Flugvallarstæði í Hvassahrauni

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, beindi í dag óundirbúinni fyrirspurn að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um möguleg flugvallarstæði í Hvassahrauni.

"Mig langar hér í dag að vekja máls á stöðu mála sem snúa að rannsóknum á mögulegu flugvallarstæði í Hvassahrauni með tilliti til áhrifa jarðhræringa í Geldingadölum á þá vinnu. Það er ekki langt síðan hæstv. ráðherra ræddi þessi mál í þingsal við þingmanninn Njál Trausta Friðbertsson. Það var eitt og annað í þeim svörum sem kom mér á óvart, með vísan í samkomulagið sem hæstv. ráðherra gerði við borgarstjóra 28. nóvember 2019, um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni, sem síðan var í febrúar 2020 rammað inn með framlagi upp á 200 milljónir til rannsókna. Ég skildi það svo á svörum hæstv. ráðherra í umræðu í síðustu viku frekar en þarsíðustu að þetta gengi allt sinn vanagang þrátt fyrir þær jarðhræringar sem blasa við núna. Það er skemmst frá því að segja að í nýjasta fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA, er pistill frá formanni öryggismálanefndar FÍA þar sem segir, með leyfi forseta: „Ábyrg stjórnvöld sem reka raunsæja stefnu í flugmálum hljóta að endurskoða hugmyndir um að byggja nýjan flugvöll á þessu svæði.“ — Með vísan í Hvassahraun.
Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það í alvöru þannig að verið sé að vinna þessar rannsóknir og kosta til þeirra fjármunum? Þótt þetta séu ekki stærstu tölurnar í þessu umhverfi þá er eitthvað symbólískt í því að það sé því sem næst verið að henda þessum fjármunum, það blasir auðvitað við í þeirri stöðu sem komin er upp á svæðinu að þarna verður enginn flugvöllur til langrar framtíðar. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki ástæða til að stöðva þessa vinnu. Það er ekki boðlegt að við hendum peningum í óþarfa og þó að það hafi verið gert samkomulag um þetta í nóvember 2019 þá eru aðstæður gjörbreyttar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki skynsamlegt að setja punkt við þetta þannig að frekara tjón verði ekki og hætta þessum rannsóknum á mögulegu flugvallarstæði í Hvassahrauni."

Fyrirspurn Bergþórs í þingsal og svar ráðherra má sjá hér