Frumvarp um hálendisþjóðgarð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og spurði forsætisráðherra hver stefnan væri með frumvarp um hálendisþjóðgarð nú þegar stutt er til þingloka.  Sagði hann þingið hljóta að gera kröfu um að fá upplýsingar um í hvað stefni með með þetta mál.

Forseti.   Eins og hæstvirtur forseti vakti athygli á hér áðan er lítið eftir af þessu þingi, þessu síðasta þingi kjörtímabilsins. Mörg stór mál eru óleyst og óafgreidd. Eitt stærri vandræðamálanna, ef svo má að orði komast, er frumvarp um hálendisþjóðgarð sem fengið hefur mikla gagnrýni og ekki að ástæðulausu. Bent hefur verið á að með frumvarpinu sé verið að taka stóran hluta landsins undan beinni lýðræðislegri stjórn og jafnvel loka því á vissan hátt fyrir landsmönnum.
Ég þarf ekki að rekja innihald málsins hér því að spurningin er einföld til hæstv. forsætisráðherra: Hvernig telur hæstv. ráðherra farsælast að ljúka þessu máli nú? Er eitthvað að marka kenningar um að meiri hlutinn ætli sér að koma með nýtt þingmál á þessum tímapunkti, leggja fram þingsályktunartillögu um stofnun hálendisþjóðgarðs? Ef sú er raunin þá hlýtur að vera eðlilegt að þingið sé upplýst um það, enda aðeins innan við þrír dagar eftir samkvæmt starfsáætlun, sem hæstv. forseti var reyndar að nema úr gildi, en engu að síður eru fáir dagar eftir af þessu þingi. Þingið hlýtur að gera kröfu um að fá upplýsingar um í hvað stefni með þessi stærstu mál og hvort það geti verið að meiri hlutinn ætli sér á þessum tímapunkti að leggja fram nýtt mál um hálendisþjóðgarð. Eða er rétt að senda þau skilaboð til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að vísa málinu einfaldlega aftur til ráðherra?

Upptöku úr þingsal og svar ráðherra má sjá hér