Ræða formanns Miðflokksins á flokksráðsfundi 9. nóvember, 2019

Fundarstjórar, kæru félagar.

Við komum nú saman til fundar á sögulegum degi.

Í dag eru 30 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins. -Frá atburði sem markaði tímamót í heimssögunni en var engu að síður óvæntur.

Árið 1989 virtist múrinn hafa staðið óra lengi og ætla að standa um langa framtíð. Þó stóð hann aðeins í 28 ár.

Þrátt fyrir að austrið hafi svo sameinast einu ríkast landi heims má þó enn sjá mikinn mun á Þýskalandi austan og vestan við hinn horfna múr nú 30 árum seinna.

Slík eru áhrif stjórnarfars á ríki og samfélög.

Það má læra margt af sögunni þótt það gangi oft furðu illa.

Ég ætla hins vegar að byrja nær okkur í tíma.

 

Við hittumst nú á miðju kjörtímabili. Það er styttra í kosningar, hvenær sem þær verða haldnar, en tíminn sem hefur liðið frá síðustu kosningum ...og hann hefur liðið hratt.

Það er alltaf skemmtilegra að tala um áherslur og lausnir eigin flokks en að ræða hvað aðrir eru að gera vitlaust.

Samhengisins vegna kemst ég þó ekki hjá því að segja nokkur orð um ríkisstjórnina og það stjórnarfar sem við búum við. -Stjórnarfarið sem tekist verður á um í næstu kosningum.

Ætli sé ekki best að ljúka því bara af strax í upphafi ræðunnar.

Um leið og ríkisstjórnin var mynduð lá fyrir að hún yrði kerfisstjórn.

Í rauninni skilgreindi hún sig þannig. Þetta átti að verða stjórn sem myndi ekki snúast um ólíkar pólitískar áherslur heldur samstöðu.

-Samstöðu um að skipta á milli sín ráðherrastólum en fela svo kerfinu að stjórna.

Þótt báðir stjórnarflokkarnir hafi í upphafi lýst svipaðri sýn á samstarfið þá hefur útfærslan verið um margt ólík.

 

Sjálfstæðisflokkurinn gaf eftir einn ráðherrastól og lét sér nægja fimm. En hvað hafa þeir gert úr þessum fimm ráðherrastólum?

Hvað í stefnu ríkisstjórnarinnar, ég tala nú ekki um í aðgerðum hennar, gefur til kynna að þetta sé ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur?

Hvað eftir annað láta þeir sig hafa það að styðja mál sem ganga ekki aðeins gegn stefnu flokksins heldur grundvallarhugsjónum, séu þær enn til staðar.

Þeir kyngja ælunni eins og einn þingmaður flokksins orðaði það.

 

Þó er ekki víst að þeir þurfi allir að sætta sig við slíkt mataræði því stór hluti flokksins virðist gleypa það sem sjálfstæðismenn hefðu áður talið óætt af bestu lyst.

Það er nokkuð um liðið síðan ég fór að velta fyrir mér hvaða munur væri á stefnu og orðræðu Sjálfstæðisflokksins nú og áherslum Samfylkingarinnar ca 2007.

Ég hef ekki enn fundið þennan mun en ég held áfram að leita.

 

Vinstri græn nálgast samstarfið á annan hátt.

Ráðherrar þeirra virðast hafa frítt spil til að innleiða eigin áhugamál. Hvort sem það er innleiðing á marxísku heilbrigðiskerfi eða tilraunir til að koma í veg fyrir framkvæmdir á Íslandi og auðvitað alveg sérstaklega á Vestfjörðum þar sem enginn má gera neitt.

Það vill Vinstri grænum til happs að kerfið hefur að verulegu leyti verið lagað að þeirra sýn og því teljast þetta ekkert endilega pólitískar aðgerðir.

