Ráðagerðir um að banna fýlunga- og súluveiðar


Fyrr á tíð tíðkaðist það á hverju heimili á stórum svæðum, sérstaklega undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum, að veiða fýlsunga til vetrarins. Þá hefur veiði á súluungum í úteyjum Vestmannaeyja lengi tíðkast. Súlu er þar að finna í að minnsta kosti þremur eyjum; í Súlnaskeri, Brandinum og í Hellisey. Víða er þessum sið enn viðhaldið, hefðanna vegna og til að veiði-, verkunarog matreiðsluaðferðir falli ekki í gleymskunnar dá.

Ráðgert bann

Nýlega mælti umhverfisráðherra fyrir frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í lögunum er að finna nokkur nýmæli, en það sem vakti athygli mína var að verði frumvarpið að lögum munu svæðisog hefðbundnar veiðar á fýls- og súluungum leggjast af.

Saga fýlunga- og súlnaveiða

Í sögu Vestmannaeyja, eftir Sigfús M. Johnsen, er saga fuglaveiða þar rakin. Segir þar að fuglatekja hafi verið meðal helstu hlunninda Vestmannaeyjajarða og stunduð alla tíð vegna arðseminnar sem lýsti sér í miklu búsílagi af kjöti og feiti af fuglinum og einnig hafi fiðrið verið góð verslunarvara. Í harðærisárum hafi fuglatekja einatt bjargað frá skorti. Fýlunga- og súlnaveiðar fóru fram að mestu samtímis. Súlnaveiði hefur verið stunduð um aldir í Vestmannaeyjum og eins langt aftur og heimildir ná.

Fýll byrjar ekki að verpa hér á landi fyrr en um miðja 18. öld. Fýllinn er íshafsfugl, sem talið er að hafi fyrst á seinni tímum fært sig suður eftir Atlantshafinu, t.d. til Vestmannaeyja og þaðan til suðurstrandar landsins og síðan lengra suður til Færeyja, en þar getur hans eigi fyrr en allmiklu síðar. Talið er að fýllinn hafi tekið heima í björgum í eyjunum á 3. eða 4. áratug 18. aldar og að líkindum fyrst á heimalandinu. Fljótlega hefur fýlatekja aukist mjög og á fyrstu áratugum 19. aldar er fýlungi talinn mesti nytjafuglinn í Eyjum.

Undir Eyjafjöllum

Í Mýrdal getur fyrst um fýl í Höfðabrekkuhálsi 1820 og um áratug síðar í Hjörleifshöfða, en þar voru fjöllin fullbyggð af fugli um 1860. Í Mýrdal var fýlatekjan fljótlega svo mikil að þangað komu á hverju sumri fjöldi manna úr nærsveitum til fýlakaupa hjá bændum. Í Drangshlíðarfjalli komu ein fýlahjón 1866, en bæði þar og í Hrútafellsfjalli varð síðar allmikil fýlatekja. Síðar sótti fýllinn lengra inn til fjalla og hans varð vart lengra austur t.d. í Suðursveit. Í Færeyjum var enginn fýll í lok 18. aldar. Þar verpti fýll fyrst, að því er talið er 1834, en 100 árum síðar var hann orðinn þar einn af mestu nytjafuglunum.

Hefðbundin villibráð

Þrátt fyrir að veiðar á fýlungum hafi ekki verið mikið stundaðar í Vestmannaeyjum á síðustu árum, þá eru þar stundaðar veiðar á súluungum í nokkrum úteyjum. Veiðar þessar hafa lengi verið í smáum stíl, en súlan þykir ómissandi kostur á villibráðarkvöldum og í ýmsum veislum, bæði í Eyjum og uppi á meginlandinu. Nú eru horfur að þessar veiðar verði bannaðar. Súlunni hefur fjölgað mikið kringum Eyjar á síðustu árum, kannski vegna aukningar á hentugu æti í hafinu, en nú er svo komið, að sögn úteyjamanna, að súlubyggðir hafa stækkað ört í þeim eyjum þar sem er súlubyggð. Svæði annarra fugla dregst saman að sama skapi. Menningarhefðir vegna þessara veiða eru vitaskuld einnig í hættu.

Heyra veiðarnar sögunni til?

Það hefur tíðkast á svæðum undir Eyjafjöllum alla tíð að veiða fýlunga. Enda þótt þessi siður, sem var algengur á þessum slóðum og reyndar víðar, sé nú stundaður í miklu minna mæli en áður, heldur fólk í gamlar hefðir við veiðar og matseld. Það væri mikil eftirsjá í að leggja fortakslaust bann við þessum sið. Veiðar í svo smáum stíl ættum við að halda í og leyfa. Flugfýllinn lendir oft í sjálfheldu og á þá fyrir höndum hungurdauða eða verða æti fyrir varg.

Víðtækt reglugerðarvald ráðherra

Í frumvarpinu er að finna víðtækar heimildir til handa ráðherra til friðunar með setningu reglugerða, svo sem um friðun fuglabjarga. Þá er að finna í frumvarpinu ákvæði um veiðivörslu Umhverfisstofnunar, sem tekur yfir allt landið. Veiðivarslan mun fylgja ákveðinni eftirlitsáætlun sem verði undanþegin upplýsingalögum. Á Alþingi hef ég varað við sífellt auknu framsali löggjafans á valdi til ráðherra og auknum heimildum stofnana til eins konar lögreglu- og sektarvalds og hér er skýrt dæmi um slíkt. Umsagnarferli Ég mun beita mér fyrir breytingu á þessu frumvarpi í þá átt sem hér hefur verið lýst. Nú er frumvarpið í umsagnarferli og öllum frjálst að senda inn athugasemdir.

 

Höfundur: Karl Gauti Hjaltason,  þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 25. febrúar og í Eyjafréttum þann 27. febrúar, 2021