Raunveruleg og útfærð stórsókn í vegamálum – strax

Þótt borðaklippingar vegna vegaframkvæmda á vegum Vegagerðarinnar séu tíðar þessi dægrin, sérstaklega í Suðurkjördæmi, þar sem ráðherra kjördæmisins klippir borða af mikilli áfergju undir kastljósi myndavélanna, verður að stoppa við og hugsa af hverju framkvæmdirnar hafi tafist jafn lengi og raun ber vitni.

Auðvitað ber að fagna öllum samgönguúrbótum hvar á landi sem er en þegar kosningar nálgast þurfa kjósendur að rýna málin betur og athuga hver sé best til þess fallinn að keyra í gegn raunverulega stórsókn í vegamálum.

Það er Miðflokkurinn.

Við ætlum að færa vegakerfið til nútímans og það strax. Við gerum það með því að nýta það vaxtaumhverfi sem ríkissjóður býr nú við til fjármögnunar innviðaframkvæmda. Við ætlum að fara í 150 milljarða króna skuldsettan framkvæmdapakka í vegamálum.

Með því að flýta nýframkvæmdum í vegamálum með svo afgerandi hætti næst fram mikill sparnaður því slysum á vegunum fækkar, tjón ökutækja dregst saman og umferðin flæðir betur ásamt því að bætt vegakerfi hefur jákvæð áhrif á þróun loftslagsmála.

Fjármögnun yrði í gegnum samgönguáætlun sem samþykkt er á Alþingi – rétt eins og gert hefur verið í tilviki samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Stjórnvöld þurfa þá að útfæra endurgreiðslu með sem haganlegustum hætti, hvort sem um væri að ræða skuggagjöld sem miða út frá sparnaði annars staðar í opinbera kerfinu, beinum framlögum af samgönguáætlun eða með sérstakri fjármögnun með umbreytingu ríkiseigna í verðmæta eign í vegakerfinu.

Við ætlum að ráðast í stórátak á malarvegum landsins og færa ástand helstu ferðamannavega til nútímans. Stofnvegir og tengingar við þéttbýliskjarna skulu vera með bundu slitlagi. Þá þarf einnig að huga sérstaklega að því að fækka verulega einbreiðum brúm á landinu til að draga þannig úr alvarlegum slysum. Við áætlum að búa til þrjá kílómetra af göngum á ári í samræmi við nýja jarðgangaáætlun en til framtíðar mun það stækka atvinnusvæði og auka öryggi íbúa landsins, því þannig komumst við niður af heiðunum.

Markmið okkar er líka frjálst flæði umferðar á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Öflugar tengingar höfuðborgarinnar við þau svæði sem í dag mynda heildstætt atvinnusvæði, alla leið frá Borgarbyggð yfir til Árborgar og allt þar á milli, eru gríðarlega mikilvægar. Við ætlum líka að ráðast í framkvæmd Sundabrautar strax. Eina sem stendur í vegi þess að Sundabraut verði lögð hið snarasta eru tafaleikir sem borgastjórinn í Reykjavík platar sitjandi samgönguráðherra til að samþykkja. Það þarf að vinda ofan af þeirri vitleysu og ráðast strax í eina arðsömustu vegaframkvæmd landsins.

Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.

Veljum raunverulega og útfærða stórsókn í samgöngumálum – strax.

 

Bergþór Ólason er þingmaður og oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi og formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

bergthorola@althingi.is 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 9. september, 2021