Landsbankahöll og kjarklaus ráðherra

Fjármálaþjónusta tekur hröðum breytingum. Fjártæknibyltingin svokallaða í fjármálageiranum hefur þegar haft mikil áhrif á bankastarfsemi. Samkeppni milli fyrirtækja fer vaxandi, verð á fjármálaþjónustu lækkar og tími og fyrirhöfn vegna bankaþjónustu minnkar.

Mikil fækkun bankastarfsmanna
Flestir bankar standa nú í umsvifamiklum aðgerðum til að lækka kostnað. Helstu leiðir sem farnar hafa verið eru uppsagnir starfsfólks, lokanir útibúa og þróun nýrra tæknilausna. Þetta kemur m.a. fram í Hvítbók um fjármálakerfið. Uppsagnir á starfsfólki í bönkunum hafa ekki farið fram hjá okkur. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja misstu 300 manns vinnuna á síðasta ári. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að mikill samdráttur sé í starfsmannahaldi bankanna og á síðastliðnum fjórum árum hafi um 800 manns misst vinnuna í bankastarfsemi. Svo virðist sem bankarnir telji sér í hag að setja mikla fjármuni í nýjar tæknilausnir á kostnað starfsmanna. Landsbankinn er 98% í eigu ríkisins. Bankastjóri Landsbankans segir að bankinn sé í almennum hagræðingaraðgerðum og að starfsfólki hafi fækkað mjög mikið síðustu árin. Þrátt fyrir mikla fækkun starfsfólks og gjörbreytt starfsumhverfi stendur Landsbankinn í stórframkvæmd á Hafnartorgi upp á 17.000 fermetra og byggir nýjar höfuðstöðvar fyrir milljarða króna á einni dýrustu lóð landsins. Framkvæmdin hækkar stöðugt í verði og fyrir skömmu bárust fréttir þess efnis að nú þegar verktakinn er rétt búinn með grunninn hefur verkið farið 1,8 milljarða króna fram úr áætlun, sem stendur í 12 milljörðum og á eflaust eftir að hækka enn frekar.

Óþörf og óforsvaranleg framkvæmd
Fyrir rétt tæpu ári lagði ég fram á Alþingi skriflega fyrirspurn til fjármálaráðherra um fyrirhugaða byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Spurði ég um áætlaðan byggingarkostnað, hvort til greina kæmi að hætta við bygginguna og selja lóðina. Auk þess spurði ég ráðherra hvort hann teldi framkvæmdin skynsamlega af hálfu ríkisbanka, ekki síst í ljósi mikilla breytinga á bankaþjónustu og fækkun starfsmanna. Skemmst er frá því að segja að ráðherra hefur ekki enn svarað fyrirspurninni. Lýsir þetta skorti á virðingu gagnvart Alþingi og að málið er óþægilegt fyrir hann. Vandséð er hvernig hægt er að réttlæta að ríkisbanki setji vel á annan tug milljarða í byggingu, sem hann þarf ekki á að halda. Auk þess mun bankinn aðeins nota um helming byggingarinnar en leigja þúsundir fermetra út frá sér til verslunar og þjónustu. Ríkisbákn fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins heldur því áfram að þenjast út sem aldrei fyrr. Nýjasta verkefnið er útleiga húsnæðis á dýrasta stað í borginni fyrir veitingahús og tískuvörur.

Ráðherra reynir að fría sig ábyrgð
Bygging nýrra höfuðstöðva ríkisbanka er óþörf og óforsvaranleg. Fjármálaráðherra hefði hæglega getað komið í veg fyrir þessa taktlausu og dýru framkvæmd á kostnað skattgreiðenda. Samkvæmt lögum um Bankasýslu ríkisins fer stofnunin með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Bankasýslan heyrir undir fjármálaráðherra sem skipar stjórnina. Ráðherra hefði getað komið þeim tilmælunum til stjórnar að falla frá framkvæmdinni. Ráðherra hefði einnig getað beint þeim tilmælum til Bankasýslunnar að kalla saman hlutahafafund þar sem lagt hefði verið fyrir stjórn bankans að hætta við framkvæmdina og selja lóðina. Þess í stað skortir ráðherra kjark til að taka á málinu og reynir að búa til sinn eigin umboðsvanda. Vísar ábyrgðinni á stjórn bankans og Bankasýsluna en gleymir því að hann er gæslumaður ríkissjóðs, sem er eignandi bankans. Nær væri að þeir milljarðar sem fara í þetta gæluverkefni yrðu settir í fjársvelt heilbrigðiskerfi.

Höfundur: Birgir Þórarinsson,  þingismaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 17. febrúar, 2020