Matarhornið: Bleikja, hægelduð í hvítvíni

Matarhorninu hefur borist ný uppskrift og í þetta sinn er það gómsæt bleikja, hægelduð í hvítvíni.

Það er Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður, sem á heiðurinn af þessum rétti sem er fyrir fjóra og er uppskriftin hér að neðan.  Verði ykkur að góðu!

Bleikja, hægelduð í hvítvíni

250 – 300 gr. beinhreinsuð bleikjuflök á mann

5-6 Bökunarkartöflur

2 – 3 gulrætur eftir stærð

1-2 sellerístilkar

3 hvítlauksgeirar

Hvítvín

Smjör

Salt

Timian

Við byrjum á að sjóða kartöflur.   Á meðan þær sjóða skerum við gulrætur og sellerí í julienne strimla og setjum í sjóðandi vatn með smá salti og smjöri. Slökkvum undir pottinum.

Sjóðum kartöflur í bitum í vel söltu vatni. Hitum rjóma og smjör í potti og merjum kartöflur þar í og setjum saxaðan hvítlauk saman við.   

Hitum saman hvítvín og smjör á pönnu við lágan hita og röðum bleikjunni í pönnuna með roðið niður.  Kryddið með smá salti og timian.  Bleikjan á að hitna svo rólega að hægt sé að fylgjast með henni breyta um lit.  Þegar hún er bleik í jöðrunum en ennþá rjóð í miðjunni er hún tilbúin.

Borið fram með grænmetisstrimlum og kartöflumús ásamt smá skvettu af soðinu.

Verði ykkur að góðu.

Þorsteinn Sæmundsson