Og svo kom sólin upp

                                Og svo kom sólin upp

Erfiðleikarnir sem við stöndum frammi fyrir vegna Covid-19 eru núna að taka á sig þá mynd að heilbrigðiskerfið hér á landi með samstöðu þjóðarinnar hefur náð tökum á útbreiðslu smita.  Ótrúlega góður árangur í baráttunni við þessa bráðsmitandi veiru er mikið gleðiefni.  „Þríeykið“ nýtur trausts og virðingar og hefur náð að auka bjartsýni meðal þjóðarinnar. Við skulum leyfa okkur að rétta úr bakinu og líta til sólar sem eftir tæpa tvo mánuði verður hæst á lofti þrátt fyrir allt.

Við okkur blasir alvarleg staða efnahagsmála og þá reynir á að stjórnvöld taki ákvarðanir sem minnka höggið en um leið þarf að huga að framtíðinni. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefur minnihlutinn stutt enda miða þær að því að koma til móts við fólk og fyrirtæki. Þó hafa sumar þessara aðgerða flækst fyrir mönnum, samanber hin svokölluðu brúarlán sem enn eru ekki komin í gagnið.

 Miðflokkurinn hefur talað fyrir því allan tímann að fara í almennar aðgerðir og gera heldur meira en minna vegna þeirrar staðreyndar að óvissan um hvað er nóg gerir stöðuna snúna. Miðflokkurinn telur nauðsynlegt að ráðast strax í almennar og einfaldar aðgerðir til að koma til móts við þann bráðavanda sem heimili og fyrirtæki standa frammi fyrir.

Markmið aðgerðanna er að verja lífskjör almennings og auka ráðstöfunartekjur. Lækka staðgreiðslu skatta, tekjuskatt og útsvar í 24% til loka ársins 2021 sem nær til launþega, eldri borgara og öryrkja frá 1 júní n.k. til 31. desember 2021. Lækkunin eykur ráðstöfunartekjur sem skilar sér í aukinni einkaneyslu og styður við fyrirtæki. Greiðslur vaxta og verðbóta vegna fasteignalána atvinnulausra viljum við fella niður í allt að 18 mánuði og frysta höfuðstól. Þessi aðgerð mundi ná til allra sem eru á atvinnuleysisskrá frá 1. júní til 31. desember 2021.

 

Ríkið semur við lánastofnanir sem skipta með sér til helminga vaxtakostnaði vegna aðgerðanna.  Lánstími lengist til jafns við lengd frystingarinnar.

Ferðaþjónustufyrirtækjum verður gert kleift að leggjast í dvala til að geta risið upp aftur. Innlend lán ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli verða fryst til loka árs 2021. Ríkið semur við lánastofnanir um að vaxtakostnaði verði skipt til helminga milli ríkissjóðs og banka. Greiðslur fasteignagjalda verða frystar í 24 mánuði vaxtalaust.

Sveitafélög frysta allar greiðslur fasteignagjalda af húsnæði ferðaþjónustu fyrirtækja í 24 mánuði vaxtalaust. Endurgreiðsla með 48 jöfnum afborgunum, sú fyrsta eftir 30 mánuði. Fyrirtækjum og starfsfólki verður gert kleift að halda ráðningasambandi á launagreiðslu í allt að 12 mánuði.

Tryggingagjaldið verður fellt niður til loka árs 2020 fá 1. júní.

Þetta eru  djarfar og stórar aðgerðir sem okkur finnst að þurfi að grípa til. Á fordæmalausum tímum þarf að fara í fordæmalausar aðgerðir.

Sigurður Páll Jónsson.

Þingmaður Miðflokksins