Matarhornið: Gúllassúpa Gundels

Eitt besta veitingahús í Budapest heitir Gundel eftir stofnanda sínum Karoly Gundel (1883-1956).  

(www.gundel.hu  Gundel Etterem Állatkerti út 2. Budapest, 1146) 

Gundel þessi rak veitingahúsið frá 1910 þar til það var þjóðnýtt 1949.   Veitingahúsið komst í hendur nýrra eigenda 1992 og þar starfaði síðast þegar ég vissi ungverskur kokkur Kalla að nafni sem hefur unnið ,,Bocuse d´or” kokkaverðlaunin. Þeir sem borða á Gundel verða að prófa pönnukökurnar sem eru heimsfrægar.  Uppskriftin að þeim kemur seinna.

Gamli Gundel gaf út matreiðslubók 1934 með ungverskum uppskriftum.  Bókin var endurútgefin árið 2003.  Þessi uppskrift að gúllassúpu er úr bók Gundels.

Gúllassúpa Gundels

Fyrir 6-8 manns:

1 kg. Nautakjöt

80 gr. Svínafeiti til steikingar (góð olía virkar)

300 gr. laukur

3 msk. Paprikuduft

Kúmenfræ steytt

3 hvítlauksrif

1 kg. kartöflur

2 grænar paprikur

1-2 msk. tómatpuré

Súpupasta (má sleppa)

80 gr. hveiti

1 egg

Salt

Hnoðið vel (ekki nota vatn).

Rúllið deiginu út.

Klípið bita úr deiginu og setjið í súpuna síðustu 2-3 mínútur suðutímans. 

Þegar deigbitarnir fljóta upp eru þeir soðnir.

 

Kraumið laukinn í feiti eða olíu, bætið papriku í og hrærið.  Setjið nautakjötið í góðum munnbitum út í og saltið (eða notið nautakraftkubba).   Bætið í kúmenfræjum og hvítlauk smátt söxuðum. Hellið vatni í svo fljóti vel yfir.  Sjóðið við vægan hita í 3 tíma eða þar til kjötið er meyrt. Á meðan kjötið sýður, skerið kartöflur í teninga og saxið papriku.  Bætið kartöflubitum og papriku út í ásamt tómatpúré síðustu 20 mínútur suðutímans.  Smakkið til með súputeningum.  Ef þið notið pastað sjá uppskrift að ofan.

 

Annars gott súrdeigsbrauð með........ tilbúið!

Verði ykkur að góðu.  ÞS.