Sameinumst um öflugan landbúnað

Á ferð minni um Suðurkjördæmið hef ég komið á marga bæi og átt samtal við marga bændur, unga sem aldna. Öll höfum við verið sammála um að efla þurfi landbúnaðinn, tryggja og bæta rekstrarumhverfi bænda. Eitt sem liggur mörgum bændum á hjarta er kynslóðaskipting, hvernig eiga ungir framtíðarbændur að geta tekið við búum svo vel sé gert.

Miðflokkurinn hefur einn flokka átt frumkvæði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um ættliðaskipti bújarða þess efnis að jarðeigendum verði heimilt með einföldum hætti að ráðstafa jörð sinni milli ættliða. Markmið tillögunnar er að treysta búrekstur í landinu og að gera ábúendum jarða auðveldara að ráðstafa jörð innan ættar. Markmið laga um ættaróðal frá árinu 1943 var að draga úr þeirri skuldabyrði sem fylgir kynslóðaskiptingu en sú skuldabyrði veldur því að kaupendur geta oft litlu áorkað til umbóta á jörðum sínum. Eftir brottfall ákvæða um heimild til stofnunar nýrra ættaróðala úr jarðalögum er staðan alls ekki ólík en staðan í dag kallar á að farið verði í heildræna endurskoðun á því hvernig haga megi ættliðaskiptum á bújörðum til framtíðar þannig að nýliðun verði sem allra mest og að ungir bændur geti tekið við búum af eldri kynslóðum án þess að þurfa að taka á sig óviðráðanlega skuldabyrði.

Einnig hefur Miðflokkurinn lagt fram þingsályktunartillögu í 24 liðum ásamt greinargerð um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar í samstarfi við bændur. Í umsögn Landssamtaka sauðfjárbænda um tillöguna kemur fram að samtökin styðji tillöguna efnislega og fagna því að hún kemur fram og styðja eindregið að tillagan verði samþykkt. Landssamtök kúabænda segja í sinni umsögn að samtökin taki undir það sem kemur fram í tillögunni og hvetja til þess að hún verði samþykkt. Bændasamtök Íslands hafa einnig farið yfir efni tillögunnar og styðja eindregið að hún verði samþykkt.

Hvað stendur þá í vegi fyrir öflugum landbúnaði?

Þegar horft er yfir farinn veg tala staðreyndirnar sínu máli og ljóst er að áherslur Miðflokksins eru og hafa ávallt verið að stuðla að bættum og öflugum landbúnaði.

Árið 2020 skrifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í grein sinni “Staða íslensks landbúnaðar vandinn og lausnin” að öflugur landbúnaður væri spurning um ákvörðun.

Kæri kjósandi, þessi ákvörðunartaka liggur hjá þér í komandi alþingiskosningum. Miðflokkurinn hefur þor, getu og vilja til þess að láta verkin tala. Sameinumst því um að byggja upp öflugan landbúnað, fyrir Ísland allt.

 

Heiðbrá Ólafsdóttir er lögfræðingur, kúabóndi og skipar 3. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 9. september, 2021