Fullveldið, hælisleitendur og kosningaloforðin

Miðflokkurinn, oftar en ekki einn flokka, barðist gegn ýmsum slæmum málum á yfirstandandi þingi sem átti að keyra í gegn, helst án umræðu. Sjálfstæðisflokkurinn fór í þriggja flokka samstarf þvert yfir hið pólitíska litróf undir yfirskriftinni að úrslit kosninganna hefðu ekki boðið upp á annað.
Afsökun stjórnarflokkanna fyrir brostnum kosningaloforðum byggðist á að það hefði þurft að gera svo miklar málamiðlanir því flokkarnir væru svo ólíkar. Afraksturinn var stjórn þar sem flokkarnir fengu ráðherrastóla sína, embættismenn stýrðu för og lítið var um efndir kosningaloforða.

En núna sjáum við að ríkisstjórnarflokkarnir eru allir farnir að lofa sömu loforðum og fyrir fjórum árum. Sjálfstæðismenn lofa skattalækkunum, Framsókn er opin í alla enda og Vinstri græn vilja leggja á áframhaldandi refsiskatta, loka hálendinu en opna landið uppá gátt fyrir erlendum glæpagengjum.

En hvernig fara núverandi loforð fyrir þessar kosningar saman við fyrsta valkost sömu flokka um að halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi? Er engin staðfesta á bakvið loforðin eða telur Sjálfstæðisflokkurinn að VG muni núna samþykkja skattalækkanir, skilvirkara heilbrigðiskerfi og minna bákn, eða ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að samþykkja boð og bönn VG?

Ef ekki hefði verið fyrir Miðflokkinn og sjálfstæða baráttuhópa þá væri búið að samþykkja fullt af afleitum málum m.a. hálendisþjóðgarð sem snýr að stofnanavæðingu hálendisins, frumvarp sem stjórnarflokkarnir ákváðu engu að síður að halda lifandi með því að leggja fram tillögu um að ráðherra yrði falið að vinna áfram að stofnun hálendisþjóðgarðs. Orkupakkinn hefði runnið í gegn án mikilvægra breytinga sem Miðflokkurinn náði fram. Opnað hefði verið fyrir frekari möguleika til að misnota hælisleitendakerfið. Lengi mætti telja áfram.

Það skiptir klárlega máli hverjir eru saman í ríkisstjórn og atkvæði greitt Miðflokknum nýtist best til að hér verið ekki kerfisstjórn eða Reykjavíkurmódelið.

Miðflokkurinn, einn flokka, hefur staðið vörð um fullveldið þegar stjórnarflokkarnir voru tilbúnir að afsala því í smáskömmtum. Miðflokkurinn mun áfram verja fullveldið, verja tjáningarfrelsið og standa vörð um grunngildi samfélagsins.

Miðflokkurinn vill auka alþjóðasamstarf en ekki ganga í Evrópusambandið, Miðflokkurinn ætlar að lækka skatta og leggja áherslu á að skapa betri forsendur fyrir heimili og fyrirtæki til að geta bætt hag sinn.

Kosningastefnu flokksins má finna á www.xm.is þar sem eru nánari útfærslur meðal annars hvernig Miðflokkurinn ætlar að auðvelda fólki að eignast fasteign, raunverulega bæta kjör eldri borgara og efla millitekjuhópa landsins sem halda samfélaginu gangandi.

Ég leita eftir stuðningi þínum í komandi alþingiskosningum, Miðflokkurinn stendur við loforðin og við munum ekki taka þátt í yfirborðslegri vitleysu á borð við það að banna plast en leyfa fíkniefni.

Það munar um Miðflokkinn.

 

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í Kraganum
www.facebook.com/nannaxm

Greinin birtist í Kópavogs- og Garðapóstinum þann 14. september, 2021