 6. júlí komu öllum í opna skjöldu og það sem verra er, loka á fangelsinu eftir hálfan mánuð, á miðju sumri. Þessi ákvörðun kynnt án nokkurs samráðs við löggjafann, embættið á Akureyri, bæjarstjórn, hagsmunafélög og hagaðila. Talað er um að óhagkvæmt sé að reka litla einingu enda séu nægjanlega mörg pláss á Hólmsheiði og stutt í bæinn! Allt eru þetta kunnugleg stef. Þá er gagnrýnivert að svona ákvörðun, sem setur löggæslu á jafn stóru svæði og Norðurlandi eystra í uppnám, sé tekin án nokkurs samráðs við embættið á Akureyri, án almennrar umfjöllunar og kynnt með svo litlum fyrirvara.

En hvað þá með þetta mannlega, hið sam-mannlega. Fangar eiga fjölskyldur, jafnvel börn. Þeir eiga vini, meira að segja vini sem vilja aðstoða þá og vera þeim innanhandar svo þeir geti komist út í samfélagið aftur sem betri menn. Betrunarvist. Fangelsið á Akureyri hefur það orðspor að veita góða og faglega nálgun, fangaverðir sýna umhyggju. Bent hefur verið á að fangar sem ekki hafa þrifist í öðrum fangelsum hafa náð betri fótfestu í fangelsinu á Akureyri.

Að þessu sögðu væri frekar ráð að auka vægi fangelsisins á Akureyri, samhliða viðbyggingu lögreglustöðvarinnar en húsnæði hennar er yfir 40 ára gamalt og löngu kominn tími til. Því það má ekki gleymast að það er meðal annars hlutverk hins opinbera að þjónusta alla sína íbúa hvar sem þeir standa í tilverunni.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins.

Anna Kolbrún Árnadóttir.

Greinin birtist á visi.is 14.7.2020