Risastórt nátttröll

Alþingi samþykkti í vikunni lög um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Stuðningurinn er veittur í formi endurgreiðslu á hluta af kostnaði sem fellur til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa verði um 400 milljónir króna. Þá verður stofnsett sérstök úthlutunarnefnd sem hefur með höndum úthlutun styrkjanna.

Þetta væri í sjálfu sér hið besta mál, ef ekki væri fyrir það að annar og miklu stærri vandi er skilinn eftir, þar sem er rekstur Ríkisútvarpsins, sem er eins og risastórt nátttröll á fjölmiðlamarkaði hérlendis.

Einkareknir fjölmiðlar glíma við mikinn rekstrarvanda sem hefur aukist síðustu ár, ekki síst vegna tilkomu netmiðla, sem fullnægt hafa fréttaþörf og fróðleiksfýsn margra. Þá er ekki öll sagan sögð, því tekjur innlendra fjölmiðla af auglýsingum hafa á sama tíma dregist verulega saman við það að erlendar efnisveitur taka til sín æ stærri hluta þeirra tekna.

Héraðsfréttamiðlar fá eilítinn skerf sem líta má á sem viðurkenningu á mikilvægu hlutverki þeirra í hinum dreifðu byggðum. Hvers virði er fjölmiðill sem er háður ríkinu? Hver verður trúverðugleiki hans? Og hvað er fjölmiðill? Er það fjölmiðill þar sem engin eiginleg fréttaöflun fer fram og mætti fremur kalla skoðanasíðu? Er ástæða til þess að ríkið styrki starfsemi af þessu tagi?

Þrátt fyrir að það kunni að hafa verið nauðsynlegt að styðja á einhvern hátt við frjálsa fjölmiðlun komu aðrar og betri leiðir til greina.

Í lögunum eru styrkir til einkarekinna fjölmiðla látnir líta út sem eins konar neyðaraðstoð við þá. Við þetta er það að athuga að á sama tíma og ríkisvaldið tekur einkarekna fjölmiðla upp á sína arma með ríkisstyrkjum eru skattgreiðendur skyldaðir til að greiða fimm milljarða til Ríkisútvarpsins.

Ekkert er heldur tekið á því að Ríkisútvarpið fær að beita öllu sínu afli í samkeppni við einkareknu fjölmiðlana á auglýsingamarkaði. Þar tekur ríkisfjölmiðillinn inn tvo milljarða, sem gætu nýst vanmáttugum frjálsum fjölmiðlum. Miklu nær væri að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í stað þess að leggja skattfé til einkarekinna fjölmiðla.

Þá er löngu tímabært að grípa til aðgerða vegna erlendra efnisveitna, sem sópa að sér auglýsingafé, en greiða enga skatta hér á landi.

Ríkisútvarpið hefur í sögulegu tilliti gegnt mikilvægu hlutverki, ekki síst á sviði þjóðlífs og menningar, en hlutverk þess á sviði almannavarna er e.t.v. ekki jafnt og á fyrri tíð.

Hið menningarlega hlutverk Ríkisútvarpsins ber að virða rétt eins og nágrannaþjóðir gera með rekstri sambærilegra stofnana. Starfsemi og umsvif stofnunarinnar er reyndar komin langt út fyrir slík mörk.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

kgauti@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 27. maí, 2021