Hvers vegna er iðn- og starfsnám ekki öflugra hér á landi?

Fyr­ir stuttu tók ég þátt í viðburðum og heim­sókn­um í svo­kallaðri kjör­dæm­a­viku, þegar þing­menn sækja kjós­end­ur heim og kynna sér líf og starf fjöl­breyttra fyr­ir­tækja og stofn­ana. Eitt þeirra fyr­ir­tækja sem við heim­sótt­um var Vélsmiðja Orms og Víg­lund­ar í Hafnar­f­irði. Hjá eig­anda feng­um við þær upp­lýs­ing­ar að skort­ur væri á fag­menntuðum vélsmiðum og renn­ismiðum og ástæðan sú að það færi eng­inn í þetta nám. Marga starfs­menn þyrfti því að sækja til út­landa. Skort­ur er á starfs­fólki með iðnmennt­un og einnig með raun­greina- og tækni­mennt­un. Hvers vegna er það svo?
Það er ljóst að spjót­in bein­ast að ís­lenska mennta­kerf­inu og hafa gert lengi. Stjórn­end­ur sem und­an­farna ára­tugi hafa stýrt mennta­mál­um í land­inu; sjálf­stæðis­menn, vinstri græn og fram­sókn­ar­menn, hafa lagt aðaláhersl­una á bók­legt nám á kostnað iðn- og verk­náms.

Á árum áður var verk­legt nám við héraðsskóla lands­ins þar sem starf­rækt­ar voru smíðadeild­ir og nem­end­ur út­skrifuðust frá sér­stök­um smíðadeild­um. Fram­halds­skóla­kerfið tók við og mennta­kerfið hef­ur þró­ast með þeim hætti að iðn- og starfs­nám er af skorn­um skammti í fram­halds­skól­um lands­ins og fram­halds­skóla­nem­end­ur velja sér síður iðn- og starfs­nám en jafn­aldr­ar þeirra í lönd­um OSED. Þá sýna niður­stöður einnig að frammistaða ís­lenskra nem­enda í raun­grein­um hef­ur versnað og brott­fall er með því hæsta inn­an OSED. Brott­fall er merki um að nem­end­ur hafa ekki fengið aðstoð við að velja sér nám miðað við áhuga og hæfi. Það að falla úr skóla er al­var­legt mál sem hef­ur bæði áhrif á þjóðfé­lagið og þá ein­stak­linga sem um ræðir. Það er ákveðið skip­brot að falla úr skóla vegna þess að mennt­un er mátt­ur. Mennta­kerfið hef­ur ekki þrosk­ast með til­liti til þró­un­ar og þarfa at­vinnu­lífs­ins og það er miður.

Sam­tök iðnaðar­ins gáfu ný­lega út at­vinnu­stefnu fyr­ir Ísland, sem ber yf­ir­skrift­ina „Mót­um framtíðina sam­an“ og feng­um við kynn­ingu á henni í kjör­dæm­a­vik­unni. Í skýrsl­unni kem­ur fram hve bág staða iðn- og verk­mennt­un­ar er hér á landi. Sam­tök­in kalla á viðamikl­ar úr­bæt­ur og sam­starf at­vinnu­lífs, skóla og yf­ir­valda um end­ur­bæt­ur á mennta­kerf­inu, fjölg­un iðnmenntaðra á vinnu­markaði og hækk­un hlut­falls þeirra sem velja sér starfs­nám.

Verði fram­boð iðn- og verk­náms aukið skipt­ir án efa sköp­um að at­vinnu­lífið skipu­leggi mót­töku nema þannig að áhugi nem­enda auk­ist enn frek­ar og að vinnu­tími sé hóf­leg­ur. Auðvelt er að ímynda sér að áhug­inn fari fyr­ir lítið, t.d. ef lær­ling­ur í mat­reiðsluiðn er lát­inn standa fyrstu vakt­irn­ar í 13 klukku­stund­ir, eins og dæm­in sanna. Vissu­lega er margt að læra, en vinnu­tím­inn allt of lang­ur og að stór­um hluta er verið að send­ast, þvo potta og þess hátt­ar. Leiðbein­end­ur þurfa einnig að gera rétt­mæt­ar kröf­ur og fela ungu fólki ekki of mikla ábyrgð til að byrja með. Þótt þetta hafi viðgeng­ist áður fyrr geng­ur það ekki nú og leiðir til brott­falls og van­mátt­ar. Tím­arn­ir hafa breyst og marg­ir ung­ling­ar í dag hafa ekki van­ist mik­illi vinnu á heim­il­um eða ann­ars staðar, auk þess sem vinna og vinnu­brögð eru breytt frá því sem áður var. Þeir eru því ekki bún­ir und­ir slíkt, en miklu skipt­ir að at­vinnu­rek­end­ur taki vel á móti ungu fólki og kunni aðferðir sem gætu orðið til þess að auka áhuga á hinum marg­vís­legu iðn- og verk­grein­um og vinni þar með gegn brott­falli. Ég fékk góða til­finn­ingu fyr­ir því að stjórn­end­ur í vélsmiðjunni í Hafnar­f­irðinum væru með á nót­un­um: „Það þarf að styðja þetta unga fólk, um leið og þau eru far­in að geta komið ein­hverj­um verk­um frá sér þá sjá þau hvað þau geta og áhug­inn eykst.“

Hætt­um að steypa alla í sama mótið þar sem bók­legt nám er alls­ráðandi og efl­um iðn- og verk­nám í sam­starfi skóla og at­vinnu­lífs.

 

Höfundur: Una María Óskarsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. október, 2019.