Ofbeldi, kynlíf og öfgar

Me too-bylting reið fyrst yfir síðla árs 2017. Frá þeim tíma hafa öldur ásakana, bæði réttmætra og rangra, skollið á ríkjandi karlmennsku. Mun „byltingin éta börnin sín“?

Við búum hér við mannréttindi. Í löndum, sem sum hafa hér sendiráð, eru mannréttindi ekki aðeins af skornum skammti heldur fótum troðin. Bylting samkynhneigðra í Bandaríkjunum '69 olli straumhvörfum. Þetta var uppreisn homma og hinsegin fólks gegn yfirvöldum í New York.

Á hverju byggist baráttan? Hún byggist á kröfunni um frelsi. Það er ekki sjálfsagt að geta notið frelsis, þ.m.t. kynfrelsis. Það ríkir ekki alls staðar mál-, rit- og almennt tjáningarfrelsi. En frelsi fylgir ábyrgð án öfga. Baráttan fyrir frelsinu hefur kostað blóð, svita og tár.

Fjölmargir leitast við að fræða aðra um kynmök og hvernig eigi að bera sig að og gæta sín, velja sér maka og rata rétta leið. Með tilkomu pillunnar í Bandaríkjunum árið 1957 varð bylting hvað réttindi kvenna varðar en þær gátu í kjölfarið stjórnað hvort af getnaði leiddi þungun. Reyndar var pillan bönnuð til handa giftum konum þar til með merkum dómi 1965 (Griswold-Connecticut). Frelsi kvenna jókst til muna. Konur beisluðu gandinn og gátu riðið óáreittar á ný mið rétt eins og karlar.

Við getum flest ef ekki öll verið sammála um mikilvægi framangreindrar þróunar. Hvað svo?

Nýlega komu fram leiðbeiningar fyrir börn á samfélagsmiðlinum Instagram um kyrkingar samhliða kynlífi. Í frétt mbl.is 27. og 28. janúar sl. er haft eftir leiðbeinandanum að sérstaka áherslu ætti að leggja á að kyrkingar ætti aðeins að framkvæma í miðri kynlífsathöfn með „upplýstu samþykki“ beggja barnanna. Helstu kanónur kvenna á þessu sviði náðu að tjá sig um efni málsins og málsmetandi kynjafræðikennarar áttu ekki til aukatekið orð. Foreldrar barnanna virðast afskiptir í umræðunni þrátt fyrir ákvæði 9. greinar grunnskólalaga sem segir hlutverk foreldrafélaga m.a. „að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla“. Kynís, Kynjafræðifélag Íslands, tekur undir það að kynna eigi börnum kyrkingar. Stjórn Kynís skipa fjórar konur, ein af þeim transkona og einn karl sem er titlaður sálfræðingur og e.k. BDSM-sérfræðingur.

Eftirspurn eftir óförum karla er mikil um þessar mundir. Fjölmargir miðlar eru tilbúnir að nýta frelsið óspart en skortur á hráefni ógnar tilvist þeirra. Hart er sótt á miðin. En þessi „normalísering“ ofbeldis er ný af nálinni.

Lögum og reglum er víða vikið til hliðar og farið eitthvað allt annað en lögreglan og ríkisvaldið ætlast til. Þetta er bylting! Karlmenn viðurkenna margir ofbeldisbrot og blygðast. Kynlífsbyltingin virðist þróast í þær áttir að ekkert verður lengur við ráðið. Er frelsi í þessu fólgið?

Samfylkingin lagði eitt sinn til að banna kaup á vændisþjónustu en ekki sölu hennar. Glæpagengi og undirheimar á Íslandi ráða nú þarna ríkjum, selja út saklausar konur og jafnvel drengi, „þökk“ sé þessari lagasetningu. Það er ofbeldi að taka af fólkið valfrelsið og verndina. Þarna reynist gata glæpamanna greið að ungum drengjum og stúlkum. Ekki að undra að ofbeldið aukist og ranghugmyndir kvikni í ungum óhörðnuðum sálum.

Móðirin og gjaldkerinn í bankanum, sem ég ræddi við um Me too, er strákamamma. Hún lýsti fyrir mér áhyggjum sínum. Hvernig á hún, sem móðir og kona, að leiðbeina drengjum sínum í gegnum byltinguna varðandi samskipti við kvenkynið eða önnur kyn? Samhliða vilja efalaust mæður framtíðar að feður verði góðar fyrirmyndir og sterkir á svellinu eins og þær sjálfar.

Í 23. tl. 6. gr. almennra hegningarlaga segir um skyldu til refsingar: „Fyrir háttsemi sem greinir í samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi frá 11. maí 2011.“ Þetta ákvæði barst inn í lagabálkinn með lögum nr. 23 frá 2016. Hvað með kröfur kynjafræðinnar um fleiri kyn en aðeins tvö? Hvað með ofbeldi gegn körlum, transfólki og kynsegin fólki á heimilum landsmanna?

Miðillinn Makamál fjallaði um makalaust efni rétt fyrir jólin 2020. Þar lýsti „bodysex“-leiðbeinandi og fullnægingarráðgjafi um unaðsbyltingu. Var þar lýst að markmiðið með byltingunni væri að róa taugakerfið og auka gleðihormónin á meðal kvenna. Þessi umfjöllun var til minningar um bandaríska kynfræðinginn dr. Betty Dodson sem er talin vera móðir fullnægingarinnar (e. the Mother of Masturbation). Eitt það áhugaverðasta við þessa umfjöllun er að til eru námskeið sem miða að því að bæta kynheilbrigði kvenna.

Námskeiðin ganga aðallega út á að konur hittist og stundi saman sjálfsfróun til að ná bættri líðan. Skömmu eftir þessa umfjöllun var opnuð ljósmyndasýning í Ásmundarsal á vegum femíníska listahópsins AFSAKIÐ en þar gaf að líta ljósmyndir af andlitum kvenna skömmu eftir að þær höfðu fengið fullnægingu. Þetta er algjör snilld en er ekki gott á stundum að halda eigin órum fyrir sig?

Karlmenn eiga þarna langt í land. En eitt er víst að við karlarnir flestir, rétt eins og konur, tökum hlutverk okkar alvarlega. Er ekki ráð að við stígum fram?

Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. janúar, 2022.