Gjaldfrjálsar heilbrigðisskimanir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason lögðu fram á Alþingi og mæltu fyrir gjaldfrjálsum heilbrigðisskimunum. 

   Heilbrigðisskimun er ekki ný af nálinni og er vel þekkt víða um lönd að efnað fólk og valdamenn nýti sér skimun sem leið til bættrar heilsu. Það hefur sýnt sig hvers megnugir Íslendingar eru að takast á við krísur, ekki hvað síst á heilbrigðissviðinu þar sem skimanir og bólusetningar fyrir meira og minna alla landsmenn hafa gengið ótrúlega vel. Annars staðar þar sem kerfið virkar ekki sem skyldi hefur síður gengið vel, t.d. með krabbameinsskimanir. Þau vandamál sem hafa komið upp við krabbameinsskimanir minna á mikilvægi þess að tryggja öllum landsmönnum rétt á að fylgjast með eigin heilsufari.
    Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er fjallað um þá áherslu að fyrirbyggja sjúkdóma og auðvelda fólki að velja heilbrigðan lífsstíl. Þannig megi draga úr líkum á versnandi heilsu síðar á æviskeiðinu eða seinka því að heilsunni hraki. Jafnframt er í stefnunni lögð áhersla á heilsueflingu og bætta lýðheilsu landsmanna og rætt um nýja tækni sem er fyrir hendi í heilbrigðisþjónustu þar sem möguleikar eru á að greina sjúkdóma löngu áður en þeir gera vart við sig.
    Heilbrigðisskimanir eru hagkvæmar og gætu orðið mikilvægur liður í því að bæta lýðheilsu og heilbrigði þjóðarinnar. Með heilbrigðisskimunum er hægt að grípa fyrr inn í þegar sjúkdómar og hættur steðja að. Við sem fámenn þjóð eigum að geta tryggt öllum Íslendingum rétt á heilbrigðisskimunum og með því sparað fjármuni í heilbrigðiskerfinu til langs tíma. Heilbrigðisskimanir hafa veigamikið forvarnagildi og hjálpa til við að greina meinvörp og þróun sjúkdóma. Það er auðveldara og ódýrara í mörgum tilvikum að takast á við vanda sem greinist fyrr. Þá aukast einnig líkur á að mannslífum verði bjargað. Ef heilbrigðisskimanir yrðu að veruleika yrði stigið eitt stærsta framfaraskref til þessa í átt að bættu heilsufari þjóðarinnar. Þekkt er að þeir efnaminni og þeir sem hafa minni menntun búa við verra heilbrigðislæsi en aðrir og fara síður til lækna. Þá leita karlmenn síður til lækna en konur. Heilbrigðisskimanir fyrir alla yrðu því sérstök heilsufarsbót fyrir efnaminni og tekjulægri og fyrir karlmenn. Ríkið á að fjárfesta í forvörnum og stuðla um leið að auknum jöfnuði meðal landsmanna.
    Með heilbrigðisskimunum má ætla að einstaklingar verði meðvitaðri um heilsu sína, upplýstari um einkenni sjúkdóma og líklegri til að leita fyrr til læknis þar sem sjúkdómar yrðu greindir á byrjunarstigi.
    Samkvæmt þingsályktunartillögunni er heilbrigðisráðherra falið að hefja vinnu við heilbrigðisskimun fyrir alla 40 ára og eldri á þriggja ára fresti þeim að kostnaðarlausu. Almenningur hefði val um hvar skimanirnar væru framkvæmdar en ríkið stæði undir kostnaði við þær og greiddi þeim sem uppfylla skilyrðin fast gjald fyrir framkvæmdina. Þeir sem eru yngri en 40 ára gætu jafnframt óskað eftir heilbrigðisskimun ef aðstæður kölluðu á og hægt væri að óska eftir aukaskimun ef læknir teldi ástæðu til. Hér er því ekki um auknar kvaðir á opinbera heilbrigðiskerfið að ræða heldur er lagt til að gefa einkareknum stofnunum tækifæri til að taka þátt í að efla heilbrigðiskerfið og gera það skilvirkara við uppbyggingu lýðheilsu allra landsmanna.