Mögulega aukin umsvif NATO á Íslandi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði forsætisráðherra um mögulega aukin umsvif NATO á Íslandi í óundirbúnum fyrirspurnartíma í vikunni.

Herra forseti. Eins og fram kom í samskiptum hér á undan hefur verið ánægjulegt að sjá hversu vel Vesturlönd standa saman núna eftir hina hrikalegu innrás í Úkraínu þó að undirbúningi hefði hugsanlega mátt hafa verið betur háttað. En nú ríkir samstaða og ekki hvað síst hefur NATO sannað gildi sitt og Eystrasaltslöndin, vinaþjóðir okkar þar, Pólverjar og fleiri þjóðir í austanverðri Evrópu eru mjög fegnar, auðvitað, að vera aðilar að þessu bandalagi, enda sýnir það stuðning við þessar þjóðir á þessum viðsjárverðu tímum.
En afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og því síðasta til Atlantshafsbandalagsins hefur verið nokkuð á reiki. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra við þessar aðstæður sem nú eru uppi: Styður ríkisstjórnin öll aukin umsvif Atlantshafsbandalagsins á Íslandi? Það eru líkur á því að eftir því verður sóst eins og hlutirnir eru að þróast og jafnframt líkur á því að farið verði fram á aukinn stuðning bandalagsþjóðanna við NATO á þann hátt sem þær geta best gert hver um sig. Styður hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og aukin umsvif þess hér, hugsanlega uppbyggingu og aukinn stuðning Íslands við bandalagið?

Fyrirspurnina má sjá í heild sinni hér.