Holur hljómur

 Holur hljómur

 

Íslendingar feta nú líkt og aðrar þjóðir þröngan og hlykkjóttan veg milli skynsamlegra og óskynsamlegra ákvarðana, tíminn einn mun leiða í ljós hvar okkur tókst vel til, og hvað betur hefði mátt fara. Eitt af því sem ég tel að muni skoðast sem skynsamleg viðbrögð var ákvörðun allra flokka á þingi að eftirláta sérfræðingum um að stýra viðbrögðum þjóðarinnar við þeim vágesti er nú herjar á þjóðir allar og er um margt ólíkt því hvernig stjórnmálafólk í sumum öðrum ríkjum hefur brugðist við. Vissulega hefur sumt af því sem sett hefur verið fram af „þríeykinu“, verið gagnrýnt af bæði leikmönnum og aðilum með sérfræðiþekkingu á t.d. lækningum og faraldsfræðingum. Það er hinn eðlilegasti þáttur í samfélagi þar sem málfrelsi er tryggt í stjórnarskrá og mætti jafnvel ganga svo langt að kalla slíka opinbera rökræðu heilbrigðismerki í upplýstu samfélagi. Mikill meirihluti ber traust til okkar fagfólks, tekur leiðbeiningum, virðir boð og tilmæli, og hlýðir Víði.

Pólitískt dægurþras

Þjóðin ætlast til þess af kjörnum fulltrúum að þeir leggi niður pólitískt dægurþras og snúi bökum saman á meðan við heyjum stríð við ósýnilegan óvin sem spyr hvorki um stétt né stöðu. Þá ábyrgð hefur þingheimur sýnt. því miður var holur hljómur í orðum Ríkisstjórnarinnar þegar hún biðlaði til minnihlutans um samvinnu um mál þau er varða viðbrögð ríkisins við þeirri dökku sviðsmynd sem horfir við í atvinnumálum og efnahagsumhverfi þjóðarinnar. Minnihlutinn svaraði kalli ríkistjórnarinnar af ábyrgð, snerpu og röggsemi með því að samþykkja allt sem ríkisstjórnin lagði fram. Og það þrátt fyrir að minnihlutinn sé þannig saman settur að talsvert langt verður að teljast á milli hugmyndafræði einstakra flokka um hvernig skuli fara að við að stjórna skútunni.

Samvinna og samstaða

En hvernig voru í raun hugmyndir ríkisstjórnarinnar um samvinnu og samstöðu þegar á hólminn var komið? Jú þær voru í grunnin þannig að ríkisstjórnarflokkarnir unnu saman að því að fella allar tillögur frá minnihlutanum! Sem þó gengu allar útá að koma meira til móts við fjölskyldur og fyrirtæki. Vissulega tókst minnihlutanum að laga eitt og annað inni í nefndum en þegar ríkisstjórn biðlar til minnihluta Alþingis með slíkum hætti þá er hún að biðja um traust. Það traust var veitt þvert á pólitískar línur vegna þess að samfélagið þarfnaðist þess. En hversu lengi getur ríkisstjórn vænst því að traustið vari í sölum Alþingi þegar skilningur hennar á samvinnu og samstöðu er með þeim hætti sem raun ber vitni? Og það undir forsæti ráðherra sem margsinnis hefur rætt um mikilvægi þingræðis.

Þorgrímur Sigmundsson

Varaþingmaður Miðflokksins