Karl Gauti Hjaltason ræddi um mótsagnir í stjórnmálum í störfum þingsins á Alþingi í dag:
Ég ætla að halda aðeins áfram að ræða pólitíkina almennt. Í gær vorum við að tala um traust á stjórnmálum og stjórnsýslunni. Þar ræddi ég nauðsyn þess að ráðamenn töluðu skýrt og útskýrðu gjörðir sínar sem á stundum virka illskiljanlegar í augum venjulegs fólks og nefndi ég nokkur dæmi. Ef stjórnvöldum auðnaðist að gera þetta væri það án nokkurs vafa til að auka traust á stjórnmálum.
Ég ætla að bæta aðeins við núna og tala um mótsagnir í stjórnmálum sem nauðsynlegt er að útskýra betur fyrir fólki, t.d. framganga vinstri manna í umhverfis- og loftslagsmálum. Þar hefur einkennt þeirra framgöngu undanfarin misseri að friða nánast allt sem fyrir finnst og nú á að friða allt hálendi Íslands. Að sjálfsögðu eigum við að ganga vel um okkar einstöku náttúru. En er þá ekki svolítið mótsögn í því að koma þannig í veg fyrir að við höldum áfram á skynsamlegan hátt að nýta okkar grænu og endurnýjanlega orku sem er langstærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála í heiminum? Með því að standa gegn frekari nýtingu grænnar orku hér á landi er verið að auka á vandann á heimsvísu. Stundum er þetta eins og eitt alheimsbókhald en stundum nenna þeir ekki eða gleyma að horfast í augu við þá staðreynd. Með þessu er stuðlað óbeint að meiri mengun annars staðar í heiminum og aukið þannig á loftslagsvandann. Hvernig rímar þetta við að allir taki ábyrgð á loftslagsvandanum? Þyrfti ekki að útskýra þetta betur fyrir fólki?
Nú erum við nýbúin að samþykkja lög til að styðja við einkarekna fjölmiðla sem er í sjálfu sér hið besta mál ef ekki væri fyrir það að annar og miklu stærri vandi er skilinn eftir þar sem er rekstur Ríkisútvarpsins. Þetta lítur út eins og einhvers konar neyðaraðstoð, algerlega án þess að jafnframt sé ráðist á hina raunverulegu orsök vandans. Á sama tíma og við tökum einkarekna fjölmiðla í fang ríkisins eru skattgreiðendur árlega skyldaðir til að greiða 5 milljarða til Ríkisútvarpsins sem er eins og risastórt nátttröll á fjölmiðlamarkaði og leyft að auki að keppa við einkareknu fjölmiðlana á auglýsingamarkaði. Þyrfti ekki að útskýra þetta eitthvað betur fyrir fólki?
Ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér