Mannhelgi og ófædd börn

Ný­lega lagði heil­brigðisráðherra fram á Alþingi þings­álykt­un­ar­til­lögu um siðferðileg gildi og for­gangs­röðun í heil­brigðisþjón­ustu.

Fram­sögu­manni nefndarálits meiri­hluta, þing­manni Vinstri grænna, varð tíðrætt í ræðu sinni um hug­takið mann­helgi og lagði áherslu á að það gengi fram­ar öðrum gild­um. Einnig lagði hann áherslu á að nefnd­in ít­rekaði þann skiln­ing sinn að hug­takið næði yfir rétt­inn til lífs. Taka ber heils­hug­ar und­ir það. En málið á sér aðra og dekkri hlið sem ég vakti at­hygli á. Sú hlið eru ný lög um fóst­ur­eyðing­ar, sem voru samþykkt á Alþingi á liðnu ári, við há­vær fagnaðar­hróp hluta þing­manna og áheyr­enda á þing­pöll­um. Þar með geng­ur ís­lensk lög­gjöf um fóst­ur­eyðing­ar lengra en ger­ist ann­ars staðar á Norður­lönd­um og víðast hvar í Evr­ópu. Málið var for­gangs­mál rík­is­stjórn­ar Vinstri grænna, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar, með heil­brigðisráðherra í broddi fylk­ing­ar. Veld­ur von­brigðum að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn skuli ekki hafa stöðvað málið í rík­is­stjórn, sem hon­um var í lófa lagið að gera. Flokk­ur sem eitt sinni barðist gegn fóst­ur­eyðing­um en hef­ur horfið frá þeirri stefnu, eins og mörg­um öðrum mik­il­væg­um stefnu­mál­um á vett­vangi stjórn­mál­anna.

Í vest­rænni trú­ar- og menn­ing­ar­hefð hef­ur mann­helg­in verið orðuð svo að maður­inn sé skyni bor­in vera, skapaður í Guðs mynd.

Í umræðu um þings­álykt­un­ar­til­lög­una á Alþingi um siðferðileg gildi í heil­brigðisþjón­ustu spurði ég þing­mann VG sem hafði fram­sögu í mál­inu hvernig nýju lög­in um fóst­ur­eyðing­ar sam­rýmd­ust hug­tak­inu mann­helgi í heil­brigðisþjón­ustu. Lög­in heim­ila að eyða fóstri fram til loka 22. viku meðgöngu. Á þeim tíma meðgöng­unn­ar hef­ur fóstrið tekið á sig fulla manns­mynd og öðlast til­finn­ingu og sárs­auka­skyn.

Fram­sögumaður svaraði því til að búið væri að skil­greina að ófædd börn féllu ekki und­ir hug­takið mann­helgi. Ég svaraði að bragði að slík skil­grein­ing væri ekki á okk­ar færi.

Fóst­ur­eyðing­ar­lög­in heilla­spor að mati dóms­málaráðherra

Í umræðunni veitt­ist dóms­málaráðherra að þing­mönn­um Miðflokks­ins sem leyfðu sér að ræða að mann­helgi næði til ófæddra barna í móðurkviði. Ráðherra lýsti nýrri fóst­ur­eyðing­ar­lög­gjöf sem „miklu heilla­spori“.

Leyfi ég mér að ef­ast um að sjálf­stæðis­fólk sem al­mennt aðhyll­ist hefðbund­in vest­ræn gildi taki und­ir orð ráðherr­ans.

Nýju lög­in um fóst­ur­eyðing­ar eru mesta óheilla­spor sem rík­is­stjórn­in hef­ur stigið á sín­um ferli. Þau eru hvorki henni né þjóðinni til bless­un­ar.

 

Höfundur:  Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. júní, 2020