Rangstæður innviðaráðherra

Innviðaráðherra kynnti nýja samgönguáætlun á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag, þegar átta þingfundardagar lifa af þingvetrinum.

Meginskilaboð ráðherra eru þríþætt; það skuli fara í margfalda sértæka gjaldtöku af umferð, að hér um bil öll jarðgöng sem mönnum hefur komið til hugar að nefna verði grafin og að ný flugstöð verði byggð í Reykjavík.

Nú hefur ríkisstjórnin, þó aðallega fjármálaráðherra og téður innviðaráðherra, talað um það í á sjötta ár að heildarendurskoðun á gjaldtöku fyrir umferð sé í undirbúningi. Flestum hefði eflaust þótt skynsamlegt að þau áform lægju fyrir áður en innviðaráðherra kæmi fram með áform um þrefalda sértæka gjaldtöku ofan á þá almennu.

Þetta eru; sérstök tafagjöld á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna borgarlínu og fleiri verkefni samgöngusáttmálans, sérstök gjaldtaka vegna sex samvinnuverkefna og svo gjaldtaka í öllum jarðgöngum landsins, gömlum og nýjum.

Enn hefur enginn náð að útskýra fyrir innviðaráðherra að hann gæti lent í áhugaverðum rökræðum við sjálfan sig varðandi það kjarnaatriði sem eitt sinn skipti hann máli, það er að ekki yrðu lögð á gjöld þar sem vegfarendur ættu ekki val um aðra leið.

Hvernig það til dæmis rímar við hans eigin orð að taka gjald í Bolungarvíkurgöngum er erfitt að sjá – þar er engin önnur leið svo vel sé en hann ætlar kannski að setja sérstaka fjárveitingu í Óshlíðina. Eða ætlar hann bara að loka augunum og hunsa sín fyrri orð – það væri svo sem ekki í fyrsta sinn.

Í viðtali við mbl.is sagði innviðaráðherra, þar sem sagt var frá að tíu jarðgöng yrðu í samgönguáætlun og fern önnur til sérstakrar skoðunar. „Sem sagt fjórtán jarðgöng sem við sjáum fyrir okkur að við getum framkvæmt til næstu þrjátíu ára“ og bætti svo við að þetta væru „nánast“ öll þau jarðgöng sem hefðu verið til umfjöllunar síðustu árin.

Er það staða Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum sem orsakar svona loftfimleika formannsins? Af hverju að draga fólk svona á asnaeyrunum? Eða er það ótrúlegur afleikur ráðherrans, með borgarstjóra og oddvita sínum í Reykjavík vegna flugvallarins og byggðar í „Nýja-Skerjafirði“, sem veldur því að formaðurinn telur rétt að ana í vegferð sem þessa eða eru það innanflokksværingar um hver fær að vera næsti formaður þessa flokks flugvallaróvina?

Staða Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni og skyndilegar vangaveltur ráðherra um nýja flugstöð, sem hefði átt að koma fyrir áratugum, kallar svo á sérstakan pistil.

Væntingastjórnun hefur aldrei verði hin sterka hlið þessarar ríkisstjórnar, en það jaðrar við ósvífni að segjast ætla að gera allt fyrir alla og að allir séu fremst í röðinni, en ætla í raun ráðherrum næstu ríkisstjórna á eftir að útskýra fyrir landsmönnum að þetta hafi allt verið „í plati“.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 30. maí, 2023.