Jarðhræringar og raforkuöryggi á Suðurnesjum

Landris og jarðskjálftavirkni vestan við Grindavík undanfarna daga, eða frá því um 20. janúar, hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni. Sviðsmyndir hafa verið settar fram af vísindamönnum um hugsanleg áhrif þess ef eldvirkni næði upp á yfirborðið með tilheyrandi hraunrennsli og tjóni á orkumannvirkjum í Svartsengi. Á Alþingi í vikunni ræddi ég við iðnaðarráðherra um raforkuöryggi á Suðurnesjum. Auk þess átti ég fund með Landsneti um málið. Spurði ég meðal annars ráðherra að því hver staðan á Suðurnesjalínu 2 væri og hvernig ráðherra hygðist mæta þeim aðstæðum sem kynnu að koma upp ef raforkuframleiðsla stöðvaðist í Svartsengi.

Hvað ef raforkuframleiðsla í Svartsengi stöðvast?

Komi til þess að raforkuframleiðsla í Svartsengi stöðvast er eina leiðin til að senda raforku á svæðið með Suðurnesjalínu 1, sem liggur frá Hamranesi í Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ. Kom fram af hálfu Landsnets að Suðurnesjalína 1 gæti ekki annað álaginu sem þessu fylgdi og raforkuleysi á hluta Suðurnesja væri því óhjákvæmilegt. Þetta er mikið áhyggjuefni auk þess sem því er ósvarað með hvaða hætti raforka yrði flutt til Grindavíkur undir þessum kringumstæðum. Ljóst má vera að þörfin fyrir Suðurnesjalínu 2 er brýn. Öryggisþátturinn vegur þungt, ekki síst í ljósi þess sem ég rakti hér í upphafi.

Sjö ára deilur um Suðurnesjalínu 2

Deilt hefur verið um lagningu Suðurnesjalínu 2 frá því að Landsnet fékk heimild fyrir henni árið 2013 eða í ein sjö ár. Á ýmsu hefur gengið á þessum tíma. Eignarnám dæmt ólögmætt og framkvæmdaleyfi fellt úr gildi svo eitthvað sé nefnt. Ljóst má vera að stjórnvöld hafa haldið illa á þessu máli og ekkert hefur verið komið til móts við hugmyndir Sveitarfélagsins Voga og landeigenda um hugsanlega kosti við línulögnina. Umsögn Sveitarfélagsins Voga við matsskýrslu Landsnets var á þann veg að Suðurnesjalína 2 skyldi lögð í jörð og þá meðfram Reykjanesbraut. Landeigendur eru margir á sama máli. Landsnet mun að öllum líkindum sækja á þessu ári um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, á þann veg að hún skuli lögð sem loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1. Það stefnir því enn í ágreining um málið sem ekki sér fyrir endann á.

Tímabært að stjórnvöld leggi fram sáttahönd

Á fundi verkefnaráðs Landsnets í síðustu viku kom Vegagerðin og kynnti lausnir varðandi lagningu jarðstrengs meðfram Reykjanesbraut. Fram kom í máli fulltrúa Vegagerðarinnar að gerlegt væri að leggja strenginn í jaðar veghelgunarsvæðisins. Unnt væri samhliða þeirri aðgerð að ráðast í betri frágang öryggissvæðis meðfram veginum en nú er. Þetta eru jákvæðar fréttir að mínum dómi og mikilvægt innlegg í að sátt náist um þetta mikilvæga mál. Það er löngu tímabært að stjórnvöld og Landsnet rétti fram sáttahönd í málinu, svo raforkuöryggi verði tryggt á Suðurnesjum.

Höfundur:  Birgir Þórarinsson,  þingismaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist í Víkurfréttum þann 9. febrúar, 2020