Friðun Dranga í Árneshreppi

Bergþór Ólason tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnartíma mánudaginn 13. desember, og spurði þar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um friðun Dranga í Árneshreppi.

Virðulegur forseti. Ég ætlaði við þetta tækifæri að beina aftur fyrirspurn til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og hún varðar friðun jarðarinnar Dranga í Árneshreppi og möguleg áhrif á aðliggjandi jarðir. Hæstv. ráðherra segir í viðtali í Morgunblaðinu í morgun: „Þetta búið að vera í gangi í langan tíma og virðist hafa verið gert í góðri sátt.“ Áfram er haft eftir hæstv. ráðherra að hann stefni ekki að því að gera frekari athugasemdir um málið.
Síðan hæstv. ráðherra fór í þetta viðtal hefur þingheimi borist tvö erindi frá landeigendum aðliggjandi jarða, annars vegar bréf fyrir hönd eiganda Ófeigsjarðar þar sem gerð er sú skýlausa krafa að ofantaldir aðilar, sem eru umhverfisráðherra, Umhverfisstofnun og forsvarsmenn Dranga, staðfesti að friðlýsing Dranga hafi engin áhrif út fyrir landamörk Dranga. Og áfram segir í bréfinu, með leyfi forseta:
Eins og friðlýsingin ber með sér nær áhrifasvæði hennar yfir nær alla Skjaldabjarnarvík, Drangavík, Engjanes og talsvert inn á okkar jörð, Ófeigsjörð.
Áfram segir að landeigendur geri ekki athugasemdir við að Drangajörðin sé friðlýst — enda held ég að enginn geri það eitt og sér — en þá einungis hún ein og sér.
Síðan barst bréf þar sem undir ritar einn eigenda tveggja næstu aðliggjandi jarða Dranga, Skjaldabjarnarvíkur að norðan og Drangavíkur að sunnan. Hann lýsir því yfir í bréfinu að áhrif hafi ekki verið kynnt eigendum Skjaldabjarnarvíkur og Drangavíkur með formlegum hætti og hér er óskað eftir opinberri yfirlýsingu um að áhrifasvæði friðunar gæti einungis innan óumdeildra jarðarmarka Dranga. Ítrekað er í þessu bréfi, sem er undirritað af Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttur, með leyfi forseta:
Ég geri ekki athugasemdir við að fólk eða félög friði land sitt en bara sitt land.
Í þessu samhengi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hafa þessi 5 km mörk verið greind sérstaklega umfram það sem fram kemur í minnisblaði sem var sent til umhverfis- og samgöngunefndar? Og kemur til greina af hendi hæstv. ráðherra að gefa slíka yfirlýsingu, eins og óskað er eftir í þessum tveimur bréfum sem bárust frá landeigendum í dag og í gær?

 

Fyrirspurnina má sjá í heild sinni hér