Fjögur ár í frosti?

Yfir 100 skattahækkanir, ný skattþrep, óstyrk hagstjórn, kaupmáttur dregst saman, stýrivextir hækka sem hækka lánagreiðslur venjulegs fólks, öll tækifæri gripin til að eyða fjármunum ríkisins í óhagkvæmar umsóknir um aðild að ríkjasambandi þar sem núverandi aðildarríki reyna að losna, pólitískar hreinsanir úr dómskerfinu, þjóðnýting helstu atvinnuvega, sjávarútvegurinn eyðilagður og hættir samhliða að gefa af sér til þjóðarbúsins, lífskjör dvína, velmegun dregst saman og heimsendaspár óma.

Þetta er ekki fögur sýn en er það sem blasir við ef margra flokka ríkisstjórn til vinstri tekur við stjórnartaumum eftir kosningar. Ekki er um að ræða hugarburð undirritaðs heldur raunveruleikann sem Íslendingar sátu uppi með undir vinstristjórn Vinstri grænna og Samfylkingar 2009-2013 og það sem bætist við þegar Sósíalistaflokkurinn, Píratar og Viðreisn slást í hópinn 2021.

En það er hægt að grípa í taumana. Það er hægt að koma í veg fyrir að þessi raunveruleiki endurtaki sig. Það veltur hins vegar á kosningunum á morgun, laugardag.

Seðlabankastjóri hefur sett það í orð, skýrt og skorinort, að ef hagstjórn verði óstyrk næstu árin sé ekkert annað í boði en að hækka stýrivexti. Það liggur fyrir að það kemur venjulegu fólki á Íslandi illa – launin hætta að duga fyrir útgjöldum við þær aðstæður. Það viljum við ekki.

Miðflokkurinn stendur sterkum fótum með stefnu og áætlanir fyrir næstu ár á Íslandi sem tryggja sterka hagstjórn, ráðdeild í ríkisrekstri, hvata til skattalækkana á fólk og fyrirtæki, hlutdeild venjulegs fólks í góðum ríkisrekstri með því að greiða hluta afgangs inn á reikninga fólks á hverju ári, hlutdeild venjulegs fólks í arðbærum sjávarútvegi og annarri auðlindanýtingu með greiðslu hluta auðlindagjalda inn á reikning fólks á hverju ári, skilning á mikilvægi þess að skapa verðmæti og skapa umhverfi svo venjulegt fólk geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd í friði og bætt eigin lífskjör og annarra.

Miðflokkurinn er einnig öflugt aðhald og sterkur Miðflokkur er mikilvægt tæki til að halda stjórnvöldum við efnið, verja einstaklinginn gegn ágangi ríkisvaldsins og taka slaginn þegar vegið er að hagsmunum íslenskrar þjóðar. Það höfum við ítrekað gert og höldum áfram.

Vinstristjórn gæti tekið við völdum í næstu viku. Miðflokkurinn verður viðspyrnan ef á reynir. 

 

Bergþór Ólason » þingmaður og oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 24. september, 2021