Ófremdarástand í málefnum hælisleitenda

Málefni förufólks, flóttamanna og annarra sem ferðast um langan veg vegna væntinga um betra líf, eru í algjörri óreiðu á Íslandi. Þetta hef ég nefnt alloft áður og oft fengið bágt fyrir. Oft hefur verið svarað með útúrsnúningum og sleggjudómum án tengsla við raunveruleikann. En nú hefur raunveruleikinn hlaupið sýndarmennskuna uppi eins og jafnan gerist fyrr eða síðar.

Nokkur ár eru liðin frá því að þingmenn Miðflokksins tóku að benda á að fjöldi hælisleitenda á Íslandi væri hlutfallslega orðinn margfalt meiri en í öðrum Norðurlandaríkjum. Á sínum tíma bentum við á að hann væri orðinn sexfalt meiri en í Danmörku og Noregi og rúmlega tvöfalt meiri en í Svíþjóð sem er þekkt fyrir opna stefnu í málaflokknum.

Við bentum á ástæðurnar. Noregur og sérstaklega Danmörk hefðu innleitt stefnu sem ætlað var að takast á við vandann út frá staðreyndum. Þannig yrði þessum löndum gert kleift að gera sem mest gagn fyrir þá sem eru í mestri neyð. – Fremur en að vera áfangastaður þeirra glæpagengja sem hneppa fólk í ánauð og senda það í hættuför með því að selja væntingar um bætt lífskjör.

Ísland fór í þveröfuga átt. Ríkisstjórnin auglýsti í raun Ísland sem áfangastað með reglunum sem hún innleiddi og þeim skilaboðum sem hún sendi frá sér. Það gekk í berhögg við stefnu danskra stjórnvalda. Forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, leiðtogi Jafnaðarmanna, lýsti því yfir að markmiðið væri að enginn kæmi til landsins til að sækja þar um hæli. „Danmörk má ekki vera söluvara glæpagengja,“ sagði Mette. Hún og danskir Jafnaðarmenn hafa metið stöðuna út frá staðreyndum. Markmiðið er ekki að loka landinu fyrir fólki í neyð heldur að nálgast þessi stóru og erfiðu mál á þann hátt að hægt sé að gera sem mest gagn. Hjálpa sem flestum þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda og gera það sem best.

Á Íslandi er þessu öfugt farið. Stjórnvöld senda frá sér skilaboð sem virka sem auglýsingaefni fyrir þá sem skipuleggja fólksflutninga. Slík skilaboð dreifast hratt á samfélagsmiðlum eða á götuhornum þar sem dreifibréfum er útdeilt. Ég er minnugur þess þegar finnskur ráðherra sagði mér að stjórnvöld þar í landi hefðu orðið felmtri slegin þegar 50-60.000 manns komu skyndilega frá tilteknu landi til að sækja um hæli. Ástæðan reyndist sú að reglubreyting, sem finnska þingið taldi smávægilega, hefði sett Finnland á kortið sem vænlegan áfangastað. Straumi, sem áður var beint til Belgíu, var snúið til Finnlands.

Ríkisstjórn Íslands hefur sett stóran rauðan hring um Ísland sem áfangastað með þeim reglum sem hér gilda og þeim skilaboðum sem hún hefur sent frá sér. Þetta er löngu orðið augljóst en nýjasta útspilið felst í svokölluðum lögum um samræmda móttöku flóttamanna. Með lögunum er öllum sem fá landvistarleyfi tryggð sama þjónusta og greiðslur óháð því hvernig þeir koma til landsins.

Íslendingar hafa lengi tekið við fáeinum tugum flóttamanna árlega og viljað gera vel við það fólk sem boðið er til landsins. Nú eiga allir rétt á sömu þjónustu, hvort sem þeir eru valdir og boðið til Íslands af sérstökum ástæðum eða koma með ólögmætum hætti á vegum þeirra sem skipuleggja fólksflutninga. Vart er hægt að hugsa sér betri auglýsingu fyrir þá sem selja Ísland sem áfangastað. Fyrir vikið eru umsóknir nú taldar í þúsundum.