Forsætisráðherrann fær hinn stjórnarflokkinn líka til að samþykkja sín sérstöku áhugamál, t.d. með lögum um fóstureyðingar sem myndu teljast róttæk í Hollandi (og eiginlega alls staðar annars staðar) þótt löggjöfin hafi ekki gengið eins langt og forsætisráðherrann hefði viljað.

Vinstri græn fá meira að segja að endurskipuleggja ráðherralið Sjálfstæðisflokksins.

Við sitjum því uppi með kerfisstjórn þar sem það sem helst sætir tíðindum er innleiðing róttækustu stefnumála Vg.

 

...Já, Framsókn.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki bara gleymt helstu stefnumálum sínum heldur snúist gegn þeim.

Það verður ekki betur séð en að sá flokkur hafi þróast nákvæmlega eins og ég sagðist óttast að stefndi í á haustmánuðum 2017.

Þar sem viðskiptamódel flokksins yrði það að ráðast í mikla og dýra kosningaherferð fyrir hverjar kosningar með það að markmiði að ná inn nógu mörgum mönnum til að komast í ríkisstjórn með hverjum sem er um hvað sem er.

...Fá tvo, þrjá, ráðherrastóla og geta útdeilt embættum til réttra aðila.

Eða hvaða stefnumál hefur Framsóknarflokkurinn staðið við?

-Nýjan Landspítala á nýjum stað?

-Engin veggjöld?

-Varðstaða um Reykjavíkurflugvöll?

-Fjármálakerfið, Arion banki, vogunarsjóðirnir?

-Orkumálin?

-Svissneska leiðin, austuríska leiðin, skoska leiðin, belgíska leiðin? Ég man ekki hvað þeir hafa boðað margar leiðir en þeir finna alla vega ekki íslensku leiðina.

 

Hvað um það. Látum þetta nægja af umræðu um kerfisstjórnina enda er hún fyrst og fremst birtingarmynd stærri þróunar.

Þróunar sem felst í því að stjórnmálamenn, hér á landi og erlendis, eru að afsala sér sífellt meiri völdum til kerfisins.

Þeir eru að gefa frá sér vald sem þeir eiga ekki.

Gefa vald sem tilheyrir kjósendum. Valdið til að hafa áhrif á það hvernig samfélaginu er stjórnað.

Þ.e. forsendur sjálfs lýðræðisins.

 

Í upphafi ræðunnar hafði ég orð á því að þessi flokksráðsfundur færi fram á merkilegum degi, ætli megi ekki kalla þetta frelsisdaginn.

Ég er sérstakur áhugamaður um tilraunir til að greina hvað reynist vel í stjórnarfari og hvað illa.

Fyrir vikið er ég mikill áhugamaður um sögu Austur-Þýskalands og austurblokkarinnar almennt.

Á þessum merkisdegi er við hæfi að víkja aðeins að þeirri sögu.

 

Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því að Austur-Þýskaland var ekki eins flokks ríki.

Sósíalíski samstöðuflokkurinn réði mestu en fjórir aðrir flokkar buðu fram. Allir hétu nöfnum sem vísuðu í lýðræði. Þeir gáfu meira að segja út eigin flokksblöð, tóku þátt í alþjóðasamstarfi og gengdu ýmsum ábyrgðarstöðum.

Kristilegir demókratar, CDU, voru ætlaðir sama hópi og kaus samnefndan flokk í Vestur-Þýskalandi.

Svo varð það Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (til styttingar getum kallað hann Viðreisn).

Næst, Lýðræðislegi bændaflokkurinn.

Og svo var meira að segja sérstaklur flokkur ætlaður þeim sem gætu viljað styðja það sem nú er kallað hægri öfgaflokk.

Sá flokkur naut reyndar sérstakst stuðnings frá kommúnistunum í Sóvíetríkjunum en rann seinna inn í frjálslynda flokkinn frá Vestur-Þýskalandi.

...Hugmyndin var að það væri eitthvað í boði fyrir alla.

En það var sama hvað menn kusu. Niðurstaðan varð alltaf sú sama. Þingmennirnir kusu allir eins.

