Nýlega lagði heilbrigðisráðherra fram á Alþingi þingsályktunartillögu um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.
Framsögumanni nefndarálits meirihluta, þingmanni Vinstri grænna, varð tíðrætt í ræðu sinni um hugtakið mannhelgi og lagði áherslu á að það gengi framar öðrum gildum. Einnig lagði hann áherslu á að nefndin ítrekaði þann skilning sinn að hugtakið næði yfir réttinn til lífs. Taka ber heilshugar undir það. En málið á sér aðra og dekkri hlið sem ég vakti athygli á. Sú hlið eru ný lög um fóstureyðingar, sem voru samþykkt á Alþingi á liðnu ári, við hávær fagnaðarhróp hluta þingmanna og áheyrenda á þingpöllum. Þar með gengur íslensk löggjöf um fóstureyðingar lengra en gerist annars staðar á Norðurlöndum og víðast hvar í Evrópu. Málið var forgangsmál ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar. Veldur vonbrigðum að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa stöðvað málið í ríkisstjórn, sem honum var í lófa lagið að gera. Flokkur sem eitt sinni barðist gegn fóstureyðingum en hefur horfið frá þeirri stefnu, eins og mörgum öðrum mikilvægum stefnumálum á vettvangi stjórnmálanna.
Í vestrænni trúar- og menningarhefð hefur mannhelgin verið orðuð svo að maðurinn sé skyni borin vera, skapaður í Guðs mynd.
Í umræðu um þingsályktunartillöguna á Alþingi um siðferðileg gildi í heilbrigðisþjónustu spurði ég þingmann VG sem hafði framsögu í málinu hvernig nýju lögin um fóstureyðingar samrýmdust hugtakinu mannhelgi í heilbrigðisþjónustu. Lögin heimila að eyða fóstri fram til loka 22. viku meðgöngu. Á þeim tíma meðgöngunnar hefur fóstrið tekið á sig fulla mannsmynd og öðlast tilfinningu og sársaukaskyn.
Framsögumaður svaraði því til að búið væri að skilgreina að ófædd börn féllu ekki undir hugtakið mannhelgi. Ég svaraði að bragði að slík skilgreining væri ekki á okkar færi.
Fóstureyðingarlögin heillaspor að mati dómsmálaráðherra
Í umræðunni veittist dómsmálaráðherra að þingmönnum Miðflokksins sem leyfðu sér að ræða að mannhelgi næði til ófæddra barna í móðurkviði. Ráðherra lýsti nýrri fóstureyðingarlöggjöf sem „miklu heillaspori“.
Leyfi ég mér að efast um að sjálfstæðisfólk sem almennt aðhyllist hefðbundin vestræn gildi taki undir orð ráðherrans.
Nýju lögin um fóstureyðingar eru mesta óheillaspor sem ríkisstjórnin hefur stigið á sínum ferli. Þau eru hvorki henni né þjóðinni til blessunar.
Höfundur: Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. júní, 2020