Rétta ber hlut þeirra sem minnst hafa

Við þær erfiðu aðstæður sem við er að fást um þess­ar mund­ir má ekki láta hjá líða að rétta hlut þeirra sem minnst hafa. Þetta á ekki síst við um ör­yrkja og hluta af eldri borg­ur­um, sem sæta óhóf­leg­um skerðing­um á greiðslum úr al­manna­trygg­ing­um. Hug­vits­sam­lega smíðað kerfi hegg­ur að þessu fólki reyni það að bæta hag sinn með auk­inni vinnu. Líf­eyris­tekj­ur og vaxta­tekj­ur fram­kalla sam­svar­andi skerðing­ar á greiðslum úr Trygg­inga­stofn­un. Vaka þarf vel yfir hag útigangs­fólks, fólks í glímu við fíkni­vanda og annarra viðkvæmra hópa og grípa til raun­hæfra aðgerða í mál­efn­um þeirra.
 

Lífs­kjara­samn­ing­arn­ir

Lífs­kjara­samn­ing­arn­ir ná ekki til eldri borg­ara og ör­yrkja. Eng­ar hækk­an­ir eða viðbót­ar­bæt­ur eru boðaðar á greiðslum al­manna­trygg­inga á þessu ári um­fram 3,5% hækk­un frá 1. janú­ar 2020. Því síður er minnst á þessa hópa í björg­un­araðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem virðist hafa gleymt þessu fólki.

Óhóf­leg­ar skerðing­ar á greiðslum

Með al­manna­trygg­ing­um er leit­ast við að strengja ör­ygg­is­net und­ir þá sem höll­um fæti standa. All­ar aðgerðir til að rétta hlut bág­staddra þurfa að vera mark­viss­ar svo þær gagn­ist sem best. Skilj­an­leg er nauðsyn á að tak­marka eða skerða greiðslur til þeirra sem ekki verða tald­ir þurfa slíkra úrræða með. Reynsl­an sýn­ir hins veg­ar að skerðing­ar á bót­um al­manna­trygg­inga hafa gengið úr hófi fram.

Dæm­in eru skýr. Skerðing­ar bóta al­manna­trygg­inga vegna at­vinnu­tekna hefjast við 100 þúsund krón­ur á mánuði. Sam­an­lögð skerðing og skatt­lagn­ing tekna á tekju­bil­inu 25 þús. til 570 þús. króna get­ur numið yfir 80%. Með þessu er fólki gert nán­ast ókleift að bæta hag sinn með auk­inni vinnu í krafti sjálfs­bjarg­ar­viðleitni sem hverj­um manni er eðlis­læg. Hirt er af fólki svo tekj­urn­ar sem eft­ir standa hrökkva fyr­ir ferðakostnaði að og frá vinnustað en kannski ekki mikið um­fram það.

All­ir skert­ir sem til næst

Fé­lags­málaráðherra hef­ur ný­lega svarað skrif­legri fyr­ir­spurn frá höf­undi um skerðing­ar sem eldra fólki og ör­yrkj­um er gert að þola á greiðslum al­manna­trygg­inga. Svar ráðherra sem aðgengi­legt er á vef Alþing­is ber með sér að nán­ast all­ir sem til næst eru skert­ir. Til dæm­is mega 93% aldraðra þola skerðingu vegna greiðslna úr líf­eyr­is­sjóðum. Hafa for­svars­menn sjóðanna lýst áhyggj­um af þessu og óskað eft­ir breyt­ing­um enda rýri þetta traust á sjóðunum. Lág­tekju­fólk fær ekki elli­líf­eyri um­fram fólk sem borgað hef­ur lít­il sem eng­in iðgjöld í líf­eyr­is­sjóð. Iðgjöld í líf­eyr­is­sjóð gagn­vart þessu launa­fólki birt­ast eins og hver ann­ar viðbót­ar­skatt­ur sem ekk­ert fæst fyr­ir.

Svar ráðherra gef­ur til kynna að aldraðir og ör­yrkj­ar veigri sér við að sækja vinnu í ljósi þess að fólk held­ur ekki nema litlu eft­ir af tekj­um sín­um. Gróft reiknað eru það kannski ná­lægt 20% þegar greidd­ur hef­ur verið tekju­skatt­ur og út­svar og búið er að skerða greiðslur al­manna­trygg­inga um 45%. Fólk í þess­ari aðstöðu býr í þessu til­liti við skatt­pró­sentu eins og sum­um kynni að þykja við hæfi að leggja á hæstu of­ur­laun á vinnu­markaði. Í svari ráðherra kem­ur fram að á ár­inu 2018 sættu aðeins 1.442 ein­stak­ling­ar skerðingu vegna at­vinnu­tekna. Þetta bend­ir til að fólk á líf­eyris­aldri sem fær greiðslur úr al­manna­trygg­ing­um og telj­ast vera 35.849 í svari ráðherra, telji naum­ast ómaks­ins virði að afla tekna með at­vinnu gagn­vart svo harka­legri skatt­lagn­ingu. Skerðing­ar vegna at­vinnu­tekna ganga gegn sjón­ar­miðum um lýðheilsu þar sem auk­in lífs­gæði fylgi virkri þátt­töku í at­vinnu­lífi og sam­fé­lagi.

Rík­is­sjóður hef­ur nærst á þess­um skerðing­um. Góð staða rík­is­sjóðs, sem gumað hef­ir verið af, er að stór­um hluta í boði þessa fólks svo hleyp­ur á tug­um millj­arða, eins og sést af svari ráðherra. Fólks sem ekk­ert á að fá og virðist hafa gleymst.

Raun­hæf­ar til­lög­ur til úr­bóta

Miðflokk­ur­inn vill bæta hag líf­eyr­is­fólks og hverfa frá hinum hóf­lausu skerðing­um, sem þeir búa við. Lagði flokk­ur­inn fram raun­hæf­ar og full­fjár­magnaðar til­lög­ur í þessu efni við af­greiðslu fjár­laga. Þær hefði þess vegna mátt fram­kvæma þegar í stað og rétt væri að hafa þær með í aðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar við þess­ar aðstæður. Hverfa má frá skerðing­um greiðslna al­manna­trygg­inga vegna at­vinnu­tekna upp að hæfi­leg­um tekju­mörk­um án þess það kosti rík­is­sjóð sem nyti viðbót­ar­skatt­tekna, eins og sýnt hef­ur verið fram á. Draga ber úr skerðing­um greiðslna al­manna­trygg­inga vegna líf­eyr­is- og fjár­magn­stekna. Ákveða ber að greiðslur al­manna­trygg­inga fylgi ákvæðum lífs­kjara­samn­ing­anna svo þeir sem minnst hafa verði ekki skild­ir eft­ir í þessu til­liti.
 
Höfundur:  Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokks­ins í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 31. mars, 2020