Kerfið réði og kerfinu stjórnaði Sósíalíski samstöðuflokkurinn (eða öfugt eftir því hvernig á það er litið).

Fyrirkomulagið var rökstutt með því að þannig væri til staðar stjórn með breiða skýrskotun.

-Samstöðustjórn sem kæmi í veg fyrir pólitískan ágreining.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn var þó líklega ekki ánægður með að fólk mætti ekki reka fyrirtæki í eigin nafni.

Bændaflokkurinn var örugglega ekki sáttur við sveltistefnu gagnvart landbúnaði.

Kristilegir demókratar voru áreiðanlega ósáttir við lög um frjálsar fóstureyðingar.

En þannig vildi Samstöðuflokkurinn hafa það og þá var það þannig.

Það var þó alla vega samstaða.

(Samstöðustjórn með breiða skýrskotun)

 

Ég vona að mönnum detti ekki í hug að ég sé að líkja Íslandi við Austur-Þýskaland.

Hér ríkir ekki ógnarstjórn og hér er ekki beitt persónunjósnum í pólitískum tilgangi.

 

En það getur reynst gagnlegt að líta til sögunnar þótt aðstæður séu aðrar.

Vandinn sem við stöndum nú frammi fyrir hér á landi og víðar er að lýðræðið er hætt að virka sem skildi.

Kerfið ræður.

 

Og nú er eins gott að taka það skýrt fram að ég er ekki að setja út á embættismenn almennt.

Aldeilis ekki!

 Þeir gegna ómetanlegu hlutverki í lýðræðisríkjum.

En hlutverk kerfisins á að vera að þjónusta almenning, ráðleggja stjórnmálamönnum og framfylgja lýðræðislegum ákvörðunum.

Ekki að stjórna. Ekki að hafa vald án lýðræðislegrar ábyrgðar.

 

Við í Miðflokknum höfum kynnt að eitt af megináhersluefnum okkar næstu misseri verði að takast á við báknið og minnka það en gera kerfið um leið betur í stakk búið til að þjónusta almenning.

Þetta byggir meðal annars á vinnu sem hófst 2013 og skilaði sér strax 2014 í áætlun forsætisráðuneytisins um hvernig mætti minnka báknið og sérstakri handbók um einföldun regluverks.

En það má ekki bregða sér af bæ.

Síðustu ár hefur öfugþróunin haldið áfram með þeirri ánægjulegu undantekningu að óvirkar reglugerðir hafa verið fjarlægðar.

En verkefnið verður fyrst erfitt þegar farið er að takast á við gildandi kerfi. Erfitt, en alls ekki ómögulegt.

Það að okkur takist að vel upp er alveg sérstaklega mikilvægt fyrir tekjulægri hópa samfélagsins.

Ástæðurnar eru einkum þrjár.

Í fyrsta lagi þarf almenningur að standa undir bákninu með háum sköttum bæði beint og í gegnum ýmsar skerðingar eins og er orðið svo áberandi hjá t.d. eldri borgurum og öryrkjum.

Fjármagn sem fer í að viðhalda bákninu dregur úr möguleikum stjórnvalda á að fjármagna aðra mikilvæga þjónustu.

Í öðru lagi eiga tekjulægri einstaklingar og minni fyrirtæki erfiðara með að verjast kerfinu.

Einstaklingur eða lítið fyrirtæki sem reynir sitt besta til að uppfylla allar kröfur kerfisins hefur mun síður efni á að verjast, t.d. að ráða sér lögmann, þegar upp kemur ágreiningur.

Í þriðja lagi kemur íþyngjandi regluverk í veg fyrir að fólk geti unnið sig upp eða bætt afkomu sína.

Eldriborgarinn sem áttar sig á því að ef hann vinnur sér inn tekjur, er allt meira og minna dregið af honum annars staðar, hefur ekki sterkan hvata til að vinna og skapa verðmæti.

