Hertar sóttvarnarreglur - umræður á Alþingi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í umræðum um munnlega skýrslu heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnarreglur á Alþingi í dag.

"Þær hertu aðgerðir sem nú hafa verið kynntar væru ekki nauðsynlegar ef búið væri að bólusetja þjóðina eða ná meiri árangri á því sviði, árangri sem við hefðum átt að vera búin að ná. Á visir.is birtist í gær merkileg frétt undir fyrirsögninni: „Ísland gæti notið góðs af útflutningshömlum ESB“. Þessi fyrirsögn byggði á mati ráðuneytis hæstv. ráðherra sem mat stöðuna einhvern veginn á þá leið að ef ESB bannar útflutning til annarra landa en sleppir Íslandi af listanum, sem Ísland er enn á, þá gætum við kannski fengið smávegis af því bóluefni sem gert verður upptækt.

Þetta er ráðuneytið sem okkur er sagt að sjái nú um að afla bóluefnis með öllum tiltækum ráðum. En hvað er ráðuneytið raunverulega að gera? Er þetta eðlileg lýsing á afstöðu þess, sanngjörn lýsing sem birtist þarna í fréttinni? Og er ráðuneyti, sem vill fyrir alla muni afsaka afglöp Evrópusambandsins, líklegast til þess að ná að afla bóluefnis utan við samninga við ESB?"

"Upplýsingaóreiðan heldur áfram í þessum málaflokki. Bara í gær bárust fréttir af því að von væri á miklu minni skammti af Jansen-bóluefni en gert hafði verið ráð fyrir, bara broti af því sem búist var við. Svo koma einhverjar aðrar fréttir í dag. En það sem skiptir máli er það sem skilar sér og að Ísland hafi aðstöðu til að tryggja sér það bóluefni sem þarf og til að nýta sérstöðu sína í þeim efnum. Ég hef heyrt ráðherra lýsa áhuga á Spútnik-bóluefninu áður, en hvað er raunverulega að gerast í þeim málum? Hæstv. ráðherra segir að viðræður séu á byrjunarstigi en fyrri yfirlýsingar, m.a. hæstv. forsætisráðherra, benda ekki til annars en að menn séu bara að bíða eftir því að heyra frá Evrópusambandinu um hvenær Spútnik komi hugsanlega inn í Evrópupakkann. Er verið að reyna að semja um kaup á þessu Spútnik-efni eða öðru efni fyrir alla þjóðina utan við Evrópusambandsklúðrið?"

 

Upptöku af fyrstu ræðu Sigmundar Davíðs í þingsal má sjá hér

Seinni ræðu Sigmundar Davíðs í þingsal má sjá hér