Sala Landsbankans á fullnustueignum

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnum í dag og beindi fyrirspurn sinni um sölu Landsbankans á fullnustueignum til fjármála- og efnahagsráðherra.

"Herra forseti. Á þskj. 498, 166. mál, er svar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur um kaupendur fullnustueigna Landsbankans og félaga sem tengjast bankanum. Í stuttu máli er svarið ekki neitt. Hér er sagt, og vitnað í lög um þingsköp, að þingmenn geti spurt um opinber málefni. Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Þær upplýsingar sem fyrirspurnin lýtur að eru ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu eða stofnunum þess. Landsbankinn hf. og tengd félög eru ekki ríkisstofnanir eða félög sem annast stjórnsýslu eða veita opinbera þjónustu í skilningi framangreinds ákvæðis.“ — Þ.e. annaðhvort á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings.

Þannig að ekkert svar fæst við þessu og sagt er að ráðuneytið búi ekki sjálft yfir þessum upplýsingum. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist leita eftir þessum upplýsingum sem handhafi hlutabréfs í bankanum og fulltrúi landsmanna, eigenda bankans.

Númer tvö: Á heimasíðu Landsbankans er samantekt um almenn og sértæk markmið í rekstri Landsbankans hf. Þar er m.a., á bls. 7, talað um samfélagslega ábyrgð. Ég get ekki séð betur en að í þessum samningi séu stjórnvaldsfyrirmæli til Landsbanka Íslands um hvernig hann eigi að haga störfum sínum. Mig langar því í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli að sækjast eftir þessum upplýsingum sem fulltrúi eigenda og í annan stað, vegna þess að þetta svar stenst ekki skoðun og það stenst ekki lög, ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist greiða fyrir því að sá sem hér stendur fái svar við þessari mjög brýnu og réttlátu spurningu."

Fyrirspurn Þorsteins og svar ráðherra í þingsal má sjá hér