Flugvallafjármunir brenndir á „hrauni“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vill ólmur halda áfram að rannsaka möguleika á flugvallarstæði innanlandsflugs í Hvassahrauni með tilheyrandi útgjöldum fyrir ríkissjóð. Þetta vekur furðu enda nær öllum ljóst að virkt gossvæði telst varla æskilegur nágranni flugvallar.

Í Morgunblaðinu sl. miðvikudag var á leiðaraopnu ágæt frétt, unnin af Sigtryggi Sigtryggssyni blaðamanni, undir fyrirsögninni „Hvassahraunsflugvöllur tilbúinn 2040?“ Í greininni var rifjuð upp umræða sem fór fram á Alþingi á dögunum að beiðni Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

Í þeirri umræðu var meðal annars tæpt á skýrslu Rögnunefndarinnar svokölluðu sem kom út í júní árið 2015. Tvö kjarnaatriði úr skýrslunni, sem ekki henta málflutningi þeirra sem vilja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni virðast oft gleymast eða vera afflutt.

Í fyrsta lagi eru það nýafstaðin eldsumbrot í Fagradalsfjalli. Þau voru staðsett í svokölluðu Krýsuvíkurkerfi sem tiltekið er sérstaklega í skýrslu Rögnunefndarinnar, þar sem segir: „ Í skýrslu ÍSOR kemur fram að hraun sem myndu ógna flugvallarstæði í Hvassahraunslandi myndu koma upp í Krýsuvíkurkerfinu. Miklar líkur eru á að aldir líði áður en Krýsuvíkurkerfið rumskar næst. Búast má við að næsta gosskeið á Reykjanesskaga hefjist í Brennisteinsfjöllum. Það gæti orðið eftir um eina öld. Hraun þaðan er ekki líklegt til að ógna flugvallarstæðinu í Hvassahrauni.“ Nú er ljóst að það liðu ekki aldir áður en Krýsuvíkurkerfið rumskaði heldur er gos þar nýafstaðið. Þetta eitt og sér ætti að útiloka frekari rannsóknir og fjáraustur af hálfu innviðaráðherra til þeirra.

Í öðru lagi eru það fullyrðingar um samfélagslegan ábata af því að byggja upp flugvöll í Hvassahrauni. Því er haldið fram að í frumathugun Rögnunefndarinnar sé metinn 100-150 milljarða króna samfélagslegur ábati af færslu vallarins miðað við verðlag dagsins í dag. Þetta er rangt því ef Rögnuskýrslan er skoðuð kemur skýrt fram að í þessa tölu vantar á móti kostnað við uppbyggingu flugvallarins í Hvassahrauni, eða mismuninn á kostnaði við hann og fyrirhuguðum fjárfestingum í öðrum flugvöllum sem myndu leggjast af, enda gengið út frá þeirri forsendu að „allt innanlands- og millilandaflug sameinist á vellinum og hægt sé að spara á móti á öðrum völlum.“ Hvaða stjórnmálaflokkur hefur þá stefnu að slá af Keflavíkurflugvöll? Píratar? Framsóknarflokkurinn?

Hættum þessum vitleysisgangi og fjáraustri hvað rannsóknir á flugvelli í Hvassahrauni varðar. Förum vel með fé almennings og hættum draumórum sem löngu er ljóst að standast ekki skoðun. Göngum hreint til þess verks og tryggjum rekstrarhæfi flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu  26. mars, 2022