Sá sem myndi vilja stofna lítið fyrirtæki á óhægt um vik ef hann þarf að byrja á því að ráða mann í vinnu bara til að fást við kerfið.

Það eru því hagsmunir þjóðarinnar allrar að árangur náist í þessu verkefni.

 

Í fyrradag byrjuðum við að auglýsa eftir reynslusögum fólks af viðureign sinni við kerfið.

Það gerum við í framhaldi af því að við þingmenn flokksins höfum á síðustu misserum fengið að heyra ótal slíkar sögur.

Markmiðið er að safna upplýsingum og kortleggja vandann svo við séum betur í stakk búin til að takast á við hann.

Á fyrsta sólarhringnum bárust okkur tugir reynslusagna. Við munum skoða þær og aðrar sem bætast við og afraksturinn mun svo birtast í formi lausna.

 

EN við munum líka kynna lausnir á öðrum sviðum.

Skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi þegar tekið er tillit til lífeyrisgreiðslna (eins og eðlilegt er að gera).

Við munum beita okkur fyrir hvetjandi skattalækkunum og bættu lífeyriskerfi.

Samhliða því að takast á við báknið munum við beita okkur fyrir kerfisbreytingum á ólíkum sviðum svo að fjármagnið nýtist betur. - Það á ekki hvað síst við um heilbrigðismálin.

Það væri hægt að auka framlög til heilbrigðismála endalaust án þess að skapa gott heilbrigðiskerfi ef ekki er hugað að því hvernig fjármagn skattgreiðenda er nýtt.

 

Við munum flytja tillögur til úrbóta í húsnæðis- og skipulagsmálum.

Löggæslu þarf að efla svo hún geti tekist á við viðfangsefni í breyttu samfélagi.

Við munum standa með undirstöðu- atvinnugreinum þjóðarinnar.

Íslenskur sjávarútvegur hefur náð undraverðum árangri í samkeppni á gríðarlega erfiðum markaði. Stjórnkerfið þarf að vinna með greininni í stað þess að veikja samkeppnisstöðu hennar.

Á síðustu misserum hefur verið sótt að íslenskum landbúnaði úr að minnsta kosti þremur áttum.

Greinin hefur þá sérstöðu að bændur eru eina stéttin sem stjórnvöld stefna beinlýnis að því að fái lækkandi tekjur á næstu árum. Hvergi annars staðar gera stjórnvöld ráð fyrir að greiða jafnt og þétt minna fyrir keypta þjónustu.

Í öðru lagi hefur nýlegur tollasamningur reynst afar skaðlegur fyrir greinina.

Loks hefur verið ákveðið að heimila innflutning á hráum, ófrystum og ógerilsneiddum matvælum í samkeppni við íslenska bændur sem á sama tíma þurfa að uppfylla strangari kröfur kerfisins en nánast alls staðar annars staðar í heiminum.

Svo bætist það við að hópar fólks, jafnvel heill flokkur í ríkisstjórn, eru farnir að beita sér gegn neyslu matvælanna sem íslenskir bændur framleiða.

Þegar Vinstri hreyfingin grænt framboð ákvað að banna pappír og kjöt á fundi sínum hafði ég dálitlar áhyggjur af finnskum skógarbændum en þó mun meiri áhyggjur af bændunum sem hafa haldið uppi byggð á Íslandi frá landnámi.

Landbúnaður er aldeilis ekki hluti af bákninu.

Hann skilar þjóðarbúinu gríðarlegum gjaldeyrissparnaði, skilar okkur auknum lífsgæðum og er undirstaða fjölbreyttrar starfsemi um allt land.

Menn afsaka stundum vöxt báknsins með því að vísa í að landsframleiðsla hafi vaxið líka.

Lítum á landbúnað í samhengi við landsframleiðslu.

