Lög um fjárfestingar erlendra aðila

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn til dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.  Spurði hann dómsmálaráðherra hvort ekki væri nauðsynlegt að endurskoða lögin um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

"Herra forseti. Upplýsingar eru verðmæti. Heilu stórfyrirtækin vinna einungis að því að afla upplýsinga og miðla þeim. Það eru náin tengsl milli upplýsinga, þekkingar og valds. Ef allt er vitað um einstaklinga, hópa eða jafnvel heilu ríkin er auðveldara að hafa stjórn á þeim eða hafa áhrif á þau. Þegar kemur að upplýsingum eru hagsmunir af misjöfnum toga. Hagsmunir geta komið sér vel fyrir almenning og hagsmunir geta verið ógn við öryggi ríkisins. Upplýsingarnar geta í einhverjum tilfellum ráðið úrslitum um framtíð ríkja og þjóða, ýmis tryggt eða ógnað þjóðaröryggi. Það er mikilvægt að styrkja regluverk hér á landi um upplýsingaöflun og miðlun upplýsinga. Það er ekki síður mikilvægt að vera vel meðvituð um hverjir eiga fyrirtækin sem safna upplýsingum. Hvar liggja t.d. mörkin á milli upplýsingaöflunar og njósna? Hvernig eru njósnir skilgreindar? Eru þær leyfilegar í einhverjum tilfellum? Hvenær er farið yfir strikið og hver eru viðurlögin?

Hér á landi eru lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Þau eru komin til ára sinna og hafa ekki verið uppfærð lengi. Þau taka mið af hefðbundnu atvinnugreinunum á Íslandi, orkunni, fiskinum og fasteignum. Á síðustu árum hefur spenna í heiminum aukist, eins og við þekkjum, og tæknibyltingin á sér svo sannarlega stað þar sem bæði tækni og upplýsingar verða sífellt mikilvægari. Lögin hafa engu að síður ekki verið uppfærð. Því sæta viðskipti með tæknifyrirtæki sem geta verið nauðsynleg fyrir öryggi Íslendinga eða fyrirtæki sem búa yfir gríðarlegu magni af upplýsingum, t.d. um Íslendinga, ekki skoðun eða takmörkunum.

Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki sé nauðsynlegt og hvort unnið sé að því að endurskoða lögin um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi hér."

Svar dómsmálaráðherra var á þá leið að málefnasvið dómsmálaráðuneytisins næði ekki yfir þessa löggjöf og beina þyrfti fyrirspurninni til annars ráðherra.

Birgir sagði svar ráðherra vera með ólíkindum:  "Hefur hæstvirtur ráðherra enga skoðun á því að þetta mál sé þjóðaröryggismál? Þá hlýtur hæstvirtur ráðherra að hafa skoðun á því hvort ekki sé nauðsynlegt að endurskoða lögin þó svo að þau heyri ekki beint undir ráðherra. Ég verð að segja það, herra forseti, að þetta svar kemur mér algjörlega í opna skjöldu, ég verð bara að segja alveg eins og er. Kannski er það vísbending um að þessi mál séu bara alls ekki í nógu góðu lagi hjá okkur. Við höfum fengið fréttir af því og sáum það t.d. í mars að erlendur framtakssjóður keypti meiri hluta hlutafjár í stóru fyrirtæki á Íslandi sem safnar upplýsingum um Íslendinga og fyrirtækið safnar gríðarlega miklum upplýsingum. Við sjáum að erlendir aðilar eru að safna hér upplýsingum og það hlýtur að vera þjóðaröryggismál. Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra, fyrst hún svaraði algjörlega út í hött í fyrra andsvari: Hver er skoðun hæstvirts ráðherra á því að fyrirtæki sem safna upplýsingum um Íslendinga séu að fullu í eigu erlendra aðila? Heyrir það kannski heldur ekki undir verksvið ráðherra að svara þeirri fyrirspurn?"

Dómsmálaráðherra sagðist treysta því að það sé til skoðunar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ef það er eitthvað í þessum lögum sem gæta þarf sérstaklega að. 

Upptöku af fyrirspurn Birgis og svörum ráðherra í þingsal má sjá hér