Hælisleitendamál í ólestri

Ertu að yf­ir­gefa landið þitt í leit að betri lífs­kjör­um? Ertu að yf­ir­gefa landið þitt í leit að vinnu? Þetta eru ekki lög­leg­ar ástæður fyr­ir því að fá alþjóðlega vernd í Nor­egi. Þér verður vísað til baka.“ Þetta er texti úr aug­lýs­ingu sem norsk stjórn­völd birta á helstu net­miðlum. Auk þess er því komið á fram­færi í aug­lýs­ing­unni að regl­ur hafi verið hert­ar í Nor­egi. Dan­ir hafa birt áþekk­ar aug­lýs­ing­ar. Árið 2004 var 48 tíma regl­an við af­greiðslu um­sókna tek­in upp í Nor­egi til að draga úr til­efn­is­laus­um um­sókn­um og gera kerfið skil­virk­ara.

Rík­is­stjórn sósí­al­demó­krata í Dan­mörku ræðir að ekki verði tekið við hæl­is­leit­end­um á danskri grundu held­ur í mót­töku­stöð í Norður-Afr­íku til að girða fyr­ir að fólk leggi á sig hættu­ferð á mann­dráps­fleyt­um yfir Miðjarðar­hafið. Fyr­ir fá­ein­um árum komu 6.000 hæl­is­leit­end­ur að landa­mær­um Nor­egs frá Rússlandi á nokkr­um vik­um. Eru stjórn­völd hér á landi viðbúin því að fá slík­an fjölda um­sókna á fá­ein­um vik­um?

Dóms­málaráðherra lagði fram frum­varp á Alþingi nú í vor um breyt­ingu á lög­um um út­lend­inga. Frum­varp­inu er ætlað að gera stjórn­völd­um kleift að af­greiða skjótt og ör­ugg­lega um­sókn­ir sem leiða ekki til veit­ing­ar alþjóðlegr­ar vernd­ar. Frum­varpið náði ekki fram að ganga vegna ósætt­is í rík­is­stjórn­inni. Brýnt er að ein­falda og hraða málsmeðferð um­sókna svo að auka megi skil­virkni og stytta málsmeðferðar­tíma.

Á ábyrgð Sjálf­stæðis­flokks­ins

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur haft hæl­is­leit­enda­mál­in á sinni könnu um ára­bil. Hann sýn­ist skorta nauðsyn­lega festu og hef­ur ekki reynst fær um að taka á vand­an­um. Stjórn­sýsl­an ræður ekki við að af­greiða um­sókn­ir inn­an viðun­andi frests og beinn kostnaður við fram­færslu hæl­is­leit­enda eykst hratt. Á þessu ári kost­ar hann skatt­greiðend­ur fjóra millj­arða og fer ört hækk­andi. Þögn rík­ir um óbein­an kostnað. Sam­kvæmt töl­um flótta­manna­hjálp­ar Sam­einuðu þjóðanna UN­RWA er fyr­ir kostnað af hverj­um hæl­is­leit­enda sem kem­ur til Vest­ur­landa hægt að hjálpa a.m.k. 10-12 manns í heimalandi.

Okk­ur ber að aðstoða nauðstadda eft­ir föng­um að teknu til­liti til fá­menn­is þjóðar­inn­ar. Koma ber í veg fyr­ir að mót­töku­kerfi hæl­is­leit­enda sé mis­notað með röng­um upp­lýs­ing­um og til­hæfu­laus­um um­sókn­um.

Ísland hef­ur ekki farið að for­dæmi Dana og Norðmanna og aug­lýst strangt reglu­verk í út­lend­inga­mál­um vegna þess að á Íslandi eru út­lend­inga­mál­in í ólestri m.a. vegna stefnu­leys­is, ófull­nægj­andi stjórn­sýslu og lagaþrætna á kostnað skatt­greiðenda. Á vett­vangi stjórn­mál­anna dug­ir ekki að hlaup­ast und­an merkj­um rétt­ar­rík­is­ins af ótta við há­vær­an minni­hluta. 

 

Höf­und­ur:  Birgir Þórarinsson, þingmaður og fulltrúi Miðflokksins í fjár­laga­nefnd Alþing­is.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 28. september, 2020