Við myntbreytinguna 1981 námu framlög til landbúnaðar um 3,2% af landsframleiðslu. Nú er þetta hlutfall 0,6% og fer lækkandi. Sem sagt hlutfallslega innan við fimmtungur af því sem það var.

Bændur hafa haldið í okkur lífinu í nærri 1150 ár. Þeir eiga það skilið að við stöndum með þeim.

 

Nýja stóra útflutningsgreinin, ferðaþjónustan þarf aukinn skilning stjórnvalda á því hvernig er að starfa í einni mestu samkeppnisgrein veraldar.

Nýsköpun í greininni hefur verið mikil en kerfisræðið og óvissan sem greinin má þola gerir henni erfitt fyrir.

Lækkun tryggingagjalds og fasteignagjalda myndi sannarlega nýtast þessari mikilvægu atvinnugrein eins og öðrum. Það myndi auka verðmætasköpun, fjölga störfum og efla byggð.

 

Þrátt fyrir allt tal um mikilvægi iðnnáms og fjórðu iðnbyltinguna hafa iðnaður og önnur nýsköpun mátt sæta skerðingum eftir aukningu framlaga fyrir nokkrum árum.

 

Eitt af því mikilvægasta við markmiðið um að minnka báknið er að meira svigrúm skapist til að ráðast í fjárfestingar sem skila samfélaginu margfaldri verðmætasköpun til framtíðar.

Og talandi um að minnka báknið til að geta fjárfest...

Hvað getur verið skynsamlegra en að fjárfesta í því að verja og efla byggð og verðmætasköpun á landinu öllu.

Til þess þarf þó heildstæða og stórtæka áætlun í stað tilviljanakenndra neyðarúrræða sem koma þegar það er orðið of seint.

Við höfum kynnt stórtæka og heildstæða uppskrift að árangri undir nafninu „Ísland allt“. Henni munum við fylgja vel eftir fram að kosningum og ekki síður eftir kosningar.

 

Margt fleira mætti nefna.

Til dæmis umhverfismálin. Þar er nú aldeilis þörf á skynsemishyggju og leit að lausnum fremur en vandamálum.

Ég varði ræðu minni á síðasta landsþingi nánast eingöngu í umhverfismálin svo að ég ætla ekki að hafa mörg orð um þau í þetta skipti.

En eins og þið hafið vonandi séð munum við halda áfram að kynna raunhæfar lausnir á því sviði eins og öðrum.

Aðgerðir í umhverfismálum mega ekki vera til þess fallnar að færa okkur aftur í tímann og eyðileggja þann árangur sem hefur náðst til jöfnuðar með því að gera það svo dýrt að ferðast að aðeins þeir efnameiri geti rekið bíl eða ferðast til útlanda.

 

Öll þessi verkefni eiga það sammerkt að breytingar geta verið erfiðar og kerfið vinnur ekki alltaf með manni.

En ég hef séð að það er hægt ná fram raunverulegum breytingum ef viljinn er fyrir hendi og menn staðráðnir í að láta ekkert stoppa sig.

Og ég hef séð að flokkurinn okkar hefur það sem þarf!

Annars vegar getuna til að búa til lausnir en líka hitt, sem er ekki síður mikilvægt, getuna til að þola ágjöf og andstöðu.

Það er sama hvað menn hafa góðar hugmyndir. Stjórnmálamenn og flokkar ná aldrei árangri ef þeir eru ekki færir um að takast á við mótlætið sem þeir munu alltaf mæta ef verið er að gera hluti sem skipta máli.

 

Ég ætla rétt að nefna eitt mál sem ég hafði ekki hugsað mér að tala um.

En þegar ég var að fara í háttinn opnaði ég Youtube með það að markmiði að horfa á einhverja grínmynd eða heimildamynd eins og ,,Já ráðherra”.

En áður en að því kom birtist löng auglýsing frá forsætisráðherra um stjórnarskrána.