Þingmenn Miðflokksins náðu að stöðva þetta mál Framsóknarflokksins (og svo Vg) í tvígang en ríkisstjórnin hætti ekki að reyna að koma því í gegn. Við lok síðasta þings var málið loks samþykkt. Það gerðist á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn gafst upp, eina ferðina enn, á að innleiða frumvarp sitt um útlendingamál. Mál sem var heldur til bóta þótt það hefði þegar verið þynnt út, í von um að stærsti flokkur ríkisstjórnarinnar fengi það samþykkt.

Það fór því svo að ríkisstjórnin náði að troða í gegn frumvarpi um að auglýsa Ísland sem áfangastað en frestaði samtímis (í fjórða skipti) hinu útþynnta máli um að reyna að bæta málsmeðferð.

Þannig virkar þetta en nú skýtur raunveruleikinn allt í einu upp kollinum í ímyndarheimi stjórnmálanna. Nú er ásókn í hæli á Íslandi líklega orðin hlutfallslega tífalt meiri en í Noregi og Danmörku. Það er afleiðing þeirra reglna sem hér gilda og þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér. Dómsmála- og fjármálaráðherra hafa loks viðurkennt þetta en ekki verður vart stefnubreytingar.

Eins og annars staðar á Norðurlöndum er hér litið til heildartalna án þeirra Úkraínumanna sem sérstaklega hefur verið boðið til landanna. Enda er þar um að ræða ástand sem flóttamannasáttmála Sameinuðuþjóðanna var ætlað að takast á við. Þar var gert ráð fyrir að nágrannalönd stríðssvæða tækju við straumi flóttafólks sem vonandi yrði tímabundinn.

Um leið er til að mynda straumur fólks frá Venesúela (sem býr við hreina vinstristjórn) til Íslands orðinn sá næstmesti í Evrópu. – Ekki hlutfallslega heldur í rauntölum. Aðeins á Spáni, sem deilir tungumáli með Venesúela, eru umsóknirnar fleiri. Nú kemur þó fólk í gegnum Spán til að sækja um hæli á Íslandi. Og hví ekki? Ísland býður öðrum löndum fremur upp á það sem útlendingar kalla „asylum shopping“, þ.a. að leita að vænlegasta áfangastaðnum þótt viðkomandi hafi átt rétt á hæli annars staðar.

Með breyttri heimsmynd og auknum möguleikum á samskiptum og ferðalögum hafa hælisleitendakerfi í auknum mæli þurft að takast á við straum fólks sem kaupir sér ferðir út á væntingar um betri kjör. Allir hljóta að sýna því skilning að fólk vilji leita þeirra leiða sem bjóðast til að bæta kjör sín. En þegar við stöndum frammi fyrir vaxandi straumi flóttamanna er nauðsynlegt að forgangsraða svo að fjárráð nýtist til að gera sem mest gagn. Ella verður ekki við neitt ráðið og afleiðingarnar verða slæmar fyrir alla.

Svo dæmi sé nefnt fjölgar íbúum Nígeríu um sem nemur öllum íbúum Norðurlanda á innan við fimm árum. Þar er fjölgunin þó ekki mest. Hún er hlutfallslega mest í löndum á borð við nágrannalandið í norðri, Níger. Þar er helsta miðstöð þeirra sem skipuleggja fólksflutninga í Afríku. Samt koma fáir hælisleitendur til Evrópu frá Níger. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að landið er of fátækt. Ferðum frá löndum fækkar nefnilega ekki eftir því sem lífskjör batna. Þeim fjölgar (þar til þau ná evrópskum viðmiðum).

Á Íslandi hafa stjórnvöld ekki tekið ákvarðanir út frá þessum staðreyndum eða staðreyndum yfir höfuð. Fyrir vikið er Ísland hlutfallslega orðið einn helsti áfangastaður þeirra sem skipuleggja fólksflutninga á heimsvísu. Það gerir okkur erfiðara fyrir að hjálpa þeim sem eru í mestri neyð og það mun ekki breytast. Ekki hjá þessari ríkisstjórn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. október, 2022.