Neysluskammtur og leiðin til Heljar

Stundum er haft á orði að leiðin til Heljar sé vörðuð góðum ásetningi. Þetta kemur upp í hugann þegar umræðan um lögleiðingu neysluskammta og afglæpavæðingu fíkniefna er skoðuð. Ég vil leyfa mér að trúa því að þeir sem vilja fara þessa leið vilji vel en því miður er hún röng. Ekki aðeins vegna þess að hún sendir ungu og óhörðnuðu fólki röng skilaboð um þær hættur sem fylgja fíkniefnaneyslu heldur ekki síður vegna þess að útfærslan er nánast glæpsamlega vanhugsuð.

Neysla fíkniefna er eitt alvarlegasta mein okkar þjóðfélags, í flestum tilfellum má rekja aðra glæpi til þeirra, einfaldlega vegna þess að gerandinn veit ekki í þennan heim né annan eða hefur misst stjórn á gjörðum sínum. Neyslan getur síðan leitt persónulegar hörmungar yfir neytandann og hans nánustu. Það mun ekkert breytast þó að neysluskammtar verði leyfðir. Nánast daglega erum við minnt á afleiðingar fíkniefna þar sem neytandinn hefur stefnt sjálfum sér eða öðrum í voða. Þetta er stríð sem ekki vinnst í einni orrustu heldur þarf stöðugt að halda áfram við að reyna að halda í horfinu með mannúð og gæsku að vopni.

Það er verið að byrja á röngum enda með því að ráðast í að lögleiða neyslu fíkniefna án þess að hafa tryggt heildstæða stefnu í vímuefnamálum. Þetta vita allir heilbrigðisstarfsmenn og þeir sem vinna með vímuefnasjúklingum eða hafa reynslu af þeim. Þess vegna eru þeir á móti frumvarpi því sem heilbrigðisráðherra kynnti fyrir Alþingi fyrr í vetur. Það væri líklega ráð fyrir þá sem hæst tala að kynna sér þær vönduðu umsagnir sem borist hafa inn í samráðsgátt stjórnvalda undanfarið. Það er mikilvægt að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk tileinki sér þessa þekkingu um skaðsemi kannabisneyslu og komi henni áfram til sjúklinga, almennings og þó einkum til unglinga og ungs fólks. Því miður virðist hafa orðið misbrestur á þessari fræðslu undanfarin ár.

Látum ekki blekkjast af fagurgala þeirra sem halda því fram að hægt sé að vinna þessa baráttu með því að hætta henni og smíða ný hugtök eða umorða þau eldri. Það er risastökk milli þess að milda refsingar fyrir neysluskammta og að sleppa þessum markaði lausum. Afglæpavæðingin felst í að lögreglan þarf að útskýra afskipti sín af fólki í vímu og neyslu, alveg sama við hvaða aðstæður þau eru. Þannig er hlutverkunum snúið á haus og sjúklingurinn stýrir ferðinni. Hverjum dettur í hug að það sé til góðs?

 

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 12. maí, 2021