Eftir að ráðherrann og skoðanabróðir hennar höfðu farið yfir að þau væru að vinna að stjórnarskrárbreytingum sem ekki væri hægt að hafna lenti ég á annarri auglýsingu frá sama fólki þar sem spurt var hvort ég vildi að þjóðin ætti rétta á að njóta heilnæmrar náttúru.

Ég vil það náttúrulega svo ég smellti á tengil sem birtist á skjánum.

Þá kom í ljós að til að eiga rétt á heilnæmri náttúru þyrfti að breyta stjórnarskránni.

Það sem meira var, fólki gefst kostur á að skrifa sína eigin stjórnarskrá.

Það er gert með því að taka þátt í einhvers konar leik þar sem hæfi manns til stjórnarskrárskrifa er metið.

Maður vinnur sér inn stig sem hægt er að nota til að semja stjórnarskrá.

Eftir að hafa tekið þátt í leiknum fór ég að velta fyrir mér hvaða álit stjórnvöld hefðu á almenningi.

Þarna birtist til dæmis eftirfarandi spurning:

 

Hvað þarf til að forseti verði leystur frá sörfum áður en kjörtíma hans lýkur samkvæmt íslensku stjórnarskránni?

a. ¾ hluta atkvæða þingmanna sem er staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu.

b. Nektarmyndir

c. Kulnun í starfi

d. Þriggja daga málþóf á Alþingi.

 

Það var líka boðið upp á orðskýringar svo fólk hefði betri hugmynd um hvað það væri að gera.

Orðið ,,sjálfstæði”, í samhengi við stjórnarskrá, er útskýrt svona:

,,Hér miðast stigagjöf við hversu mjög menning landsins krefst þess að algjöru sjálfstæði sé haldið gagnvart öðrum ríkjum. Hátt sjálfstæði bendir til að borgararnir viðurkenni helst enga samstöðu með öðrum þjóðum eða hnattrænan hugsunarhátt. Lágt sjálfstæði bendir til að áhugi sé fyrir að ganga í margvísleg bandalög með vinveittum ríkjum um allan heim.”

Ég átti náttúrulega erfitt með að sofna eftir þetta en ætla ekki að skemma fundinn með því að fara nánar út í þetta að sinni.

Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því hvað stjórnvöld eru að bauka í þessari stjórnarskrárvinnu og mun fjalla nánar um það síðar.

 

En talandi um stjórnarskrár og daginn í dag.

Austur-þýska stjórnarskráin var mjög frjálslynd og tryggði meðal annars borgurunum heilnæma náttúru.

Austur-Þýskaland var svo lýðræðislegt að það var tvítekið í nafni landsins. Þýska-alþýðu-lýð-veldið.

Það mætti eins þýða sem Þýska alþýðu alþýðuveldið.

Eins og menn þekkja var raunin hins vegar önnur.

Það er vegna þess að í Austur-Þýskalandi og mörgum öðrum ríkjum voru rekin ímyndarstjórnmál þar sem heiti hlutanna og yfirlýst markmið skiptu meira máli en raunveruleikinn.

Afleiðingin var samfélög sem gengu ekki upp.

 

En hvernig má það þá vera að fall múrsins og austurblokkarinnar hafi komið svona á óvart.

Vesturlönd eyddu gríðarlegu fjármagni í leyniþjónustur þar sem tugir þúsunda störfuðu við að fylgjast með þróuninni í kommúnistaríkjunum.

CIA vissi allt um ráðamenn austan tjalds. Hvenær þeir fóru í háttinn og vöknuðu, hvað þeir borðuðu, hvað þeir lásu og skrifuðu og nöfn bæði ættingja og gæludýra

Hvernig mátti það vera að menn sæju ekki fyrir að kerfið væri við það að falla?

 

Ástæðan er ekki hvað síst sú að leyniþjónusturnar voru sjálfar orðnar að kerfum þar sem æðsta markmiðið var að viðhalda sjálfu sér.

Því meiri ógn sem stafaði af austurblokkinni þeim mun meira tilefni var til að auka fjárveitingar til hersins og leyniþjónustunnar.

