Framsóknarmenn hafa átt betri vikur en þá nýliðnu í samgöngulegu tilliti.
Áformum innviðaráðherra um gjaldtöku af öllum eldri jarðgöngum, til fjármögnunar nýrra, var vægast sagt illa tekið, en umsagnarfrestur rann út 2. ágúst og höfðu þau þá legið í samráðsgátt frá 19. júlí. Tímasetningin bendir til að hóflegur áhugi hafi verið á að fá fram athugasemdir við áformin.
Það eru fá dæmi þess að ráðherra kýli sjálfan sig jafn rækilega kaldan í eigin plaggi og því sem hann lagði fram til kynningar.
Í plagginu sem birtist í samráðsgáttinni og ber yfirskriftina „Mat á áhrifum lagasetningar“ segir á bls. 2 undir lið B.3: „Jafnframt er gert ráð fyrir því að hafin verði gjaldtaka í öllum jarðgöngum til að standa undir rekstri þeirra og styðja við gerð nýrra jarðganga.“ neðar á sömu blaðsíðu segir, í lið D.11 í samhengi við yfirvofandi gjaldtöku: „Meginatriði er að notendur hafi hag af því að nýta sér hina nýju innviði og eigi jafnframt kost á annarri leið.“
Nú hefur ráðherra ekki kynnt áform um að opna aftur Óshlíðina, eða þá vegi aðra sem jarðgöng hafa leyst af hólmi á undanförnum áratugum. Fljótt á litið virðist liður D.11 slá út af borðinu mögulega gjaldtöku í flestum jarðgöngum landsins.
Því verður vart trúað að ráðherra horfi til þess að hafa megintekjur af hugmynd sinni frá Hvalfjarðargöngum annars vegar, sem þegar er búið að greiða upp að fullu með veggjöldum, og Vaðlaheiðargöngum hins vegar, þar sem gjaldtaka er nú þegar viðhöfð. Það væri fráleitt.
Þetta tvennt; gjaldtaka í öllum göngum annars vegar og hins vegar að forsenda gjaldtöku sé að notendur hafi val um aðra leið, eru ósamrýmanleg markmið og undarlegt að enginn starfsmaður ráðuneytisins hafi bent ráðherra á hvers lags mótsögn hann væri kominn í við sjálfan sig.
gs mótsögn hann væri kominn í við sjálfan sig. Hitt málið sem var innviðaráðherra mótdrægt í vikunni var gosið í Meradölum og áhrif þess á rannsóknir og áform um (ó)mögulega byggingu flugvallar í Hvassahrauni.
Frá því gosið í Geldingadölum hófst í mars 2021 hefur sá sem hér skrifar reynt að benda innviðaráðherra á að ekki sé forsvaranlegt að brenna skattfé almennings með áframhaldandi rannsóknum á mögulegu flugvallarstæði í Hvassahrauni, þegar öllum með fulla sjón og heila hugsun var orðið ljóst að í Hvassahrauni yrði ekki byggður upp flugvöllur.
Innviðaráðherra gekkst við því í vikunni að líkur á nýjum flugvelli í Hvassahrauni færu minnkandi, en vill samt halda kúrs og klára veðurfarsrannsóknir á svæðinu! Hvaða rugl er þetta? Auðvitað áttu menn að hætta að henda fjármunum í þessar rannsóknir þegar gosið hófst í Geldingadölum fyrir rúmu ári, en að hætta því ekki núna sýnir fullkomið virðingarleysi fyrir skattfé. Ef vit væri í, þá ætti fjármálaráðherra að stöðva svona meðferð á skattfé.
Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 8. ágúst, 2022.