Meira og Stærra.

Meira og Stærra.

Við göngum í gegnum óvenjulega tíma þessa stundina. Skæð veira herjar á þjóðir heims með þeim afleiðingum að þúsundir deyja, efnahagur heimsins skelfur og óvissa er mikil í öllum löndum. Allt þetta kemur ofan í samdrátt í efnahagslífinu, jarðhræringar og harðan vetur. Það reynir á okkur öll, hvert og eitt, fjölskyldur og fyrirtæki beint og óbeint. Við reynum að standa saman í því að minnka smit veirunnar og munum standa saman í því að endurreisa efnahaginn.

Ríkistjórnin hefur kynnt aðgerðir og sumar þeirra nú þegar verið samþykktar. Fagna ber öllu sem gert er til að bæta ástandið en meira þarf að gera og hraðar að mati margra. Umræða um samheldni og samstöðu má ekki verða til þess að loka á gagnrýna hugsun, tillögur og umræðu um það sem sett er fram.

Fyrirtæki landsins eru undirstaða velmegunar landsmanna. Þar verða til fjármunirnir sem knýja áfram efnahagslífið og velferðarsamfélagið. Fyrirtækin eru misvel búin til að takast á við þennan vanda, bæði samdráttinn sem var orðinn og þennan ófyrirséða vágest sem Covid19 veiran er. Tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að sum fyrirtæki fái fyrirgreiðslu og önnur ekki. Almennar aðgerðir eru betri. Við í Miðflokknum lögðum til að beitt yrði t.d. greiðsluskjóli allra fyrirtækja og einstaklinga í ákveðinn tíma og síðan unnið úr vanda þeirra í skjóli. Ríkisstjórnin virðist reiða sig á að fjármálafyrirtækin taki að sér úrvinnsluna þar sem ein af  leiðunum sem er í boði er lán/ábyrgð ríkisins á móti banka. það verður samt sem áður hlutverk bankans að fara yfir umsóknir og meta hverjir fá fyrirgreiðslu og hverjir ekki.

Þetta fyrirkomulag er varasamt. Bankarnir munu alltaf horfa á fyrirtækin út frá sínum hagsmunum og því munu ekki öll fyrirtæki sitja við sama borð. Kerfið virðist flókið og tímafrekt auk þess sem ekki er gert ráð fyrir að þeir sem fá neitun hjá bankanum geti leitað álits annars aðila eða skotið ákvörðun bankans til annars aðila til úrskurðar.

Ein tillaga sem Alþingi er búið að samþykkja er að fyrirtæki og einstaklingar í rekstri geta fengið allt að 75% launa greidd af ríkinu tímabundið. Víst er að það mun gagnast einhverjum en ekki öllum. Það eru mörg fyrirtæki sem eru algjörlega tekjulaus og hafa því ekki tök á að greiða þau 25% sem uppá vantar. Þau eru mögulega skuldsett vegna fjárfestinga í tækjum og munu því þurfa að leita á náðir sinna lánadrottna með sitt framhald.

Miðflokkurinn vill almennar, meiri og stærri aðgerðir strax. Ástæðan er sú að reynslan kennir okkur að betra sé að gera meira en minna en síðan má draga úr. Það því illskiljanlegt að stjórnvöld skuli leggja upp með sértækar flóknar aðgerðir og ætla svo að bæta í ef þörf reynist. Enginn þarf að efast um að þörfin er og verður til staðar næstu mánuði því þótt veirufaraldurinn gangi yfir mun efnahagslífið vera mánuði eða ár að jafna sig.

Það er ágæt samstaða um aðgerðir en skiptar skoðanir um leiðir. Miðflokkurinn er reiðubúinn að vinna með stjórnvöldum ef boðið verður uppá samráð og áheyrn. Betri sjá augu en auga.

Gunnar Bragi Sveinsson

Þingmaður Miðflokksins í SV-kjördæmi

Greinin birtist í Spyrnu blaði Miðflokksdeildar Mosfellsbæjar