Þess vegna var oft litið fram hjá því sem benti til þess að kommúnisminn stæði höllum fæti en annað magnað upp.

Það er stundum sagt að það versta sem baráttusamtök geti lent í sé að ná markmiðum sínum.

Því stærra sem vandamálið er þeim mun mikilvægari eru samtökin. Þannig fer starfsemin að snúast um vandamálið en ekki lausnina.

Við nálgumst hins vegar hlutina öðruvísi!

Við erum ekki í vandamálabransanum. Við erum í lausnabransanum.

Við leitum bestu lausnanna, framkvæmum og snúum okkur svo að öðrum viðfangsefnum. Þannig nást framfarir.

En forsenda framfara er skynsemishyggja og skynsamlegt stjórnarfar.

 

Þar sem ég er lýðræðissinni tel ég að slíkt náist best með því að fólk fái sjálft að ráða örlögum sínum.

En ekki með kerfi sem vill hafa vit fyrir fólki um leið og það vinnur að því að viðhalda sjálfu sér og stækka.

Við verðum að treysta fólki til að taka ákvarðanir um eigið líf.

Og þá verður að skipta máli hvaða flokk fólk kýs.

Við viljum ekki kerfi þar sem ný ríkisstjórn tekur við og byrjar á því að leggja fram stefnumál forvera sinna.

 

Að lokum skulum við ímynda okkur hvaða árangri hefði verið hægt að ná, hvernig samfélagið gæti litið út, ef skynsemin og vilji almennings hefði ráðið för við stjórn landsins.

Þetta er eins og ég sá fyrir mér að það yrði þegar við værum búin að leysa efnhagsvandann og byrjuð að byggja upp.

 

Núna væri verið að reisa nýtt glæsilegt þjóðarsjúkrahús á nýjum og betri stað. Um leið hefði verið létt á Landspítalanum og  heilbrigðisþjónusta efld um allt land.

Búið væri að greiða úr mestu umferðarteppum höfuðborgarsvæðisins og Sundabraut langt komin.

Í miðbæ Reykjavíkur og öðrum gömlum bæjum væri búið að gera upp það gamla og bæta við nýjum fallegum húsum.

Þar þrifist öflug verslun og þjónusta en stórbyggingar úr grárri steypu, stáli og gleri hefðu verið reistar annars staðar.

Stórir nýjir árgangar iðnaðar- og tæknifólks væru að útskrifast og byrjaðir að framleiða ný verðmæti og hrinda stórkostlegum hugmyndum í framkvæmd.

Fjölmörg ný fyrirtæki væru að hefja rekstur og þau sem fyrir eru væru að ráða nýtt fólk.

Stjórnvöld myndu ryðja þeim braut í stað þess að skapa hindranir.

Starfsmenn fengju góð kjör án þess að ríkið tæki meirihluta teknanna.

Eldriborgarar gætu valið um að vinna lengur eða setjast í helgan stein og njóta sparnaðar og lífeyristekna án þess að skerðingar eyðilegðu drauma þeirra um efri árin.

Framtakssamt fólk á landsbyggðinni fengi að ráðast í ný verkefni í þeirri vissu að fjárfest yrði í grunnþjónustu, samgöngum, raforku, heilbrigðis- og menntamálum í þeirra landshluta.

Og nú í desember fengju meira að segja börn í Reykjavík að halda litlu jólin.

 

Við værum eitt samfélag, öflugra en nokkru sinni fyrr og betur í stakk búið að nýta hugkvæmni fólksins og gæði landsins öllum til heilla.

Allt þetta og miklu meira er framkvæmanlegt.

Það eina sem þarf er skynsamlegt stjórnarfar og réttar ákvarðanir.

-Að finna lausnirnar og framkvæma þær.

 

Hvort tveggja getur Miðflokkurinn.

Fögnum frelsisdeginum og eigum góðan flokksráðsfund.